Hoppa yfir valmynd

Sjávarútvegur

Undir málefni sjávarútvegs falla rannsóknir, verndun og stjórn á nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda hafsins og hafsbotnsins, sem og stjórnun svæða þar sem þær eru nýtanlegar.

Við Ísland eru gjöful fiskimið og veiðar og vinnsla sjávarfangs voru ein helsta undirstaða uppbyggingar velferðarríkis á Íslandi. Meginstefna íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegi er að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri nýtingu lifandi náttúruauðlinda í hafi, byggðri á sterkum vísindalegum grunni. Heilbrigt lífríki og sjálfbær auðlindanýting er forsenda græns vaxtar og þar með öflugs atvinnulífs.

Ísland hefur lengi verið meðal 20 aflahæstu þjóða heims samkvæmt gögnum sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, safnar.  Árlegur heildarafli íslenskra skipa hefur þó sveiflast verulega. Á árunum frá 1993-2015 nam hann frá rúmlega 1,0 milljón tonna upp í 2,2 milljónir tonna. Meirihluti þessa afla telst uppsjávarafli, þ.e. afli í loðnu, síld, kolmunna og makríl. Um þriðjungur telst til botnfiskafla, en þar er þorskur sú tegund sem skilar mestu aflaverðmæti. Ítarlegt talnaefni um sjávarútveg er að finna á síðu Hagstofu Íslands, undir Atvinnuvegir/sjávarútvegur

Nærri lætur að um þriðjungur af afla íslenskra skipa sé úr svonefndum deili- eða flökkustofnum, þ.e. fiskistofnum sem halda sig ekki eingöngu innan íslenskrar efnahagslögsögu. Sem dæmi um slíka stofna má nefna loðnu og makríl. Um veiði úr þessum stofnum þarf Ísland að semja við önnur ríki ýmist beint eða innan svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarsamtaka.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum