Hoppa yfir valmynd

Ríkisjarðir og annað land í eigu ríkisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með mál er varða ríkisjarðir og annað land í eigu ríkisins fyrir utan þjóðlendur. Í byrjun ársins 2015 var stofnuninni Ríkiseignum komið á fót sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Ríkiseignir starfa í umboði ráðuneytisins og annast daglega umsýslu með jarðeignum í eigu ríkissjóðs, ábúðarmál, umsjón með leigusamningum á lóðum og landi, innheimtu jarðarafgjalda og leigu og margvísleg önnur verkefni. Í samræmi við almenna stefnumörkun um miðlæga eignaumsýslu ríkiseigna fara Ríkiseignir með alla daglega umsýslu jarðeigna ríkisins með það að markmiði að tryggja hagkvæma og samræmda umsýslu slíkra eigna. Ríkiseignir fara af þeim sökum einnig með yfirumsjón með jörðum og jarðarhlutum annarra opinberra aðila sem fara með umráð tiltekinna jarða sem tengjast lögbundnum verkefnum þeirra.

Ríkissjóður Íslands á alls um 450 jarðir og þar af fara Ríkiseignir með daglega umsýslu um 315 jarða. Jarðir í umsjón Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Háskólans á Hólum, eru alls um 96. Þá eru einnig um 39 jarðir í umsjón annarra aðila á vegum ríkisins.

Allar jarðir í eigu ríkissjóðs má sjá í kortavefsjá Ríkiseigna. Kortavefsjáin gefur yfirlit yfir jarðir ríkisins, hvar þær eru staðsettar á landinu og hver fer með umráð tiltekinnar jarðar. Kortavefsjánni er ætlað bæta miðlæga skráningu fyrir ríkisjarðir ásamt því að auka aðgengi almennings að upplýsingum um land í eigu ríkisins.

Flestar jarðir í umsjón Ríkiseigna eru í ábúð en 122 ábúðarsamningar eru í gildi hjá Ríkiseignum vegna bújarða. Þá eru jafnframt í gildi yfir 100 leigusamningar um leigu á jörðum m.a. til slægna eða beitar. Stór hluti bújarða og eyðijarða í eigu ríkissjóðs er samkvæmt þessu nýttur til landbúnaðar.

Auk jarða á ríkið mikið land, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Í sumum tilvikum er um að ræða aflögð lögbýli, víðáttumikil uppgræðslusvæði Landgræðslu ríkisins, skógræktarreiti Skógræktar ríkisins, svæði sem Varnarliðið hafði til umráða og svo fjölmarga skika og lóðir.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum