Hoppa yfir valmynd
14. mars 2005 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fundargerð 3. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík hinn 14. mars 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Össur Skarphéðinsson boðaði forföll. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Eftirfarandi erindi sem borist hafa nefndinni voru lögð fram: Beiðni frá ríkisstjórninni um að stjórnarskrárnefnd taki skýrslu norrænu lýðræðisnefndarinnar til skoðunar, erindi frá Íslenskri málnefnd um íslensku sem ríkismál og erindi frá Félagi heyrnarlausra um íslenskt táknmál.

3. Vinnuáætlun

Endurskoðuð drög að vinnuáætlun voru samþykkt með lítilsháttar breytingum. Fram kom ósk um að áður en haldin yrði almenn ráðstefna yrðu greinargerðir sérfræðinganefndarinnar kynntar stjórnarskrárnefnd á eins konar “seminari”.

Ennfremur kom fram það viðhorf að stjórnarskrárnefndin gæti notað tímann fram á sumar til þess að byrja að ræða efnislega einstök ákvæði stjórnarskrárinnar.

4. Undirbúningur ráðstefnu

Rætt var um fyrirhugað ráðstefnuhald. Heppilegast var talið að halda almenna ráðstefnu fyrri hluta júnímánaðar í Reykjavík. Ýmsir nefndarmenn guldu varhug við því að afmarka um of fyrirfram hvaða spurningar ætti að ræða á ráðstefnunni, slíkt gæti gefið ranglega til kynna að búið væri að ákveða að hvaða atriðum endurskoðunin ætti að beinast. Á hinn bóginn kom fram það sjónarmið að listi yfir hugsanleg umræðuefni myndi hjálpa til við að gera ráðstefnuna markvissari.

Formanni var falið að leggja drög að dagskrá ráðstefnunnar fyrir næsta fund.

Því var einnig beint til ritara nefndarinnar að taka saman póstlista yfir þá aðila sem gera ætti viðvart um helstu viðburði í endurskoðunarstarfinu, þ. á m. fyrirhugaða ráðstefnu.

5. Kynningarstarf: upplýsingamiðstöð og heimasíða

Ritari nefndarinnar kynnti heimasíðu nefndarinnar, stjornarskra.is, sem hleypt var af stokkunum á dögunum. Nokkur umræða spannst um hvernig ætti að meðhöndla bréf sem nefndinni berast. Var ákveðið að birta að meginstefnu öll nafngreind erindi og bréf sem berast nema þau færu í bága við lög og almennt velsæmi enda væri um að ræða innlegg í opinbera umræðu. Ritari nefndarinnar gæti borið vafamál undir nefndina ef einhver væru. Þá var honum falið að setja saman leiðbeiningar til almennings varðandi erindi og bréf til nefndarinnar sem birtar yrðu á heimasíðunni. Jafnframt var ákveðið að halda aðgreindum á heimasíðunni erindum frá félagasamtökum og stofnunum annars vegar og bréfum frá einstaklingum hins vegar.

Fram komu fleiri ábendingar um heimasíðuna, eins og um þörfina á lista yfir allt það ítarefni sem nefndirnar viðuðu að sér. Eftir föngum ætti einnig að setja inn á heimasíðuna þau gögn sem til væru á rafrænu formi og gera hana að eins konar gagnabanka um endurskoðunarstarfið.

Samþykkt var að tillögu formanns að boða til fréttamannafundar síðar í sömu viku til að kynna nýsamþykkta vinnuáætlun og upplýsingabás um endurskoðun stjórnarskrárinnar í Þjóðarbókhlöðunni.

6. Næsti fundur

Næstu fundir voru ákveðnir miðvikudaginn 30. mars 2005 kl. 9-11 og mánudaginn 25. apríl í Þjóðmenningarhúsinu. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá.

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum