Hoppa yfir valmynd

Nefndir í sjávarútvegi og fiskeldi

Fiskræktarsjóður

Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Stjórn Fiskræktarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög um sjóðinn og tekur ákvarðanir um úthlutanir. Skipunartími fjögur ár í senn.

Fisksjúkdómanefnd

Skv. 4. gr. laga um varnir gegn fisksjúkdómum skipar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fimm manna fisksjúkdómanefnd; einn samkvæmt tilnefningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu Veiðimálastofnunar, einn samkvæmt tilnefningu Fiskistofu og yfirdýralækni, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. 

Matvælastofnun skal hafa forgöngu um að stundaðar séu fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í lögum þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur. Skipunartími núverandi nefndar er frá 18. júlí 2016 til næstu fimm ára.

Samstarfsnefnd um bætta umgengni um auðlindir sjávar

Hlutverk nefndarinnar er að meta í hve miklum mæli sjávarafla er varpað fyrir borð á íslenska fiskiskipaflotanum. Hún skal einnig leggja mat á að hvaða leyti núverandi aðferðir við veiði leiði til óæskilegs aukaafla. Í þessu skyni er nefndinni falið að kynna sér veiðarfæratilraunir og þróun veiðarfæra og gera tillögur um með hvaða hætti megi breyta reglum til að auka kjörhæfni þeirra. Þá er nefndinni falið að kanna með hvaða hætti megi bæta nýtingu aukaafla og hvernig unnt sé að auka virkni veiðieftirlits.

Starfshópur um fjareftirlit með fiskiskipum

Starfshópur, skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að tryggja fjareftirlit með fiskiskipum og með vísan til samkomulags frá 8. ágúst 2001 um "verkaskiptingu milli sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskistofu og Landhelgisgæslu Íslands á sviði fjareftirlits með fiskiskipum."    

Starfshópur um flatfiskarannsóknir

Verkefni starfshópsins er m.a. að miðla þekkingu og reynslu sjómanna og útvegsmanna til fiskifræðinga og fiskveiðistjórnenda, efla úrvinnslu tiltækra gagna og stuðla að markvissum og hagkvæmum rannsóknum á flatfiskum, með það að  markmiði að auka þekkingu og bæta ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu  til aukinnar verðmætasköpunar. Í starfshópnum sitja fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi auk sameiginlegs fulltrúa frá samtökum skipstjórnarmana, vélstjórnarmanna og sjómanna. 

Starfshópur um veiðarfæri, veiðisvæði og verndunarsvæði

Starfshópnum er ætlað að gera faglega heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum.

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi

Starfshópur skipaður skv. ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hefja vinnu við stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Ástæðan er að fiskeldi er ört vaxandi atvinnugrein og mikilvægt er að skilyrði og umgjörð um greinina séu eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við umhverfið. Við stefnumótunina verði horft til annarra landa sem hafa náð góðum árangri í þessari grein. Stefnt er að því að hópurinn skili af sér fyrir 1. júlí 2017. 

Starfshópur um viðhald gæða í ferskfiski

Starfshópur skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að skoða gæði í ferskfiski, en talsverð aukning er í útflutningi á ferskum fiski og kröfur neytenda eru miklar. Mikilvægt er að standa vörð um og viðhalda gæðum í ferskfiski. Verkefni hópsins verður m.a. að skoða hvort ákveðin veiðisvæði tryggi betri gæði en önnur og að miðla þekkingu og reynslu um það hvernig best er að tryggja sem best gæði í ferskum fiski. 

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn skv. lögum um fiskeldi. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:

  1. skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra
  2. taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum
  3. taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár
  4. tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

Skv. 2. mgr. 8. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, skipar sjávarútvegs- og
landbúnaðarráðherra níu menn í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Af þeim skulu Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna tilnefna einn fulltrúa hvert og einn fulltrúa sameiginlega. Þá skal Landssamband íslenskra útvegsmanna tilnefna þrjá fulltrúa og Landssamband smábátaeigenda einn fulltrúa. Loks skipar ráðherra formann nefndarinnar án tilnefningar en að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

Úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla

Skv. 6. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla skipar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þriggja manna nefnd til að úrskurða álagningu gjalds skv. 1. gr. og jafnmarga menn til vara. Skipunartími er til þriggja ára í senn.

Veiðigjaldsnefnd

Helstu verkefni nefndarinnar eru að ákvarða sérstakt veiðigjald, sbr. 9. gr. laga um veiðigjald, og vera ráðherra til ráðgjafar.

Nefndin skal m.a. eiga samstarf við sérfræðinga og fagaðila á sviði útgerðar og fiskvinnslu, auk þess að gæta lögskylds samráðs við þingmannanefnd skv. 5. gr. laga um veiðigjöld.

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum