Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. ágúst 2023 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Samstarf um landbúnað, grein birt í Morgunblaðinu, 30. ágúst 2023.

Samstarf um landbúnað

Innlendur landbúnaður nýtur mikils stuðning meðal almennings á Íslandi. Vörugæði eru til fyrirmyndar, landbúnaður er burðarstoð í búsetu víða um land og íslenskir bændur framleiða um það bil helming af allri matvöru sem neytt er hérlendis. Ég hef hins vegar fundið fyrir því á fundum með bændum að það er veruleg áskorun fyrir margar bændafjölskyldur að ná endum saman. Hækkun aðfanga vegna stríðsreksturs Rússa, dýrtíð og hækkandi fjármagnskostnaður hafa sett stórt strik í reikninginn. Stærsta hagsmunamál bænda, rétt eins og annarra íbúa landsins, er að við náum í sameiningu að kveða niður verðbólguna. Í því ljósi tók ég m.a. þá ákvörðun að staðfesta ekki drög að hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar. Finna verður aðra lausn fyrir Matvælastofnun og mun ég beita mér fyrir því.

Tryggjum sambærileg tækifæri

Í gær voru birt í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu um framleiðendafélög. Markmiðið er að heimildir bænda til samstarfs og samvinnu í afurðasölumálum séu formfestar og ekki þrengri en tíðkast í samanburðarlöndum. Samningsstaða bænda er afleit þegar markaðsöflunum einum er eftirlátið að skipuleggja virðiskeðju landbúnaðar, og ekki gengur til lengdar að bændur séu afgangsstærð í þeirri keðju. Forsenda fyrir öflugum landbúnaði á Íslandi er að efnahagslegur veruleiki bænda sé sá sami og annarra stétta landsins. Með því að tryggja að innlendir framleiðendur, þ.e. bændur, hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og starfsemi en tíðkast í nágrannalöndum okkar stígum við mikilvæg skref til að rétta hlut bænda í virðiskeðjunni. Framleiðendafélög í Evrópu eru afar fjölbreytt, sum eru samþætt félög með mikla starfsemi en önnur beita sér fyrir bættri stöðu framleiðenda. Þessi fjölbreytta flóra hefur sinn tilgang og hlutverk.

Framtíð landbúnaðar er björt

Þó að veðurfarið í sumar hafi verið ærið misjafnt til búskapar eru langtímahorfur landbúnaðar bjartar. Allar þær grundvallaraðstæður sem þarf fyrir blómstrandi búskap eru til staðar á Íslandi. Vatn, ákjósanleg skilyrði til ýmiss konar ræktunar, stuðningur almennings, hátt menntunarstig bænda og rúmt landrými gera að verkum að tækifærin eru mörg.

Mikilvægt skref til þess að styrkja samband neytenda og bænda er að bæta upplýsingagjöf. Með stuðningi frá matvælaráðuneytinu var hannað merki svo neytendur gætu séð á einfaldan hátt að uppruni matvæla væri innlendur. Á næstu misserum vænti ég þess að þetta merki sjáist í auknum mæli í verslunum á Íslandi. Sambærileg merki hafa skilað miklum árangri í því skyni að bæta stöðu bænda í nágrannalöndum. Við þurfum ekki að finna upp hjólið heldur tileinka okkur það sem gefist hefur vel annars staðar til þess að ná árangri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum