Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. október 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Metnaðarfull áform í loftslagsmálum

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 2. október 2018.

 

Metnaðarfull áform í loftslagsmálum 

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var nýverið kynnt af sjö ráðherrum. Ríkisstjórnin hefur metnaðarfull áform í loftslagsmálum og hyggst verja um 6,8 milljörðum króna til þeirra á næstu fimm árum. Mikil og góð umræða hefur skapast í kjölfar kynningarinnar. Umræðan hefur að mestu verið jákvæð og lausnamiðuð, en auðvitað er deilt um leiðir og gagnrýnisraddir heyrast. Á þær þarf að hlusta, því loftslagsmál eru margbrotið og brýnt viðfangsefni.

Sumum finnst lítið gert varðandi stórar uppsprettur losunar, eins og frá alþjóðaflugi og framræstum mýrum. Ákvæði um hvort tveggja er þó að finna í aðgerðaáætluninni. Ísland mun þannig taka þátt í alþjóðlegu kerfi um losunarheimildir í flugi, CORSIA, sem sett verður upp á vegum Alþjóða flugmálastofnunarinnar og eftirlit og vöktun með framræslu votlendis verður bætt. Einnig verður verulegu fjármagni veitt til átaks í endurheimt votlendis. Raunar er það, ásamt átaki í skógrækt og landgræðslu, önnur af tveimur megináherslum í áætluninni. Þessar áherslur eru lykilatriði til að ná markmiðum íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Losun frá ofangreindum uppsprettum fellur ekki beint undir svokallaðar tölulegar skuldbindingar Íslands en aðgerðaáætlunin tekur að sjálfsögðu á þeim. Mikilvægt er að draga úr losun og efla kolefnisbindingu þar sem það er hægt, óháð regluverki og ábyrgðarskiptingu ríkja og alþjóðastofnana.

Sjálfstæði í orkumálum

Meirihluti þeirrar losunar sem fellur undir tölulegar skuldbindingar á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda samkvæmt Parísarsamkomulaginu er til kominn vegna bruna jarðefnaeldsneytis – um 60%. Útfösun jarðefnaeldsneytis er þannig veigamesti þátturinn við að ná markmiðum samningsins fyrir 2030.

Svo vel vill til að hér á landi búum við yfir loftslagvænni, innlendri orku sem getur komið í stað mengandi, innfluttra orkugjafa. Því er hin megináhersla ríkisstjórnarinnar í aðgerðaáætluninni sú að hraða umskiptum í hreina orku, einkum í samgöngum. Rafbílabylting borgar sig hreinlega fyrir þjóðarbúið, samkvæmt útreikningum hagfræðinga. Aðrar hliðarafurðir hennar eru síðan heilnæmara andrúmsloft og meira öryggi og sjálfstæði í orkumálum, auk loftslagsávinningsins. Loftslagsmál snúast ekki bara um töluleg markmið og flóknar skuldbindingar, heldur um betra líf og tryggari framtíð.

Íslendingar sýndu á 20. öld framsýni og stórhug og skiptu úr kolakyndingu í að nýta varmalindir landsins sjálfs til upphitunar. Sama tækifæri blasir nú við okkur á 21. öld í samgöngum. Eini munurinn er sá að nú er ákall frá heimsbyggðinni um að við snúum öll frá olíu og kolum til hreinni orku. Það er því kominn tími á aðra byltingu í notkun endurnýjanlegrar orku á Íslandi – nú í samgöngum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum