Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. september 2023 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp ráðherra á málþingi Biodice um vistkerfisnálgun í náttúru Íslands, 21. september 2023

Verndun líffræðilegrar fjölbreytni er ein stærsta áskorun samtímans. Mikil hnignun líffræðilegrar fjölbreytni á sér stað í heiminum og að stórum hluta er þessi hnignun lítt sýnileg. Vefur lífríkisins er flókinn, allt er tengt innbyrðis á flókinn máta og auk þess háð utanaðkomandi aðstæðum.

Breytingar á landnotkun og eyðing búsvæða, mengun og loftslagsbreytingar eru meðal stórra áhrifaþátta á líffræðilega fjölbreytni. Meira og minna allar athafnir mannsins hafa áhrif á lífríkið.

Stór hluti matvælaframleiðslu byggir á nýtingu lifandi auðlinda, náttúruauðlinda. Hvort sem um er að ræða vistkerfi sjávar, með þeim nytjastofnum sem eru svo mikilvægir fyrir íslenskt samfélag, eða gnótt af hreinu vatni og sjó sem getur hentað vel fyrir lagareldi. Jarðvegurinn og gróðurinn sem við nýtum til ræktunar er líka mikilvæg náttúruauðlind. Nýting auðlindanna hefur áhrif og hvernig okkur hefur tekist til er æði misjafnt. Vistkerfin hafa líka mismikla seiglu eða viðnámsþrótt til að jafna sig eftir óhóflega nýtingu. Skýrasta dæmið á Íslandi er eyðing skóganna og jarðvegsins sem má segja að sé óendurnýjanleg auðlind á mælikvarða mannsævinnar vegna þess hversu lengi hann er að myndast.

Í ráðuneyti mínu er unnið með málaflokka sem snúa að tengslum nýtingar auðlinda til framleiðslu matvæla og annarra samfélagslegra gæða. Stjórnun þessarar nýtingar er ekki einföld eigi að tryggja sjálfbærni til framtíðar. Við þurfum að hafa þekkingu á vistkerfunum, mismunandi þáttum þeirra, áhrifum utanaðkomandi aðstæðna eins og loftslags, og síðast en ekki síst þekkingu á áhrifum mismunandi nýtingar.

Við erum hér í dag til að ræða um vistkerfisnálgun. Vistkerfisnálgun er eitt af þessum hugtökum sem eru rauður þráður í alþjóðlegum samþykktum og umræðu um verndun lífríkis á jörðinni. Vistkerfisnálgun er grundvallarhugtak í málefnum líffræðilegrar fjölbreytni en hugtakið hefur verið skilgreint sem „auðlindanýting sem byggir á vísindalegri þekkingu á viðkomandi vistkerfi, eftirliti með ástandi þess og samræmdri heildarstjórnun á athöfnum manna til að viðhalda því ósködduðu“. Með öðrum orðum, að við mennirnir nýtum auðlindir náttúrunnar á sjálfbæran máta.

Vistkerfisnálgun er skrifuð inn í stefnur matvælaráðuneytisins, hvort sem það er matvælastefna, stefna um landgræðslu og skógrækt eða landbúnaðarstefna. Í vinnu við stefnumörkun fyrir sjávarútveg og lagareldi er einnig unnið með vistkerfisnálgun sem lykilhugtak.

Matvælaráðuneytið ákvað að fara í samstarf við BIODICE um skipulag þessa málþings en BIODICE er samstarfsvettvangur einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Ég fagna sérstaklega þessu samstarfi við þessa færu sérfræðinga. En hér munum við líka heyra sjónarmið samtaka, framleiðenda og sveitarfélaga varðandi það hvernig vistkerfisnálgun birtist í mismunandi viðfangsefnum, hafi, landi og í skipulagi.

Markmiðið með málþinginu er að skapa umræðu um hvernig við getum gert betur í nýtingu auðlinda þessa lands, þ.e. hvernig við getum tryggt að vistkerfisnálgun sé sú nálgun sem er ávallt í forgrunni í umgengni við náttúruauðlindir. Markmiðið er líka að nýta umræðuna hér inn í vinnu við aðgerðaáætlanir ráðuneytisins við matvælastefnu, landbúnaðarstefnu, stefnu um lagareldi, fyrir sjávarútveg og við verndun og endurheimt vistkerfa. BIODICE mun taka saman fyrir matvælaráðuneytið það sem hér kemur fram.

Takk fyrir áheyrnina og ég óska okkur árangursríks málþings.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum