Hoppa yfir valmynd

Matvælastefna

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra lagði fram í febrúar drög að áherslum og verklagi við gerð matvælastefnu í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er fjallað um matvæli, sjávarútveg, landbúnað og fiskeldi og hvernig skuli unnið að stefnumótun á næstu árum.

Lesa um útfærslu og verklag við matvælastefnu.

Vinnuhópur á vegum ráðuneytisins vinnur að útfærslu stefnunnar og verður hún kynnt með haustinu á Matvælaþingi sem þá verður haldið í fyrsta sinn. Til grundvallar vinnunnar liggja m.a. sjávarútvegsstefna, landbúnaðarstefna og fiskeldisstefna.

Einnig liggur til grundvallar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar þar sem segir: „Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi eru þungamiðja í innlendri matvælaframleiðslu sem verður efld á kjörtímabilinu. Með auknum áhuga á hreinum afurðum, sem framleiddar eru með endurnýjanlegri orku og grunnu kolefnisspori á Íslandi, skapast mikil sóknarfæri í framleiðslu matvæla og ýmissa hliðarafurða. Við viljum búa þessari starfsemi samkeppnishæft umhverfi til að gera henni kleift að standa enn betur undir því fjölþætta hlutverki sem hún gegnir í íslensku samfélagi, meðal annars við að skapa atvinnu og byggðafestu, auk þess að vera mikilvægur valkostur fyrir neytendur á Íslandi. Skipulag náms sem tengist matvælaframleiðslu á framhalds- og háskólastigi verður endurskoðað með það að markmiði að styrkja bæði menntun og rannsóknir.“

Í framhaldinu mun ráðherra leggja fram þingsályktunartillögu að matvælastefnu fyrir Alþingi sem verður leiðarstef í matvælaframleiðslu á Íslandi. Með þessari vinnu er lagður grunnur fyrir sjálfbæra stefnu Íslands í málaflokknum þar sem markmið og aðgerðir eru skýrt afmarkaðar til langs tíma.

Sjávarútvegsstefna 

Matvælaráðherra ætlar að stofna til opins og gagnsæs verkefnis fjölmargra aðila sem unnið verður að með skipulegum hætti á kjörtímabilinu. Leiðarstefið í þeirri vinnu verður hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfið.

Fjölmenn nefnd sem ráðherra stýrir hefur yfirsýn yfir starf fjögurra starfshópa um tiltekin verkefni. Starfshóparnir eru Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.

Fyrirhugaðar lokaafurðir þessa starfs eru m.a. ný heildarlög um stjórn fiskveiða eða ný lög um auðlindir hafsins á árinu 2024 og aðrar lagabreytingar, verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar og hafrannsókna ásamt gagnsæi og kortlagning eignatengsla í sjávarútvegi.

„Það er mín trú að með lýðræðislegri og gagnsærri nálgun getum við komið á raunverulegum umbótum sem auka munu samfélagslega sátt.“ Segir Svandís Svavarsdóttir.

Landbúnaðarstefna 

Starfshópi um matvælastefnu verður einnig ætlað að vinna að áframhaldandi þróun á fyrirliggjandi tillögu að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem lögð verður fyrir Alþingi samhliða eða sem hluti af matvælastefnunni. Í tillögu verkefnisstjórnar er lagt til að áherslum í styrkjakerfi landbúnaðarins verði breytt og dregið verði úr framleiðslutengingu stuðningsins. Horft verði til þess að styðja við búsetu í sveitum óháð því hvaða framleiðslugrein er stunduð og lögð verði aukin áhersla á jarðrækt, aðra landnýtingu, landvörslu og loftslagsmál. Þá kemur stefnumótun í landbúnaðarmálum ekki síst fram í búvörusamningum en síðari endurskoðun samninganna fer fram árið 2023.

Grænmeti

Fiskeldisstefna 

Mótuð verður heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Þar verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna. Með hliðsjón af þessum atriðum, sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála og öðrum áherslum ráðherra mun stefnumótun í fiskeldi skiptast í nokkur aðskilin verkefni.

Að ósk ráðherra hefur ríkisendurskoðun samþykkt að fara í stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis. Þá verður unnið mat á stöðu greinarinnar þar sem greindur verður bæði þjóðhagslegur ávinningur greinarinnar í heild. Einnig staðbundinn ávinningur byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Gjaldtaka og skipting hennar verða sérstaklega skoðuð ásamt fleiri þáttum.

Síðast en ekki síst þarf að móta umhverfi þar sem verðmætasköpun í sátt við samfélag og umhverfi er í forgrunni. Slíkt umhverfi þarf að taka mið af áskorunum og tækifærum og verður greint af innlendum og erlendum sérfræðingum og ráðgjafafyrirtækjum. Stefnt er því að kynning og samráð um langtímastefnumótun í fiskeldi fari fram á vormánuðum ársins 2023.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum