Hoppa yfir valmynd

Fiskveiðistjórnunarkerfið

Fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi

Hafrannsóknastofnun, ráðgjafarstofnun hafs og vatna, ber ábyrgð á rannsóknum- og ráðgjöf fyrir sjávarútveginn. Stofnunin hefur með því með höndum að meta ástand stofna og gefa ráðherra sjávarútvegsmála ráðgjöf um heildarafla í hverjum nytjastofni um sig fyrir komandi veiðitímabil, sem í flestum tilvikum er afmarkað við svonefnt fiskveiðiár, þ.e. frá 1. september til 31. ágúst. Ráðgjöf fyrir marga helstu nytjastofna Íslendinga, tekur mið af langtíma nýtingarstefnu og aflareglu sem samþykktar hafa verið af ríkisstjórninni.   

Að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar ákveður ráðherra leyfilegan heildarafla hverrar tegundar fyrir komandi veiðitímabil. Heildaraflanum er síðan úthlutað á fiskiskip samkvæmt aflahlutdeildum, eftir að dregið hefur verið frá tiltekið aflamagn, allt að 5,3%, vegna annarra ráðstafana, t.d. strandveiða, byggðakvóta, skel- og rækjubóta og fleira. Sem dæmi má taka að hafi fiskiskip yfir að ráða 1% aflahlutdeildar í þorski og heildarafli til úthlutunar á fiskveiðiári er 280.000 tonn, fær skipið 2.800 tonnum úthlutað. Sú úthlutun er aflamark skipsins á fiskveiðiárinu, þ.e. það magn sem heimilað er að veiða frá skipinu. Bæði aflahlutdeild og aflamark hvers fiskveiðiárs, er heimilt að flytja milli skipa að fengu leyfi Fiskistofu samkvæmt nánari reglum. Öllum fiskiskipum er skylt að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Íslendingar semja á hverju ári við aðrar þjóðir um stjórnun veiða úr deili- og flökkustofnum, þ.e. um heildarafla í stofninn og skiptingu hans milli ríkja. Það er ýmist gert í beinum viðræðum tveggja eða fleiri ríkja, þ.e. með tvíhliðasamningum eða strandríkjasamningum eða með heildarsamkomulagi innan svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana. Sem dæmi má nefna að Ísland, Noregur og Grænland semja um heildarafla í loðnustofninn og skiptingu hans milli ríkja. Annað dæmi er rækja á Flæmingjagrunni, en um heildarafli og skipting hans er samið á ársfundum NAFO sem er svæðisbundin fiskveiðistjórnunarstofnun á NV-Atlantshafi. Ráðgöf um heildarafla í stofna sem þessa getur verið ýmist í höndum vísindanefnda innan fiskveiðistjórnunarstofnananna eða í höndum óháðra stofnanna, s.s. Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, sem hefur ríkt hlutverk á NA-Atlantshafi. Þegar samkomulag hefur náðst um heildarafla og hlut Íslands lýtur skipting aflans niður á skip almennt sömu reglum og gilda um úthlutun afla niður á skip eftir aflahlutdeild hvers skips. Loks má geta þess að Landhelgisgæslan og Fiskistofa taka ríkan þátt í veiðieftirliti á Norður-Atlantshafi sem hefur þann megintilgang að uppræta veiðar án stjórnar, eða svonefndar sjóræningjaveiðar.

Byggðakvóti 

Byggðakvóta má skipa í almennan og sértækan byggðakvóta.
Almennur byggðakvóti er skilgreindur í  10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar segir að ráðherra sé heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr laganna sem hér segir:

  1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstaka tegunda.
  2. Til stuðnings byggðarlögum, í samráði við Byggðastofnun, þannig: 

a) Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski.

b) Til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum og sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í byggðarlögunum. Heimilt er að ráðstafa aflaheimildum samkvæmt þessum lið til allt að þriggja ára í senn.

Sértæki byggðakvótinn er skilgreindur í 10. gr. a. í lögum um stjórn fiskveiða. Þar segir að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflahlutdeild sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laganna, til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Strandveiðar

Strandveiðar  eru veiðar smábáta á botnfiski, með handfæri sem eru leyfðar frá maí til ágúst ár hvert en lúta einnig sérstakri svæðastjórnun samkvæmt 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Ráðherra sjávarútvegsmála setur hámarksafla og nánari reglur fyrir strandveiðar á hverju ári með reglugerð. Meðal ársafli í strandveiðum var um 8.600 tonn af botnfiski á árunum 2010-2016. Um afla í strandveiðum og fjölda báta eru nánari upplýsingar á vef Fiskistofu 

Fiskmarkaðir

Nokkrir fiskmarkaðir með sjávarafla eru starfandi á Íslandi og selja afla skipa til vinnslu. Um þessa markaði gilda lög um uppboðsmarkaði sjávarafla.

Veiðigjald

Veiðigjald er lagt á allan afla íslenskra fiskiskipa. Markmið gjaldsins er að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.  Um ákvörðun gjaldsins og álagningu þess fer samkvæmt lögum um veiðigjald

Nánari upplýsingar um veiðigjald eru á vef Fiskistofu.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum