Skipan þjóðaröryggisráðs
Í þjóðaröryggisráði eiga fast sæti forsætisráðherra, sem er formaður ráðsins, utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta. Enn fremur eiga sæti í ráðinu tveir alþingisþingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meiri hluta á Alþingi en hinn úr þingflokki minni hluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóri og fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
- Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, formaður
- Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra
- Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis
- Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis
- Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis
- Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri
- Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands
- Smári Sigurðsson, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar
- Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður
- Víðir Reynisson, alþingismaður
Þjóðaröryggisráð getur kallað til fleiri ráðherra til setu í ráðinu varðandi einstök mál sem eru til umfjöllunar hjá ráðinu og tekur þá viðkomandi ráðuneytisstjóri einnig sæti í því.
Embættismönnum og öðrum starfsmönnum ráðuneyta og opinberra stofnana og hlutafélaga sem og einstaklingum og fulltrúum lögaðila er skylt að mæta á fundi þjóðaröryggisráðs, sé þess óskað.
Ritari þjóðaröryggisráðs, sem forsætisráðherra tilnefnir, starfar með ráðinu og annast undirbúning funda og heldur utan um gögn ráðsins. Forsætisráðuneytið veitir ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess.
Ritari þjóðaröryggisráðs er Þórunn J. Hafstein. Netfang: [email protected]
Formaður þjóðaröryggisráðs
Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs og leiðir starf ráðsins.
Forsætisráðherra boðar til funda þjóðaröryggisráðs, samþykkir tillögur ritara þjóðaröryggisráðs eða einstakra ráðsmanna að verkefnum og dagskrá funda ráðsins og tillögur um hvaða gögn verði lögð fram á fundum ráðsins.
Forsætisráðherra tilnefnir ritara þjóðaröryggisráðs samanber 3.mgr. 6.gr. laga um þjóðaröryggisráðs.
Í umboði forsætisráherra og formanns þjóðaröryggisráðs annast ritari þjóðaröryggisráðs undirbúning og boðun funda ráðsins og tryggir að mál sem borin eru upp á fundum þjóðaröryggisráðs séu vel undirbúin og að viðeigandi samráð milli ráðuneyta sé viðhaft.
Forsætisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga um þjóðaröryggisráð, þar með talið um störf ritara og starfshætti þjóðaröryggisráðs, samanber 10.gr. laga um þjóðaröryggisráðs.
Ritari þjóðaröryggisráðs
Umsýsla vegna starfa þjóðaröryggisráðs og aðstoð við ráðið er í höndum ritara ráðsins í umboði forsætisráðherra.
Ritari þjóðaröryggisráðs, sem forsætisráðherra tilnefnir, starfar með ráðinu og annast undirbúning funda og heldur utan um gögn ráðsins.
Forsætisráðuneytið veitir ráðinu alla nauðsynlega starfsaðstöðu og aðstoð við störf þess. Ritari þjóðaröryggisráðs hefur daglega umsjón með framgangi lögbundinna verkefna ráðsins sem lýst er í lögum nr. 98/2016, undir stjórn forsætisráðherra sem formanns ráðsins, sem og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins.
Í samræmi við samþykkt þjóðaröryggisráðs á 2. fundi ráðsins eru meginverkefni ritara þjóðaröryggisráðs þessi:
- Greina helstu áskoranir og verkefni sem fram undan eru í ráðinu, svo halda megi utan um og framfylgja eftirlitsskyldu ráðsins um þjóðaröryggisstefnu í samræmi við ályktun Alþingis.
- Ljúka við samningu reglna um starfshætti þjóðaröryggisráðs.
- Gera tillögur um fundarefni ráðsins og verkefni í samráði við forsætisráðherra.
- Halda utan um allt starf ráðsins, annast undirbúning fyrir fundi og tryggja að viðeigandi samráð milli aðila sé viðhaft, m.a. við almannavarnaráð (áður almannavarna- og öryggismálaráð).
- Útbúa dagskrá, boða fundi ráðsins samkvæmt óskum forsætisráðherra og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, auk þess að rita fundargerðir.
- Funda reglulega með tengiliðum forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um starf þjóðaröryggisráðs.
- Leita til utanaðkomandi sérfræðinga varðandi einstök verkefni í nánu samráði við forsætisráðherra og ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis.
- Viðhalda góðum tengslum við alla þá sem með einum eða öðrum hætti tengjast verkefnum þjóðaröryggisráðs.
- Gera tillögur um samvinnuverkefni þjóðaröryggisráðs við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla og stuðla að því að ráðið beiti sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjöf um þau mál.
Ritari þjóðaröryggisráðs annast undirbúning og boðun funda ráðsins fyrir hönd forsætisráðherra og með samþykki hans og tryggir að mál sem borin eru upp á fundum þjóðaröryggisráðs séu vel undirbúin og að viðeigandi samráð milli ráðuneyta sé viðhaft. Í því skyni kallar ritari þjóðaröryggisráðs í umboði formanns ráðsins eftir upplýsingum frá ráðuneytum og stofnunum og gerir rökstudda tillögu til forsætisráðherra um dagskrárefni.
Þjóðaröryggi
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.