Hoppa yfir valmynd

Búvörusamningar

Mælt er fyrir um gerð búvörusamninga í 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993 og 3. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Samningarnir eru gerðir milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Í samningunum er fjallað um stjórn á framleiðslu búvara en það eru m.a. afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla og loðdýra, aðrar nytjajurtir og afurðir hlunninda. Þá er í samningunum kveðið á um framlög til landbúnaðarins. Í samningunum er m.a. fjallað um:

  • Þróun nýrra framleiðsluhátta og nýrra greina landbúnaðarins.
  • Framfarir, aukna hagkvæmni í framleiðslu á búvörum og samkeppnishæfni landbúnaðar.
  • Vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.
  • Hvernig tryggt verði nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu, nýttir verði sölumöguleikar búvara erlendis og innlend aðföng til framleiðslu búvara með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu.
  • Jöfnuð milli framleiðenda í hverri búgrein og einnig að kjör þeirra sem stunda landbúnað sé í samræmi við kjör annarra starfstétta.

Samningarnir eru gerðir til tíu ára í senn en eru endurskoðaðirtvisvar á gildistíma samninganna þar sem litið er til þess hvort markmið samninganna hafi náðst og lagt á það mat hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar miðað við þá reynslu sem komin er á framkvæmd samninganna.

Ráðuneytið annast framkvæmd búvörusamninga. Um nánari útfærslu samninganna er fjallað í reglugerðum sem settar eru með stoð í búvöru- og búnaðarlögum.

Hér má finna samkomulag um endurskoðun búvörusamninga frá 16. janúar 2024.

Helstu breytingar í samkomulaginu eru að hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt sem helst þannig óbreytt frá árinu 2024 og út gildistíma samninga eða til 31. desember 2026. Þá eru gerðar minni háttar breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. Einnig eru gerðar breytingar á rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðar þar sem m.a. er kveðið á um að óráðstöfuðu fjármagni sem ætlað er til aðlögunar að lífrænni framleiðslu verði ráðstafað í samræmi við aðgerðaáætlun til eflingar lífrænni ræktun. Breytingunum er jafnframt ætlað að efla fjölbreyttari ræktun.

Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða

Samningurinn er gerður á grundvelli 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Aðilar samningsins eru íslenska ríkið, Samband garðyrkjubænda og Bændasamtök Íslands.

Markmið samningsins er:

  • Að auka framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og aukna vitund almennings um hollustu og heilbrigða lífshætti.
  • Að stuðla að fjölbreyttara framboði á garðyrkjuafurðum árið um kring á sanngjörnu verði fyrir neytendur.
  • Að auka fagmennsku, hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar garðyrkjuframleiðslu.
  • Að treysta tekju- og starfsgrundvöll framleiðenda garðyrkjuafurða.
  • Að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu.

Í samningnum er fjallað um:

  • Beingreiðslur til framleiðenda á gúrkum, tómötum og paprikum.
  • Niðurgreiðslu á raforku.

Nánari útfærsla á samningnum er að finna í reglugerð um stuðning við framleiðendur garðyrkjuafurða nr. 1234/2016.

Hér má finna samkomulag um breytingar á starfsskilyrðum framleiðenda garðyrkjuafurða frá 14. maí 2020. 

Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar

Samningurinn er gerður á grundvelli 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Aðilar samningsins eru íslenska ríkið, Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands.

Markmið samningsins er:

  • Að efla íslenska nautgriparækt, skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og undirbúa hana undir áskoranirnæstu ára.
  • Að hvetja til þróunar og nýsköpunar með heilnæmi, gæði afurða, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
  • Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu nautgripaafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.
  • Að auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.
  • Að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir innanlandsmarkað.
  • Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.
  • Að framleiðendur fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni og skapa aðstæður til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum.
  • Að greinin geti endurnýjað framleiðsluaðstöðu í samræmi við auknar kröfur um aðbúnað og velferð gripa.

Í samningnum er fjallað um:

  • Greiðslur út á greiðslumark.
  • Innlausn greiðslumarks.
  • Greiðslur fyrir innvegna mjólk.
  • Gripagreiðslur.
  • Greiðslur til framleiðenda nautakjöts.
  • Fjárfestingastuðning.

 Nánari útfærsla á samningnum er að finna í reglugerð um stuðning í nautgriparækt.

Hér má finna samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 25. október 2019

Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar

Samningurinn er gerður á grundvelli 30. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Aðilar samningsins eru íslenska ríkið, Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands.

Markmið samningsins er: 

  • Að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi. Það verði gert með því að hlúa að þeirri menningu sem tengist sauðfjárrækt um leið og stuðlað er að framþróun, nýsköpun, nýliðun og eflingu byggðar um allt land.
  • Að stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu.
  • Að treysta stoðir sauðfjárræktar í byggða- og atvinnulegu tilliti.
  • Að auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.
  • Að stuðla að fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur.
  • Að efla gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og aðra þætti sem henni tengjast þar með talið velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu.
  • Að efla markaðsstarf, nýsköpun og markaðsvitund í sauðfjárrækt með það fyrir augum að auka verðmætasköpun og möguleika greinarinnar til að nýta sóknarfæri á erlendum mörkuðum og gagnvart ferðamönnum.

Í samningnum er fjallað um:

  • Beingreiðslur.
  • Gæðastýringargreiðslur.
  • Greiðslur vegna ullarnýtingar.
  • Fjárfestingastuðning.
  • Býlisstuðning.
  • Svæðisbundinn stuðning.
  • Aukið virði sauðfjárafurða.

Nánari útfærsla á samningnum er að finna í reglugerð um stuðning við sauðfjárrækt nr. 1151/2016 og reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013, með síðari breytingum.

Hér má finna samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 11. janúar 2019.

Rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins

Samningurinn er gerður á grundvelli 3. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Aðilar samningsins eru íslenska ríkið og Bændasamtök Íslands.

 Markmið samningsins er:

  • Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu búvara ásamt stuðningi ríkisins stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og fjölbreyttu framboði gæðaafurða á sanngjörnu verði.
  • Að tryggja að bændum standi til boða leiðbeiningaþjónusta og skýrsluhaldshugbúnaður til að styðja við framgang markmiða samningsins.
  • Að við framleiðslu búvara sé gætt sjónarmiða um velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbæra landnýtingu.
  • Að auka vægi lífrænnar framleiðslu.
  • Að stuðningur ríkisins stuðli að áframhaldandi þróun í greininni og bættri afkomu bænda.
  • Að auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum.

Hér má finna samkomulag um breytingar á samningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins frá 19. febrúar 2016.

Í samningum er fjallað um:

  • Leiðbeiningaþjónustu.
  • Kynbótaverkefni.
  • Jarðræktarstyrkir.
  • Landgreiðslur.
  • Nýliðunarstuðning.
  • Lífræna framleiðslu.
  • Mat á gróðurauðlindum.
  • Geitfjárrækt.
  • Fjárfestingastyrki í svínarækt.
  • Úreldingabætur í svínarækt.
  • Þróunarfjármuni í garðyrkju, nautgriparækt og sauðfjárrækt.
  • Stuðning um átaksverkefni skógarbænda.
  • Framlög til Erfðanefndar landbúnaðarins.

Bændasamtök Íslands, matvælaráðuneytið og ákveðin félög og aðilar sjá um ráðstöfun framlaga samkvæmt samningnum.

Nánari útfærsla á samningnum er að finna í reglugerð um stuðning við almennan landbúnað nr. 430/2021.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 17.1.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum