Hoppa yfir valmynd

Dýralæknar og heilbrigðisstarfsmenn dýra

Dýralæknar og heilbrigðisstarfsmenn dýra starfa samkvæmt ákvæðum laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Samkvæmt lögunum er dýralæknum og heilbrigðisstarfsmönnum dýra skylt að standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari og velferð þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra. 

Þá skulu dýralæknar vera á verði gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma. Með starfi sínu er þeim skylt að leitast við að girða fyrir hættur sem stafað geta af sjúkum dýrum og neyslu spilltra búfjárafurða, af innflutningi lifandi dýra og búfjárafurða, efna, áhalda eða hluta sem borið geta með sér smitefni.

Dýralæknar

Dýralæknar eru þeir sem lokið hafa prófi frá dýralæknaháskóla sem viðurkenndur er af íslenskum stjórnvöldum. Einnig teljast þeir dýralæknar sem hafa heimild til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kveður á um nánari reglur um leyfisveitingu, menntunarkröfur og viðurkenndar menntastofnanir.

Matvælaráðherra veitir leyfi til að stunda dýralækningar hér á landi. Gefið er þá út leyfisbréf handa dýralækni til að stunda dýralækningar og dýralæknir undirritar eiðstaf þar að lútandi. Matvælastofnun heldur skrá yfir dýralækna sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar. 

Dýralækni er skylt að tilkynna Matvælastofnun um eftirfarandi:

  • Þegar dýralæknir hyggst hefja dýralæknisstörf og hvar aðsetur starfsemi hans er staðsett.
  • Þegar aðsetur starfsemi dýralæknis er flutt.
  • Starfslok sem dýralæknir.

Heilbrigðisstarfsmenn dýra

Heilbrigðisstarfsmenn dýra eru þeir sem lokið hafa prófi í einhverri grein heilbrigðisfræði dýra eða lokið námskeiði á viðkomandi sviði viðurkenndu af Matvælastofnun og fengið leyfi stofnunarinnar til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður dýra hér á landi. 

Dýrahjúkrunarfræðingur telst sá sem lokið hefur prófi í dýrahjúkrun frá skóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum. Nánar er kveðið á um nám og menntunarskilyrði fyrir hverja starfsgrein í reglugerð ásamt reglum um leyfisveitingu. Matvælastofnun heldur skrá yfir heilbrigðisstarfsmenn dýra sem hafa leyfi til að starfa hér á landi.

Héraðsdýralæknar

Héraðsdýralæknar sinna opinberum eftirlitsstörfum og hafa m.a. eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu og lyfjanotkun vegna búfjár samkvæmt lyfjalögum. Einnig hafa héraðsdýralæknar með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða í sínum umdæmum. Einnig hafa héraðsdýralæknar eftirlit með velferð búfjár og öðrum dýrum eftir því sem lög kveða á um.

Matvælastofnun hefur sex umdæmaskrifstofur og við hverja þeirra starfar héraðsdýralækni en einnig er heimilt að ráða dýralækni og aðra eftirlitsmenn til stoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna. Umdæmin eru:

  • Suðvesturumdæmi: Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Álftanes, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
  • Vesturumdæmi: Akraneskaupstaður, Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Kaldrananeshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Skorradalshreppur, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
  • Norðvesturumdæmi: Akrahreppur, Blönduósbær, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
  • Norðausturumdæmi: Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
  • Austurumdæmi: Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vopnafjarðarhreppur.
  • Suðurumdæmi: Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.

Sérgreinadýralæknar

Sérgreinadýralæknar sinna verkefnum hjá Matvælastofnun m.a. á sviði sóttvarna, dýravelferðar, dýralyfja, dýraheilbrigðis og heilbrigðis dýraafurða. Sérgreinadýralæknum er skyld að vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, forvarnarstarfi og eftirlit með framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Þá skulu sérgreinadýralæknar hafa frumkvæði að sýnatökum, rannsóknum og öðrum aðgerðum til að stuðla að heilbrigði dýra, velferð dýra og öryggi búfjárafurða.

Dýralæknaráð

Matvælaráðherra skipar svokallað dýralæknaráð sem er Matvælastofnun til ráðuneytis. Ráðið fjallar einnig um innflutning búfjár og erfðaefnis þess sé innflutnings óskað. Einnig fjallar ráðið um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti sem snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þess þegar þess er óskað af ráðherra eða Matvælastofnun. Þá getur ráðherra eða Matvælastofnun vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknaþjónustu til ráðsins. Við úrvinnslu slíkra mála er ráðherra skylt að fá til starfa með dýralæknaráði, lögfræðing sem uppfyllir skilyrði um skipan til starfa héraðsdómara. Dýralæknaráð er skipað fjórum dýralæknum til fimm ára í senn. Einn fulltrúi er tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, annar af stjórn Dýralæknafélags Íslands, þriðji af stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og fjórði án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Varamenn eru tilnefndir með sama hætti. 

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum