Hoppa yfir valmynd

Opinberar framkvæmdir

Málaflokkurinn opinberar framkvæmdir ríkisins heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Framkvæmd telst opinber framkvæmd ef um er að ræða gerð, viðhald eða breytingar á mannvirki,  enda nemi kostnaður ríkisins a.m.k. 10 m.kr., auk virðisaukaskatts. 

Teljist framkvæmd vera opinber framkvæmd í skilningi laga um skipan opinberra framkvæmda skal frá undirbúningi til loka framkvæmdar fylgja ákveðinni málsmeðferð eða boðleið sem mælt er fyrir um í lögunum. Þessi málsmeðferð skiptist í frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat.

Málsmeðferð - skýringarmynd

Þrátt fyrir að hlutaðeigandi fagráðuneyti sé almennt verkkaupi einstakra framkvæmda ríkisins þá er fjármálaleg yfirstjórn tveggja fyrstu þáttanna, þ.e. frumathugunar og áætlunargerðar, hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Sérstök þjónustustofnun á vegum ríkisins, Framkvæmdasýsla ríkisins,  hefur með höndum yfirstjórn tveggja síðari þátta opinberra framkvæmda, þ.e. hinni eiginlegu verklegu framkvæmd og skilamati þegar verklegu framkvæmdinni er lokið. 

Framkvæmdasýslunni er ætlað að byggja upp á einum stað innan ríkisgeirans sérþekkingu á verklegum framkvæmdum enda mikilvægt að ríkið sem verkkaupi búi yfir slíkri þekkingu.  Sé eftir því leitað getur Framkvæmdasýsla ríkisins einnig haft umsjón með frumathugun og áætlunargerð. Stofnunin sér um útboð, annast gerð samnings við verktaka, ræður eftirlitsaðila og ber ábyrgð á störfum hans og tekur ákvarðanir um verkið innan ramma verksamnings og samnings stofnunarinnar við verkkaupa. 

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er fjármála- og efnahagsráðuneytinu til ráðuneytis um fjármálalega framkvæmd laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda. Nefndin hefur það hlutverk að leiða saman sjónarmið eignaraðila opinberra framkvæmda á undirbúnings- og framkvæmdastigi og rannsaka frumathugun og áætlunargerð sem er undanfari verklegrar framkvæmdar. Nefndin fylgist að öðru leyti með framkvæmd hinnar fjármálalegu hliðar opinberra framkvæmda. Nefndin hefur aðsetur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  Í ráðgjöf sinni til fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur nefndin mat á eftirfarandi:

  • Hvort frumathugun og áætlunargerð uppfylli þau skilyrði sem þeim eru sett.
  • Hvort verkframkvæmdin sé tilbúin til útboðs og fullnægjandi fjárheimildir fyrir hendi. 

Margir ríkisaðilar koma almennt að opinberum framkvæmdum ríkisins.  Þó Framkvæmdasýsla ríkisins leiki þar aðalhlutverk þá gegna Ríkiskaup veigamiklu hlutverki við útboð á verkframkvæmdum ríkisins og Ríkiseignir sjá almennt um rekstur og viðhald fasteigna ríkisins eftir að þær hafa verið byggðar.   

 

 


Sjá einnig:

Síðast uppfært: 19.10.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum