Hoppa yfir valmynd

Verkefni þjóðaröryggisráðs

Eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnu

Þjóðaröryggisráð hefur eftirlit með því framkvæmd þjóðaröryggistefnunnar sé í samræmi við ályktun Alþingis.  

Þjóðaröryggisráð kallar eftir greinargerðum einstakra ráðuneyta um hvernig ráðuneyti og stofnanir á þeirra málefnasviðum hafi unnið að framkvæmd einstakra áhersluþátta þjóðaröryggisstefnunnar.  Greinargerðir ráðuneyta eru ræddar í þjóðaröryggisráði. 

Að lokinni umfjöllun í þjóðaröryggisráði er Alþingi gerð grein fyrir hvernig þjóðaröryggisstefnan er framkvæmd  ásamt því að utanríkismálanefnd er upplýst um um þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar hverju sinni.

Skýrslan var unnin í samvinnu við þau ráðuneyti sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar hvert á sínu málefnasviði og byggir á greinargerðum ráðuneytanna. Gerð er grein fyrir því hvernig unnið hafi verið að framkvæmd stefnunnar, lagt mat á þann árangur sem hafi verið náð og komið á framfæri nýjum upplýsingum sem varðar framgang markmiða sem sett eru. Þá er gerð grein fyrir nauðsynlegum umbótum á næstu 12 mánuðum til þess að ná bættum árangri. Í skýrslunni er því leitast við að draga upp heildstæða mynd af því hvernig unnið hafi verið að framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland frá því að stefnan var sett til októbermánaðar 2018. 

Þjóðaröryggisráð stendur að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti þar sem miðað er við að þar sé um að ræða heildarendurskoðun stefnunnar, en ráðið getur þess á milli lagt til við Alþingi breytingar á stefnunni.

Samráðsvettvangur

Þjóðaröryggisráð er vettvangur reglubundins samráðs og samhæfingar um þjóðaröryggi. Forsætisráðherra boðar þjóðaröryggisráð reglulega til funda.

Minnisblað RLS um öryggisvottanir (PDF-skannað skjal)

Umsýsla vegna starfa þjóðaröryggisráðs er í höndum ritara þjóðaröryggisráðs. Ritari skal leitast við að tryggja að mál séu vel undirbúin sem borin eru upp í þjóðaröryggisráði og að viðeigandi samráð milli aðila sé viðhaft. Nýtur ritari þjóðaröryggisráðs aðstoðar tengiliðahóps, sem skipaður er fulltrúum tilnefndum af ráðuneytum, stofnunum og opinberum hlutafélögum. Hlutverk fulltrúa í tengiliðahópi  er að greiða fyrir upplýsingagjöf og skýrslugjöf til þjóðaröryggisráðs í samræmi við ákvæði 8. gr. laga um þjóðaröryggisráð, að vera til samráðs og ráðgjafar eftir þörfum vegna undirbúnings funda þjóðaröryggisráðs og við mótun verkefna þjóðaröryggisráðs.

Mat á ástandi og horfum í öryggis og varnarmálum

Þjóðaröryggisráð leggur mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjallar um önnur málefni er varða þjóðaröryggi. Miðað er við að fyrir liggi á hverjum tíma áreiðanlegt og hlutlægt mat á ástandi og horfum í öryggis og varnarmálum, sem stjórnvöld geta lagt til grundvallar við stefnumótun og áætlanagerð.

Samráð við almannavarna- og öryggismálaráð

Þjóðaröryggisráð skal eiga samráð við almannavarna- og öryggismálaráð um mál eða atburði sem kunna að snerta verksvið almannavarna- og öryggismálaráðs samkvæmt lögum um almannavarnir, nr. 82/2008 þ.e. um mótun stefnu í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára.

Efling fræðslu og lýðræðislegrar umræðu um þjóðaröryggismál

Þjóðaröryggisráði er ætlað að beita sér fyrir því að efla fræðslu og upplýsingagjöf, og fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla. 

Í þeim tilgangi að stuðla að hlutlægri og málefnalegri umfjöllun um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjafar um þjóðaröryggismál er í samvinnu við Hagstofu Íslands unnið að mótun áhættuvísa, þjóðaröryggisvísa, um þróun þeirra þátta sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.

Sérstakir fundir vegna atburða er kunna að hafa áhrif á þjóðaröryggi

Þjóðaröryggisráð fundar sérstaklega ef þeir atburðir hafa orðið eða eru yfirvofandi sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi.

Hlutverk ráðsins við slíkar aðstæður er að hafa yfirsýn yfir hvers konar neyðarástand og stuðla að framgangi samhæfðra ráðstafana til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.

Síðast uppfært: 3.5.2021 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira