Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Langar þig að bæta heiminn (og ferðast til Úganda)?

Við leitum að unglingi fæddum árið 2003 til að taka þátt í kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Viðkomandi þarf að hafa gott vald á íslensku og ensku, vera ófeiminn og áhugasamur um betri heim. Hæfileikar á sviði dans eða tónlistar eru kostur en ekki nauðsynlegir.

Verkefni þess sem verður fyrir valinu er þátttaka í heimildarmynd um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Upptökur verða á Íslandi og í Úganda á tímabilinu 20. ágúst til 20. október. Ferðin til Úganda verður farin í september eða október 2018 og tekur um það bil 10 daga. Ferðast verður til Úganda í fylgd tökuliðs og upplýsingafulltrúa Heimsmarkmiðanna. 

Viðkomandi þarf að ferðast í fylgd forráðamanns. Ferðakostnaður og uppihald beggja er greitt, þar með talið kostnaður við bólusetningar. 

Þau sem hafa áhuga þurfa að senda stutt myndband með kynningu á sér á ensku og íslensku. Best er að hlaða upp myndbandinu á Google Drive eða Wetransfer.com og senda hlekk á [email protected]

Umsóknarfrestur er til 29. júlí 2018.

Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Verkefnastjórn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur ritað skýrslu um stöðu Íslands gagnvart markmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi. Í skýrslunni eru kortlögð helstu verkefni, áætlanir og áskoranir stjórnvalda gagnvart tilteknum markmiðum en á grunni þeirrar vinnu leggur verkefnastjórnin jafnframt fram forgangsmarkmið sem munu vísa stjórnvöldum veginn við innleiðingu markmiðanna næstu árin.

Hér má lesa stöðuskýrsluna í heild sinni.

Forræði og utanumhald með eftirfylgd Heimsmarkmiðanna hérlendis er á hendi verkefnastjórnar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Verkefnastjórnin er leidd af forsætisráðuneytinu í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa nýja verkefnastjórn með fulltrúum frá öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins ásamt fulltrúum frá Hagstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá er einnig lagt til að ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Félag Sameinuðu þjóðanna eigi þar áheyrnarfulltrúa og taki virkan þátt í vinnu verkefnastjórnarinnar þegar það á við.

Meginhlutverk verkefnastjórnarinnar er að greina stöðu Íslands gagnvart undirmarkmiðum Heimsmarkmiðanna og að rita fyrrgreinda stöðuskýrslu til ríkisstjórnar með tillögum að forgangsröðun markmiða og framtíðarverklagi fyrir innleiðingu markmiðanna. Þá hefur hún jafnframt umsjón með kynningu á markmiðunum innanlands, í samvinnu við upplýsingafulltrúa, og einnig kynningu á innleiðingu Íslands á markmiðunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Fanney Karlsdóttir, sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu, er formaður verkefnastjórnarinnar. Fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við hana í gegnum fanney.karlsdottir[hja]for.is

Kynningarmál

Sérstök áhersla er lögð á að miðla upplýsingum um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til almennings enda er ljóst að þeim verður ekki náð án víðtækrar þátttöku almennings, atvinnulífs, fræðasamfélags og grasrótarsamtaka.

Í mars 2018 fór af stað kynningarherferð á öllum helstu miðlum landins um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmiðin boða framfarir á öllum helstu sviðum samfélagsins á heimsvísu og því miðaði herferðin að því að greina frá nokkrum góðum fréttum úr framtíðinni, gangi markmiðin eftir.

Nú stendur yfir undirbúningur fyrir aðra kynningarherferð á Heimsmarkmiðunum. Kastljósinu verður að þessu sinni beint að þróunarsamvinnu Íslands. Gerð verður heimildarmynd um ungmenni sem ferðast til þróunarríkis, Úganda, og upplifir heiminn á annan hátt en við gerum á Íslandi. Þættirnir verða sýndir í sjónvarpi RÚV auk þess sem efni verður miðlað á samfélagsmiðlum. 

Upplýsingafulltrúi Heimsmarkmiðanna er Áslaug Karen Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu.

 

              

Ungmennaráð

Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess, og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði á meðal ungmenna og innan samfélagsins í heild. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem Heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar að af landinu, á aldursbilinu 13-18 ára. Ungmennaráðið fundar sex sinnum á ári og þ.á m. árlega með ríkisstjórn. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um Heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn Heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna.

Nílsína Larsen Einarsdóttir, sérfræðingur í þátttöku barna og ungmenna hjá UNICEF á Íslandi, heldur utan um starfsemi ráðsins. Hægt er að fylgjast með störfum ungmennaráðsins á Facebook síðu þess en fyrir nánari upplýsingar vinsamlegast hafið samband í gegnum ungmennarad[hjá]for.is.

Um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Áætlun þessi er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Ljóst er að útrýming fátæktar í öllum sínum myndum og umfangi, að með talinni sárafátækt, er stærsta verkefnið á heimsvísu og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir sjálfbærri þróun.

Öll lönd og allir haghafar munu, í gegnum samstarfsverkefni, hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Við ásetjum okkur að losa mannkynið undan ánauð fátæktar og að græða jörðina og auka öryggi hennar. Við einsetjum okkur að stíga afgerandi skref til breytinga sem nauðsynleg eru í því skyni að koma veröldinni á braut sjálfbærni og auka viðnámsþol hennar. Þau 17 markmið sjálfbærrar þróunar og 169 undirmarkmið, sem sett eru fram í skjali þessu, vitna um umfang þessarar nýju, altæku og metnaðarfullu áætlunar.

Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim. Með þessum markmiðum er leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Þessi markmið og undirmarkmið þeirra munu örva aðgerðir næstu fimmtán ár á afgerandi sviðum fyrir mannkynið og jörðina:

Heimsmarkmiðin:

Heimsmarkmið Sþ: 1 Engin fátækt1.1 Eigi síðar en árið 2030 verði sárri fátækt útrýmt alls staðar, metið þannig að enginn lifi á lægri fjárhæð en nemur nú 1,25 Bandaríkjadölum á dag.

1.2 Eigi síðar en árið 2030 lækki hlutfall karla, kvenna og barna á öllum aldri, sem búa við fátækt í öllum sínum birtingarmyndum samkvæmt skilgreiningu í hverju landi, um a.m.k. helming.

1.3 Ráðstafanir verði gerðar til samræmis við aðstæður í hverju landi til að innleiða félagsleg tryggingakerfi og vernd öllum til handa, þar með talin lágmarksframfærsluviðmið, og eigi síðar en árið 2030 verði stuðningur við og vernd fátæks fólks og fólks í viðkvæmri stöðu stóraukinn.

1.4 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir karlar og konur, einkum fátækt fólk og fólk í viðkvæmri stöðu, eigi  jafnan rétt til efnahagslegra bjargráða og aðgengis að grunnþjónustu, eignarhaldi á og yfirráðum yfir landi og eignum í annarri mynd, erfðum, náttúruauðlindum, viðeigandi nýrri tækni og fjármálaþjónustu, meðal annars smálánafjármögnun.

1.5 Eigi síðar en árið 2030 verði viðnámsþol fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu eflt, sérstaklega varðandi neikvæð áhrif af völdum loftslagstengdra hamfara og annarra efnahags-, félags- og umhverfislegra áfalla og hamfara.

1.a Tryggðar verði umtalsverðar bjargir, meðal annars með efldri þróunarsamvinnu, til að þróunarlönd, einkum þau sem skemmst eru á veg komin, fái nægar og fyrirsjáanlegar bjargir, í því skyni að hrinda í framkvæmd áætlunum og stefnumálum sem miða að því að útrýma fátækt í öllum sínum birtingarmyndum.

1. Að mótuð verði traust umgjörð um stefnumál á landsvísu, svæðum og alþjóðlegum vettvangi, byggð á þróunaráætlunum sem styðja sérstaklega við fátæka og taka mið af kynjamismunun, í því skyni að styðja við stigvaxandi fjárfestingu í aðgerðum sem miða að því að útrýma fátækt. 

Heimsmarkmið Sþ: 2 Ekkert hungur2.1 Eigi síðar en árið 2030 verði hungri útrýmt og aðgengi allra manna, einkum fátækra og fólks í viðkvæmri stöðu, meðal annars ungbarna, tryggt að öruggri, næringarríkri og nægri fæðu allt árið um kring.

2.2 Eigi síðar en árið 2030 verði vannæringu í hvaða mynd sem er útrýmt, þar á meðal verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra.

2.3 Eigi síðar en árið 2030 verði framleiðni og tekjur lítilla matvælaframleiðenda tvöfölduð, einkum kvenna, frumbyggja, fjölskyldubýla, hirðingja og fiskimanna, meðal annars með öruggum og jöfnum aðgangi að landi, öðrum frjósömum auðlindum og aðföngum, þekkingu, fjármálaþjónustu, mörkuðum og tækifærum til virðisauka og starfa utan býla.

2.4 Eigi síðar en árið 2030 verði sjálfbært fyrirkomulag matvælaframleiðslu tryggt og viðnámsþolnum starfsháttum í landbúnaði hrint í framkvæmd sem eykur framleiðni og framleiðslu, stuðlar þar með að viðhaldi vistkerfa, eflir getu til þess að aðlagast loftslagsbreytingum, veðurhamförum, þurrki, flóðum og öðrum hamförum og bætir gæði lands og jarðvegs smám saman.

2.5 Eigi síðar en árið 2020 verði við haldið erfðafræðilegri fjölbreytni fræja, ræktaðra plantna og búfjár og húsdýra og villtra tegunda þeim skyldar, meðal annars með tilkomu vel rekinna, fjölbreyttra, landsbundinna, svæðisbundinna og alþjóðlegra fræ- og plöntubanka og með auknum aðgangi að og sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og tengdri, hefðbundinni þekkingu, eftir því sem samþykkt hefur verið á alþjóðavettvangi.

2.a Fjárfestingar verði auknar, meðal annars með aukinni alþjóðlegri samvinnu, í innviðum á svæðum utan þéttbýlis, rannsóknum og ráðgjafarþjónustu í landbúnaði, tækniþróun og genabönkum fyrir plöntur og búpening, í því skyni að bæta framleiðslugetu í landbúnaði í þróunarlöndum, einkum þeim sem skemmst eru á veg komin.

2.b Komið verði í veg fyrir hindranir og röskun á heimsmörkuðum með landbúnaðarvörur og þær lagfærðar, meðal annars með samhliða afnámi útflutningsstyrkja í landbúnaði í hvaða mynd sem er og allra útflutningsráðstafana sem hafa sömu áhrif, í samræmi við umboð Dóha-lotunnar um þróunarmál.

2.c Samþykktar verði ráðstafanir til þess að tryggja eðlilega starfsemi matvörumarkaða og afleiða þeirra og að greitt verði fyrir tímanlegum aðgangi að markaðsupplýsingum, meðal annars um matvælabirgðir, í því skyni að vinna gegn miklum sveiflum á matvælaverði.

Heimsmarkmið Sþ: 3 Heilsa og vellíðan3.1 Eigi síðar en árið 2030 verði dánarhlutfall mæðra á heimsvísu komið niður fyrir 70 af hverjum 100.000 fæðingum lifandi barna.

3.2 Eigi síðar en árið 2030 verði bundinn endir á dauða nýbura og barna undir 5 ára aldri sem hægt er að koma í veg fyrir og stefni öll lönd að því að lækka dánartíðni nýbura að minnsta kosti niður í 12 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna og dánartíðni barna undir 5 ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum 1.000 fæðingum lifandi barna.

3.3 Eigi síðar en árið 2030 verði endir bundinn á farsóttirnar alnæmi, berkla, malaríu og vanrækta hitabeltissjúkdóma og barist verði gegn lifrarbólgu, vatnsbornum sjúkdómum og öðrum smitsjúkdómum.

3.4 Eigi síðar en árið 2030 verði ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað verði að geðheilbrigði og vellíðan.

3.5 Forvarnir og meðferð vegna vímuefnamisnotkunar, meðal annars misnotkunar fíkniefna og skaðlegrar notkunar áfengis, verði efldar.

3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði fjöldi dauðsfalla og meiðsla vegna umferðarslysa lækkaður um helming á heimsvísu.

3.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggður almennur aðgangur að heilsugæsluþjónustu á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis, meðal annars vegna fjölskylduáætlana, upplýsingagjafar og fræðslu, og tryggt verði að frjósemisheilbrigði verði fellt inn í innlent skipulag og áætlanir.

3.8 Komið verði á almennum heilsutryggingum, meðal annars vernd gegn fjárhagslegri áhættu, aðgengi að nauðsynlegrigæðaheilsugæsluþjónustu og aðgengi að öruggum, skilvirkum, góðum og nauðsynlegum lyfjum og bóluefni á viðráðanlegu verði fyrir alla.

3.9 Eigi síðar en árið 2030 verði fækkað umtalsvert dauðsföllum og veikindum af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar og -smitunar.

3.a Efld verði framkvæmd rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir í öllum löndum, eftir því sem við á.

3.b Stutt verði við rannsóknir og þróun bóluefna og lyfja gegn smitsjúkdómum og smitvana sjúkdómum sem hafa einkum áhrif í þróunarlöndum, aðgengi verði veitt að nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum á viðráðanlegu verði samkvæmt Dóha-yfirlýsingunni um TRIPS-samninginn og lýðheilsu sem staðfestir rétt þróunarlanda til þess að nýta sér til fulls ákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum sem fjalla um sveigjanleika í því skyni að vernda lýðheilsu og, einkum, að öllum verði veitt aðgengi að lyfjum.

3.c Fjármagn til heilbrigðismála verði aukið verulega, einnig nýliðun, þróun, þjálfun og viðhald heilbrigðisstarfsfólks í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun og í þróunarríkjum sem eru lítil eyríki.

3.d Geta allra landa, einkum þróunarlanda, verði efld til að senda snemma út viðvaranir, draga úr áhættu og hafa stjórn á innlendri og hnattrænni heilbrigðisáhættu.

Heimsmarkmið Sþ: 4 Menntun fyrir alla4.1 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir ljúki á jafnréttisgrundvelli gæðamenntun á grunnskólastigián endurgjalds sem leiðir til góðs námsárangurs miðað við stöðu hvers og eins.

4.2 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allar stúlkur og drengir eigi þess kost frá barnæsku að þroskast, fá umönnun og leikskólamenntun þannig að þau verði tilbúin fyrir grunnskólanám.

4.3 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum konum og körlum tryggður jafn aðgangur á viðráðanlegu verði að góðri tækni-, starfs- og framhaldsmenntun, þar á meðal á háskólastigi.

4.4 Eigi síðar en árið 2030 hafi umtalsvert fjölgað ungmennum og fullorðnum sem hafa færni á viðeigandi sviðum, þar á meðal á sviði tækni- og starfsmenntunar, til þess að geta gegnt störfum, fengið mannsæmandi vinnu og stundað frumkvöðlastarfsemi.

4.5 Eigi síðar en árið 2030 verði kynjamismunun afnumin í menntun og fólki í viðkvæmri stöðutryggður jafn aðgangur að menntun og starfsþjálfun á öllum stigum, þar á meðal fötluðu fólki, frumbyggjum og börnum sem búa við erfiðar aðstæður.

4.6 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að öll ungmenni og verulegur hluti fullorðinna, bæði karlar og konur, hafi náð tökum á lestri, ritun og talnalæsi.

4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, meðal annars með menntuntil sjálfbærrar þróunar, sjálfbærum lífsstíl, mannréttindum, kynjajafnrétti, eflingu menningar sem byggist á friðsamlegum samskiptum, heimsborgaravitund, viðurkenningu menningarlegrar fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

4.a Byggð verði upp og endurbætt aðstaða til menntunar sem miðast við börn, fatlaða og mismunandi kyn og sjá öllum fyrir öruggu, friðsamlegu og árangursríku námsumhverfi án aðgreiningar.

4.b Eigi síðar en árið 2020 verði aukinn á heimsvísu fjöldi námsstyrkja, sem stendur þróunarlöndum til boða, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin, sem eru þróunarlönd sem eru smáeyjaríki og Afríkuríkjum, það er námsstyrkja sem gera fólki kleift að innrita sig í æðra nám í iðnríkjum og öðrum þróunarríkjum, meðal annars í starfsnám og upplýsinga- og fjarskiptatækni, tækninám, verkfræði og raunvísindi.

4.c Eigi síðar en árið 2030 verði framboð á menntuðum og hæfum kennurum aukið verulega, meðal annars með alþjóðlegri samvinnu um kennaramenntun í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og smáeyríkjum.

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna5.1 Öll mismunun gagnvart konum og stúlkum verði afnumin alls staðar.

5.2 Allt ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á opinberum vettvangi sem og í einkalífi, þar með talið mansal og kynferðisleg misneyting og misneyting af öðru tagi, verði afnumið.

5.3 Allir skaðlegir siðir, eins og barnahjónabönd, snemmbúin og þvinguð hjónabönd og sköddun kynfæra kvenna, verði afnumdir.

5.4 Ólaunuð umönnunar- og heimilisstörf verði viðurkennd og metin með því að tryggja opinbera félagsþjónustu, innviði og stefnumörkun á sviði félagslegrar verndar og að ýtt verði undir sameiginlega ábyrgð innan heimilis og fjölskyldu eins og við á í hverju landi.

5.5 Tryggð verði full og virk þátttaka kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllumsviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi.

5.6 Tryggð verði jöfn tækifæri allra til kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda, eins og samþykkt var meðframkvæmdaáætlunum alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun og kvennaráðstefnunnar í Beijing sem ogniðurstöðum endurskoðunarráðstefna þeirra.

5.a Gerðar verði umbætur til að tryggja konum jafnan rétt til tækifæra á sviði efnahagsmála, eignarhalds á og yfirráða yfir landi og eignum í annarri mynd, aðgangs að fjármálaþjónustu, arfs ognáttúruauðlinda í samræmi við landslög.

5.b Notkun stuðningstækni verði efld, einkum upplýsinga- og fjarskiptatækni, í því skyni að efla völd kvenna.

5.c Sett verði öflug stefna og raunhæf löggjöf sem stuðlar að kynjajafnrétti og því að efla völd kvenna og stúlkna á öllum sviðum samfélagsins.

Heimsmarkmið Sþ: 6 Hreint vatn og hreinlætisaðstaða6.1 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður almennur og réttmætur aðgangur að heilnæmu drykkjarvatni á viðráðanlegu verði.

6.2 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður jafn aðgangur að fullnægjandi salernis- og hreinlætisaðstöðu og endir verði bundinn á að menn þurfi að ganga örna sinna utan dyra, þar sem sérstakri athygli er beint að þörfum kvenna og stúlkna og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu.

6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka að sorpi sé fleygt og lágmarka losun hættulegra íðefna og hluta; þá verði hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns helmingað og endurvinnsla og örugg endurnotkun auknar verulega um heim allan.

6.4 Eigi síðar en árið 2030 verði vatn nýtt mun betur á öllum sviðum og dregið verði úr notkun ferskvatns á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir vatnsskort og jafnframt verði dregið verulega úr fjölda þeirra sem þjáist af vatnsskorti.

6.5 Eigi síðar en árið 2030 komi samþætt stjórnun vatnsauðlinda til framkvæmda á öllum sviðum, meðal annars með samstarfi yfir landamæri eftir því sem við á.

6.6 Eigi síðar en árið 2020 komi til framkvæmda vernd og endurheimt vatnstengdra vistkerfa, þar með talið fjallendi, skógar, votlendi, ár, veitar og vötn.

6.a Eigi síðar en árið 2030 muni alþjóðleg samvinna og stuðningur til þess að efla getu ná til þróunarlanda vegna starfsemi og áætlana sem tengjast vatni og hreinlætisaðgerðum, þar með talin vatnstekja, afsöltun, vatnsnýtni, hreinsun skólps og frárennslisvatns, endurvinnsla og endurnotkunartækni.

6.b Stutt verði við þátttöku byggðarlaga á hverjum stað og hún efld til þess að bæta megi stjórnun vatns og hreinlætisaðgerða.

Heimsmarkmið Sþ: 7 Sjálfbær orka7.1 Eigi síðar en árið 2030 verði almennt aðgengi tryggt að nútímalegri og áreiðanlegri orkuþjónustu á viðráðanlegu verði.

7.2 Eigi síðar en árið 2030 verði hlutur endurnýjanlegrar orku í orkusamsetningu heimsins aukinn verulega.

7.3 Eigi síðar en árið 2030 hafi hraði úrbóta í orkunýtni verið tvöfaldaður.

7.a Eigi síðar en árið 2030 verði alþjóðleg samvinna aukin í því skyni að auðvelda aðgengi að rannsóknum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku, meðal annars endurnýjanlegrar orku, orkunýtni og þróaðrar og hreinni tækni á sviði jarðefnaeldsneytis, og ýtt undir fjárfestingu í orkugrunnvirkjum og tækni á sviði umhverfisvænnar orku.

7.b Eigi síðar en árið 2030 verði aukið við grunnvirki og tækni uppfærð í því skyni að veita öllum í þróunarlöndum, einkum þeim sem eru skemmst á veg komin og þróunarlöndum sem eru smáeyjaríki og landluktum þróunarlöndum, nútímalega og sjálfbæra orkuþjónustu í samræmi við stuðningsáætlanir hvers og eins.

Heimsmarkmið Sþ: 8 Góð atvinna og hagvöxtur8.1 Viðhaldið verði hagvexti á hvern einstakling í samræmi við aðstæður í hverju landi og sérstaklega að minnsta kosti 7% vexti vergrar landsframleiðslu á ári í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.

8.2 Aukinni framleiðni í atvinnulífinu verði náð með aukinni fjölbreytni, tækninýjungum og nýsköpun, meðal annars með því að beina athygli að vinnuaflsfrekum geirum sem hafa mikinn virðisauka.

8.3 Unnið verði að framgangi þróunarmiðaðra stefnumála sem styðja við afkastamikla framleiðslustarfsemi, sköpun mannsæmandi starfa, frumkvöðlastarfsemi, sköpunarmátt og nýsköpun og hvatt verði til myndunar og vaxtar örfyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, meðal annars aðgangi að fjármálaþjónustu.

8.4 Fram til ársins 2030 verði nýtni auðlinda í neyslu og framleiðslu bætt stöðugt og leitast við að frátengja hagvöxt frá hnignun umhverfisins í samræmi við 10 ára rammaáætlunina um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, þar sem iðnríkin ganga á undan.

8.5 Eigi síðar en árið 2030 verði full og gagnleg atvinna og mannsæmandi störf að veruleika fyrir allar konur og karla, meðal annars fyrir ungt fólk og fatlað fólk, og sömu laun verði greidd fyrir jafnverðmæt störf.

8.6 Eigi síðar en árið 2020 hafi hlutfall ungmenna, sem eru atvinnulaus eða stunda ekki nám eða þjálfun, lækkað verulega.

8.7 Gerðar verði tafarlausar og árangursríkar ráðstafanir til þess að útrýma nauðungarvinnu, endir bundinn á nútímaþrælahald og mansal og tryggt verði bann við og afnám barnaþrælkunar, meðal annars nýliðunar og notkunar barnahermanna, og eigi síðar en árið 2025 verði bundinn endir á nauðungarvinnu barna í öllum myndum.

8.8 Réttindi á vinnumarkaði verði vernduð og stuðlað að öruggu og tryggu vinnuumhverfi fyrir allt launafólk, meðal annars farandlaunþega, einkum konur sem eru á faraldsfæti, og þá sem hafa ótrygga atvinnu.

8.9 Eigi síðar en árið 2030 verði úthugsuð stefnumál og þeim hrundið í framkvæmd til þess að stuðla megi að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur.

8.10 Geta fjármálastofnana innanlands verði efld til þess að ýta undir og bæta aðgang að banka-, trygginga- og fjármálaþjónustu fyrir alla.

8.a Stuðningur við aðstoð til eflingar viðskiptum (e. Aid for Trade) verði aukinn í þágu þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, meðal annars á grundvelli eflds samþætts ramma um viðskiptatengda tækniaðstoð við þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun (e. Enhanced Integrated Framework for Trade- Related Technical Assistance to Least Developed Countries).

8.b Eigi síðar en árið 2020 verði lokið við að þróa og hrinda í framkvæmd heildarstefnu um atvinnumál ungmenna og atvinnusáttmáli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar komi til framkvæmda.

Heimsmarkmið Sþ: 9 Nýsköpun og uppbygging9.1 Þróuð verði gæðagrunnvirki, sem eru áreiðanleg, sjálfbær og viðnámsþolin, meðal annars grunnvirki innan svæða og yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velsæld manna, þar sem lögð verði áhersla á réttmætan aðgang fyrir alla á viðráðanlegu verði.

9.2 Stuðlað verði að sjálfbærri iðnþróun fyrir alla og eigi síðar en 2030 hafi hlutur iðnaðar í atvinnulífi og vergri landsframleiðslu aukist verulega, allt eftir innlendum aðstæðum, og hlutur iðnaðar tvöfaldaður í þeim löndum sem skemmst eru á veg komin í þróun.

9.3 Aukið verði aðgengi minni iðnfyrirtækja og annarra fyrirtækja, einkum í þróunarlöndum, að fjármálaþjónustu, meðal annars að lánum á viðráðanlegu verði. Einnig verði aðlögun þeirra að verðmætakeðjum og mörkuðum aukin.

9.4 Eigi síðar en árið 2030 verði grunnvirki uppfærð og iðnaður aðlagaður svo að þau verði sjálfbær, þar sem nýting auðlinda verði skilvirkari, og innleidd verði tækni og iðnaðarferli í auknum mæli, sem eru hrein og umhverfisvæn, þar sem öll lönd grípi til aðgerða allt eftir getu hvers og eins.

9.5 Vísindarannsóknir verði efldar, tæknigeta iðngreina í öllum löndum verði endurbætt, einkum í þróunarlöndum, þar með talið og eigi síðar en árið 2030 verði ýtt undir nýsköpun og fjöldi þeirra sem starfa við rannsóknir og þróun verði aukinn verulega fyrir hverja milljón íbúa, og útgjöld til rannsókna og þróunar hins opinbera og einkageirans verði aukin.

9.a Greitt verði fyrir þróun varanlegra og viðnámsþolinna grunnvirkja í þróunarlöndum með auknum fjárhags-, tæknifræði- og tæknilegum stuðningi til Afríkulanda, landa sem eru skemmst á veg komin í þróun, landluktra þróunarlanda og þróunarlanda sem eru smáeyjaríki.

9.b Stutt verði við tækniþróun, rannsóknir og nýsköpun innanlands í þróunarlöndum, meðal annars með því að festa í sessi umhverfi stefnumótunar sem stuðlar til dæmis að fjölbreytni í iðnaði og virðisauka varnings.

9.c Aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði aukið verulega og lagt verði kapp á að skapa almennan aðgang á viðráðanlegu verði að Netinu í þeim löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun.

Heimsmarkmið Sþ: 10 Aukinn jöfnuður10.1 Eigi síðar en árið 2030 verði varanlegri tekjuaukningu náð fram í áföngum fyrir 40% þess mannfjölda sem tekjulægstur er og henni viðhaldið og gangi hraðar fyrir sig en almenn meðaltalstekjuaukning á landsvísu.

10.2 Eigi síðar en árið 2030 verði stuðlað að því og öllum gert kleift að taka þátt í félags-, efnahags- og stjórnmálalífi, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða eða efnahagslegrar eða annarrar stöðu.

10.3 Jöfn tækifæri verði tryggð sem og dregið úr ójöfnuði viðvíkjandi árangri, meðal annars með því að afnema lög, stefnumál og starfsvenjur sem hafa mismunun í för með sér, og stuðlað verði jafnframt að viðeigandi lagasetningu, stefnumálum og aðgerðum í þessu tilliti.

10.4 Tekin verði upp stefnumál, einkum í opinberum fjármálum, launatryggingum og á sviði félagslegrar verndar, og auknu jafnrétti náð fram í áföngum.

10.5 Reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og beiting slíkra reglna efld.

10.6 Tryggt verði aukið fyrirsvar og að rödd þróunarlanda heyrist betur þegar ákvarðanir eru teknar innan alþjóðlegra stofnana á sviði efnahags- og fjármála til að auka skilvirkni, trúverðugleika, áreiðanleika og lögmæti þeirra.

10.7 Greitt verði fyrir skipulegum, öruggum, reglulegum og ábyrgum búferlaflutningum og för fólks, meðal annars með því að hrinda stefnumálum á sviði búferlaflutninga í framkvæmd á skipulegan og hagkvæman hátt.

10.a Meginreglan um sérstaka og breytilega meðferð í þágu þróunarlanda, einkum þeirra sem eru skemmst á veg komin, verði framkvæmd í samræmi við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

10.b Ýtt verði undir opinbera þróunaraðstoð og fjárstreymi, meðal annars beina, erlenda fjárfestingu, til ríkja þar sem þörfin er mest, einkum landa sem eru skemmst á veg komin í þróun, Afríkulanda, þróunarlanda sem eru smáeyjaríki og landluktra þróunarlanda, í samræmi við landsáætlanir þeirra og fyrirætlanir.

10.c Eigi síðar en árið 2030 verði kostnaður vegna millifærslu peninga farandlaunþega lækkaður niður í minna en 3% og leiðum til peningasendinga lokað sem hafa í för með sér kostnað sem er yfir 5%.

Heimsmarkmið Sþ: 11 Sjálfbærar borgir og samfélög11.1 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum tryggður aðgangur að fullnægjandi, öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði og grunnþjónusta og fátækrahverfi endurbætt.

11.2 Eigi síðar en árið 2030 verði öllum veittur aðgangur að öruggum, aðgengilegum og sjálfbærum flutningakerfum á viðráðanlegu verði og öryggi á vegum bætt, einkum með auknum almenningssamgöngum, þar sem sérstök áhersla verði lögð á þarfir þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, kvenna, barna, fatlaðs fólks og eldra fólks.

11.3 Eigi síðar en árið 2030 verði efld sjálfbær þéttbýlismyndun fyrir alla og geta til skipulagningar og stýringar, sem byggist á þátttöku, á samþættum og sjálfbærum íbúðasvæðum í öllum löndum.

11.4 Viðleitni til þess að vernda og tryggja menningar- og náttúruarfleifð heimsins verði efld.

11.5 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið verulega úr fjölda dauðsfalla vegna hamfara og fjölda þess fólks sem verður fyrir áhrifum af þeirra völdum og dregið verði úr beinu efnahagslegu tjóni, sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu á heimsvísu, af völdum hamfara, meðal annars hamfara sem tengjast vatni, þar sem áhersla verði lögð á að vernda fátæka og fólk í viðkvæmri stöðu.

11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum borga á hvern einstakling, meðal annars með því að beina sérstakri athygli að loftgæðum og meðhöndlun sveitarfélaga á úrgangi og annars konar meðhöndlun úrgangs.

11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði almennur aðgangur veittur að öruggum og aðgengilegum grænum svæðum fyrir almenning, einkum konur og börn, eldra fólk og fatlað fólk.

11.a Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.

11.b Eigi síðar en árið 2020 verði fjöldi borga og íbúðasvæða aukinn verulega sem samþykkja og hrinda í framkvæmd samþættum stefnumálum og áætlunum, sem miða að aðkomu allra, auðlindanýtni, því að draga úr loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim og að viðnámsþoli gegn hamförum, og þróuð verði og framkvæmd heildræn hamfaraáhættustýring á öllum sviðum í samræmi við Sendai-rammaáætlunina 2015-2030.

11.c Löndum, sem eru skemmst á veg komin í þróun, verði veittur stuðningur, meðal annars með fjárhags- og tækniaðstoð, til þess að reisa varanlegar og viðnámsþolnar byggingar úr efnum á staðnum.

Heimsmarkmið Sþ: 12 Ábyrg neysla12.1 Hrundið verði í framkvæmd 10 ára rammaáætlunum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu, þar sem öll lönd grípa til aðgerða með iðnríkin í fararbroddi og þar sem tekið er tillit til þróunar og getu þróunarlandanna.

12.2 Eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra meðferð og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð.

12.3 Eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölu- og neytendastigi minnkað um heim allan um helming á hvern einstakling og dregið hafi úr glötuðum matvælum í framleiðslu- og birgðakeðjum, þar með talinn missir eftir uppskeru.

12.4 Eigi síðar en árið 2020 verði náð fram umhverfisvænni meðferð íðefna og úrgangs allan lífsferil þeirra, í samræmi við samþykktar, alþjóðlegar rammaáætlanir, og dregið verulega úr losun þeirra út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg, í því skyni að lágmarka skaðleg áhrif þeirra á heilbrigði manna og umhverfið.

12.5 Eigi síðar en árið 2030 verði verulega dregið úr myndun úrgangs með forvörnum, með því að minnka úrgang og auka endurvinnslu og endurnýtingu.

12.6 Fyrirtæki, einkum stór og fjölþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og fella upplýsingar um sjálfbærni inn í skýrslur sem gefnar eru út á þeirra vegum.

12.7 Stuðlað verði, í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun, að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup.

12.8 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim fái viðeigandi upplýsingar og sé meðvitað um sjálfbæra þróun og lífsmáta í sátt við náttúruna.

12.a Þróunarlönd fái stuðning til þess að auka getu sína á sviði vísinda og tækni í því skyni að þoka neyslu- og framleiðslumynstrum áfram í átt til aukinnar sjálfbærni.

12.b Þróuð verði tæki og þeim beitt til þess að fylgjast með áhrifum sjálfbærrar þróunar á sjálfbæra ferðaþjónustu sem skapar störf og ýtir undir staðbundna menningu og framleiðslu.

12.c Óskilvirkar niðurgreiðslur vegna jarðefnaeldsneytis, sem ýta undir sóun, verði lagfærðar í samræmi við innlendar aðstæður á hverjum stað með því að uppræta markaðsröskun, meðal annars með því að endurskipuleggja skattlagningu og leggja slíkar skaðlegar niðurgreiðslur niður í áföngum, þar sem þær fyrirfinnast, og með því að sýna fram á þau umhverfisáhrif sem þær valda. Jafnframt verði tekið fullt tillit til sérþarfa og aðstæðna þróunarlanda og að hugsanlegum, skaðlegum áhrifum á þróun þeirra sé haldið í lágmarki með því að verja fátæk samfélög sem fyrir áhrifum verða.

Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar13.1 Eflt verði í öllum löndum viðnámsþol og aðlögunargeta vegna loftslagstengdrar hættu og náttúruhamfara.

13.2 Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði felldar inn í landsbundnar áætlanir, stefnumál og skipulag.

13.3 Bætt verði menntun, vitundarvakning og geta manna og stofnana til að draga úr, laga sig að, draga úr áhrifum og vara við loftslagsbreytingum.

13.a Efnd verði fyrirheit þróaðra ríkja um 100 milljarða dollara framlag, bæði frá opinberum aðilum og einkaaðilum, í því skyni að aðstoða þróunarlönd með tilliti til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og gagnsæis aðgerða. Jafnframt verði unnið sem fyrst að fjármögnun Græna loftslagssjóðsins þannig að hann geti starfað af fullum krafti.

13.b Opna leiðir til að auka færni við skipulagningu og stjórnun tengdum loftslagsmálum í þeim löndum sem skemmst eru á veg komin í þróun og í þróunarlöndum sem eru smáeyjaríki. Í því tilliti ber að leggja áherslu á konur, ungt fólk, byggðarlög og jaðarsamfélög.

Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni14.1 Eigi síðar en árið 2025 verði komið í veg fyrir og verulega dregið úr hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af völdum næringarefna.

14.2 Eigi síðar en árið 2020 verði gengið um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif, meðal annars með því að efla viðnámsþol þeirra, og gripið verði til aðgerða til að endurheimta og efla heilbrigði þeirra og framleiðslu.

14.3 Áhrifum af súrnun sjávar verði haldið í lágmarki og unnið gegn henni, t.d. með því að efla vísindalegt samstarf á öllum sviðum.

14.4 Eigi síðar en árið 2020 verði komið á skilvirku eftirliti með og tekið fyrir ofveiði og ólöglegar, óskráðar og stjórnlausar fiskveiðar og eyðileggjandi veiðiaðferðir og hrundið í framkvæmd áætlunum um stjórn fiskveiða, sem byggjast á vísindalegum grunni, í því skyni að endurheimta fiskistofna á stysta mögulega tíma, a.m.k. að því marki að stofnar geti gefið af sér hámarksafrakstur miðað við líffræðilega eiginleika sína.

14.5 Eigi síðar en árið 2020 verði a.m.k. 10% af strand- og hafsvæðum vernduð, í samræmi við landslög og alþjóðalög, og byggt á bestu fyrirliggjandi vísindaupplýsingum.

14.6 Eigi síðar en árið 2020 verði tiltekin form niðurgreiðslna til sjávarútvegs, sem stuðla að of mikilli afkastagetu og ofveiði, bönnuð og niðurgreiðslur, sem stuðla að ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum fiskveiðum, afnumdar og reynt að koma í veg fyrir að teknar verði upp nýjar tegundir slíkra niðurgreiðslna, þar sem viðurkennt er að viðeigandi og skilvirk, sérstök og mismunandi meðferð fyrir þróunarríkin og þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun ætti að vera órjúfanlegur þáttur í samningaviðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um niðurgreiðslur til sjávarútvegs.

14.7 Eigi síðar en árið 2030 hafi efnahagslegur ávinningur þróunarlanda sem eru smáeyjaríki og þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun aukist vegna sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda, meðal annars með því að ástunda sjálfbæra stjórnun fiskveiða, lagareldi og ferðaþjónustu.

14.a Vísindaleg þekking verði aukin, geta á sviði rannsókna verði þróuð og tækniþekking í haffræðum verði yfirfærð, að teknu tilliti til viðmiðana og leiðbeininga Alþjóðahaffræðinefndarinnar um yfirfærslu þekkingar í sjávarútvegi (Intergovernmental Oceanographic Commission Criteria and Guidelines on the Transfer of Marine Technology), íþví skyni að efla heilbrigði sjávar og auka líffræðilega fjölbreytni í höfunum til framþróunar í þróunarlöndunum,einkum þeim sem eru smáeyjaríki og þeim sem eru skemmst á veg komin í þróun.

14.b Veita þeim sem veiða í smáum stíl aðgang að sjávarauðlindum og mörkuðum.

14.c Varðveisla og sjálfbær nýting hafsins og auðlinda þess verði efld með því að hrinda í framkvæmd alþjóðalögum, eins og fram kemur í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, þar sem kveðið er á um lagaramma um varðveislu og sjálfbæra nýtingu hafsins og auðlinda þess, eins og minnt er á í 158. gr. í skjalinu Framtíðin sem við viljum.

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi15.1 Eigi síðar en árið 2020 verði tryggð verndun, endurheimt og sjálfbær nýting landvistkerfa og ferskvatnsvistkerfa og vistkerfisþjónusta þeirra, einkum skóga, votlendis, fjallendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum.

15.2 Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbæra stjórnun í öllum gerðum skóga, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurræktun skóga.

15.3 Eigi síðar en árið 2030 verði eyðimerkurmyndun stöðvuð, hnignandi land og jarðvegur endurheimt, þ.m.t. land semer raskað af eyðimerkurmyndun, þurrkum og flóðum, og unnið að því að koma á jafnvægi milli eyðingar og endurreisnar lands.

15.4 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggð verndun vistkerfa í fjalllendi, þ.m.t. líffræðilega fjölbreytni þeirra, til þess að efla getu þeirra til að gefa af sér ávinning sem er nauðsynlegur sjálfbærri þróun.

15.5 Gripið verði til brýnna og þýðingarmikilla aðgerða til að draga úr hnignun náttúrulegra búsvæða, stöðva tap líffræðilegrar fjölbreytni og, eigi síðar en árið 2020, vernda og koma í veg fyrir útrýmingu tegunda í bráðri hættu.

15.6 Stuðlað verði að sanngjarnri og jafnri skiptingu ávinnings af nýtingu erfðaauðlinda og að viðeigandi aðgangi að slíkum auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samþykktum.

15.7 Gripið verði til bráðra aðgerða til að binda enda á veiðiþjófnað og viðskipti með verndaðar tegundir plantna og dýra og takast á við bæði eftirspurn og framboð á ólöglegumafurðum af villtum dýrum.

15.8 Settar verði fram ráðstafanir, eigi síðar en árið 2020, til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra framandi tegunda og draga verulega úr áhrifum þeirra á land- og vatnsvistkerfi og forgangstegundum verði stýrt eða þeim útrýmt.

15.9 Gildi vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni verði samþætt, eigi síðar er árið 2020, landsbundinni og staðbundinni áætlanagerð, þróunarferlum, aðgerðum til að draga úr fátækt og reikningshaldi.

15.a Fjármagn frá öllum aðilum verði virkjað og aukið verulega til að varðveita og nota líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi með sjálfbærum hætti.

15.b Fjármagn frá öllum aðilum og á öllum stigum verði virkjað til að fjármagna sjálfbæra skógarstjórnun og mynda nægilega hvata fyrir þróunarlöndin til að þróa slíka stjórnun, þ.m.t. vegna verndunar og endurræktunar skóga.

15.c Efldur verði stuðningur á heimsvísu við viðleitni til að berjast gegn veiðiþjófnaði og ólöglegum viðskiptum með verndaðar tegundir, meðal annars verði efld geta nærsamfélaga til að leita sjálfbærra leiða til að afla lífsviðurværis.

Heimsmarkmið Sþ: 16 Friður og réttlæti16.1 Dregið verði alls staðar verulega úr öllum tegundum ofbeldis og tengdum dauðsföllum.

16.2 Upprætt verði misnotkun, misneyting, mansal og allar tegundir ofbeldis gegn börnum og pyntingar á þeim.

16.3 Réttarríkið verði eflt á landsbundnum og alþjóðlegum vettvangi og jafn aðgangur allra að réttarkerfinu tryggður.

16.4 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið verulega úr ólöglegu flæði fjármagns og vopna, efld endurheimt og skil á stolnum eigum og barátta gegn hvers kyns skipulagðri brotastarfsemi.

16.5 Dregið verði verulega úr spillingu og mútum í öllum myndum.

16.6 Þróaðar verði skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum stigum sem hafa gagnsæi að leiðarljósi.

16.7 Tryggð verði ákvarðanataka á öllum stigum þar sem brugðist er við aðstæðum, er víðtæk, byggist á þátttöku og er lýsandi.

16.8 Víkkuð verði út og efld þátttaka þróunarlanda í stofnunum sem eru ábyrgar fyrir stjórnun á heimsvísu.

16.9 Öllum verði útveguð lögleg skilríki, þ.m.t. fæðingarvottorð, eigi síðar en árið 2030.

16.10 Tryggður verði aðgangur að upplýsingum og vernd grundvallarréttinda í samræmi við landslöggjöf ogalþjóðasamninga.

16.a Viðeigandi landsbundnar stofnanir verði styrktar, s.s. á grundvelli alþjóðlegrar samvinnu, með því að efla getu á öllum stigum, einkum í þróunarlöndunum, til að koma í veg fyrir ofbeldi og berjast gegn hryðjuverkum og brotastarfsemi.

16.b Lög og stefnumál á sviði sjálfbærrar þróunar, án mismununar, verði efld og þeim framfylgt.

Fjármál

Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin17.1 Tilföng innanlands verði aukin, meðal annars með alþjóðlegum stuðningi við þróunarlönd, til að bæta innlenda getu til öflunar skatttekna og annarra tekna.

17.2 Iðnríkin komi að fullu til framkvæmda skuldbindingum sínum um opinbera þróunaraðstoð, t.d. þeirri skuldbindingu margra iðnríkja að láta 0,7% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum renna til þróunarlanda og 0,15 til 0,20% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum til þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun. Þau ríki sem veita opinbera þróunaraðstoð eru hvött til þess að íhuga að setja sér það markmið að láta a.m.k. 0,20% af opinberri þróunaraðstoð/vergum þjóðartekjum renna til þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun.

17.3 Kallað verði eftir viðbótarfjármagni frá hinum ýmsu aðilum til handa þróunarlöndum.

17.4 Þróunarlönd fái aðstoð til að ná sjálfbærri skuldastöðu til lengri tíma litið með samræmdum stefnumálum sem miða að því að bæta fjármögnun, niðurfellingu og endurskipulagningu skulda eftir því sem við á. Erlendar skuldir mjög skuldsettra, fátækra ríkja verði skoðaðar með það fyrir augum að draga úr skuldavanda.

17.5 Aðgerðaráætlanir til að efla fjárfestingar verði samþykktar fyrir þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þeim hrundið í framkvæmd.

Tækni

17.6 Eflt verði samstarf milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og þríhliða samstarf. Einnig verði alþjóðlegt samstarf um vísindi, tækni og nýsköpun eflt og aðgangur að þessum sviðum auðveldaður. Enn fremur verði þekkingarmiðlun á jafnræðisgrundvelli efld, meðal annars með því að bæta samræmingu fyrirliggjandi aðgerða, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og innan ramma alþjóðlegra kerfa sem er ætlað að greiða fyrir tækni.

17.7 Stuðlað verði að þróun, yfirfærslu, miðlun og dreifingu umhverfisvænnar tækni til þróunarlandanna með hagstæðari skilmálum en nú gerist, m.a. með ívilnandi skilmálum og vildarkjörum, eftir því sem gagnkvæmt samkomulag næst um.

17.8 Eigi síðar en árið 2017 verði tæknibanki og aðgerðir til uppbyggingar á getu á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar að fullu starfhæf fyrir þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og stuðningur til sjálfshjálpar efldur, einkum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Uppbygging getu

17.9 Efldur verði alþjóðlegur stuðningur við framkvæmd skilvirkrar og hnitmiðaðrar uppbyggingar á getu í þróunarlöndunum með það að markmiði að styðja við landsáætlanir um að hrinda öllum þróunarmarkmiðum um sjálfbærni í framkvæmd, meðal annars með samstarfi milli svæða í norðri og suðri, innan suðursvæða og með þríhliða samstarfi.

Viðskipti

17.10 Stuðlað verði að alþjóðlegu viðskiptakerfi, sem byggist á reglum, er opið, án mismununar og er réttlátt og marghliða, innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og miðar meðal annars að því að ljúka viðræðum stofnunarinnar sem kenndar eru við Dóha.

17.11 Útflutningur þróunarlanda verði aukinn verulega, einkum með það fyrir augum að tvöfalda hlut þeirra landa sem eru skemmst á veg komin í þróun í útflutningi á heimsvísu, eigi síðar en árið 2020.

17.12 Komið verði til framkvæmda í tæka tíð tollfrjálsum og kvótalausum markaðsaðgangi á varanlegum grunni fyrir öll lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun, í samræmi við ákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, meðal annars með því að tryggja að upprunareglur, sem veita fríðindi og eiga við um innflutning frá þeim löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun, séu gagnsæjar og einfaldar og stuðli að því að greiða fyrir markaðsaðgangi.

Kerfistengd málefni

Stefnumál og samhengi í stofnanalegu tilliti

17.13 Efldur verði efnahagslegur stöðugleiki um allan heim, meðal annars með því að samræma stefnur og samfellu í stefnumálum.

17.14 Eflt verði samhengi stefnumála varðandi sjálfbæra þróun.

17.15 Svigrúm og vald hvers lands til að koma á og framfylgja stefnumálum um útrýmingu fátæktar og sjálfbæra þróun verði virt.

Samstarf margra hagsmunaaðila

17.16 Eflt verði samstarf á heimsvísu um sjálfbæra þróun, stutt samstarfi margra hagsmunaaðila um að virkja og miðla kunnáttu, sérþekkingu, tækni og fjármagni, til að stuðla að því að markmiðum um sjálfbæra þróun verði náð í öllum löndum, einkum þróunarlöndum.

17.17 Hvatt verði til skilvirkra samstarfsverkefna opinberra aðila innbyrðis, opinberra aðila og einkaaðila og á vettvangi borgaralegs samfélags og stutt við slík verkefni. Við framkvæmd þeirra verði byggt á reynslu af samstarfsverkefnum almennt og á fjármögnunaraðferðum þeirra.

Gögn, eftirlit og ábyrgð

17.18 Efldur verði stuðningur við þróunarlöndin, meðal annars við þau lönd sem eru skemmst á veg komin í þróun og þróunarlönd sem eru smáeyjaríki, eigi síðar en árið 2020, hvað varðar uppbyggingu getu til að auka verulega framboð á vönduðum, tímanlegum og áreiðanlegum gögnum, sundurliðuðum eftir tekjum, kyni, aldri, kynþætti, uppruna, innflytjendastöðu, fötlun, landfræðilegri staðsetningu og öðrum breytum sem eiga við í landsbundnu samhengi.

17.19 Eigi síðar en árið 2030 verði tekið mið af fyrirliggjandi frumkvæði til að þróa mælikvarða fyrir framvindu sjálfbærrar þróunar, þ.e. mælikvarða til viðbótar mælikvörðum um verga landsframleiðslu, og stutt verði við uppbyggingu getu á sviði tölfræði í þróunarlöndunum.

* Hafandi hugfast að rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar er helsti alþjóðlegi milliríkjavettvangur til þess að ná fram samningum um hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn