Hoppa yfir valmynd
22. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi um rannsóknir Dr. Stephens Carvers, forstöðumanns Wildland Research Institute á kortlagningu miðhálendis Íslands

Kæru gestir, það er ánægjulegt að vera með ykkur í hér dag og fá tækifæri til að opna þessa ráðstefnu um kortlagningu óbyggðra víðerna á hálendinu.

Hugtakið óbyggð víðerni er nokkuð vandmeðfarið. Ástæðan fyrir því er, að annars vegar er til skilgreining á óbyggðum víðernum í náttúruverndarlögum, og hins vegar þekkjum við líklega flest þessa óáþreifanlegu tilfinningu sem brýst fram þegar við erum úti í óbyggðum, fjarri skarkala hversdagsins og við verðum hluti af náttúrunni. Þessi tilfinning okkar að vera stödd í óbyggðum víðernum og svo skilgreiningin í lögunum fara ekkert endilega alltaf saman.

Þess vegna eru rannsóknir og fræðsla mjög mikilvæg. Ef við lítum út í heim þá hafa rannsóknir sýnt okkur að víðernum fer sífellt fækkandi á heimsvísu. Í mörgum þéttbýlum löndum finnast víðerni vart lengur. Ástæðurnar eru margvíslegar, svo sem loftslagsbreytingar, aukið umfang landbúnaðar, útbreiðsla borga og bæja og ásókn í ýmsar náttúruauðlindir. Vegna fækkunar víðernasvæða í heiminum þá eru þau víðerni sem eftir eru sífellt að verða verðmætari. Og þau eru verðmæt af ýmsum ástæðum.

Fyrir það fyrsta þá eru óbyggð víðerni eðli málsins samkvæmt svæði þar sem vistkerfi náttúrunnar fá að dafna án inngrips mannsins. Náttúra svæðanna getur þar af leiðandi veitt þá nauðsynlegu vistkerfaþjónustu sem er okkur mannfólkinu mikilvæg. Þetta er þjónusta á borð við bindingu kolefnis, hreinsun vatns og frævun nytjaplantna.

Víðernin skapa líka beinar tekjur vegna þess að sífellt fleiri ferðamenn hafa áhuga á að sækja slík svæði heim. Við þekkjum það hérlendis að ferðamenn sem koma til landsins nefna náttúruna sem helsta aðdráttaraflið. Þegar þeir eru svo spurðir hvað það er við náttúruna sem heillar, þá nefna þeir mörg helstu einkenni óbyggðra víðerna, svo sem að landslagið sé ósnortið, óspillt og víðsýni sé til allra átta.

Svo eru víðernin ekki síst verðmæt vegna þeirrar heilsubótar sem þau bjóða fólki upp á. Nú er annar hver maður kominn í einhvers konar útivist og sífellt fleiri eru farnir að átta sig á þeirri útivistarparadís sem miðhálendið, með sínum víðernum, er.

Og þá komum við að kjarna málsins. Þrátt fyrir að það sé mögulega ekki fullt samræmi á milli lagalegra skilgreininga og upplifana fólks þá vitum við að innan óbyggðra víðerni fyrirfinnst ósnortin náttúra. Það er einmitt ástæðan fyrir því að eitt af verndarmarkmiðum íslenskra náttúruverndarlaga er, eins og þar segir „að standa vörð um víðerni landsins“. Þá segir í stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra þróun að tryggja skuli að stór samfelld víðerni verði áfram að finna á Íslandi.

Ýmsar rannsóknir, þar með talið rannsóknir Dr. Steve Carver sem við heyrum meira um hér á eftir, hafa leitt í ljós að á Íslandi má finna ein stærstu óbyggðu víðerni í Evrópu. Í Hvítbók um náttúruvernd er til dæmis nefnt að miðhálendi Íslands sé líklega stærsta svæðið sem eftir er í Evrópu, utan Svalbarða, sem aldrei hefur verið numið af mönnum.

Í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 er lögð áhersla á að viðhalda víðernum miðhálendisins. Í stefnunni kemur fram að miðhálendið taki yfir um 40% af flatarmáli landsins og að stærstan hluta óbyggðra víðerna landsins sé að finna þar.

Landsskipulagsstefnan leggur því áherslu á að viðhalda víðernum miðhálendisins og að reglulega liggi fyrir uppfærð kort af umfangi og þróun þeirra á miðhálendinu. Til að framfylgja þeirri stefnu hafa nokkur verkefni verið unnin af Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun og þá hafa verið gerðar rannsóknir á vegum Rammaáætlunar.

Þar má meðal annars nefna verkefni Þorvarðar Árnasonar og kollega hans sem snýr að því að þróa aðferðafræði við kortlagningu víðerna, auk annarra verkefna um útfærslu viðmiða t.d. vegna skerðingaráhrifa mannvirkja.

Nú bætist í hópinn Dr. Steve Carver sem hefur kortlagt víðerni hálendisins með alþjóðlegri aðferðafræði. En hann er einn færasti sérfræðingur heimsins í kortlagningu víðernasvæða. Veru hans hér má þakka þeim fjórum náttúruverndarsamtökum sem halda ráðstefnuna, en þau hafa fengið styrki hér á landi og erlendis frá til að vinna að þessu verkefni. Hlutverk frjálsra félagasamtaka um náttúruvernd er mikilvægt í umræðunin sem fer fram hér í dag, en vinnuframlag þeirra er oftar en ekki sjálfboðaliðastarf einstaklinga, eins konar einkaframtak byggt á hugsjónum. Svona framtak er mikilvægt hreyfiafl umræðunnar.

Í ráðuneytinu erum við ekki ókunnug víðernarannsóknir Dr. Carver. En hann kynnti rannsóknir sínar á Vestfjörðum á Umhverfisþingi ráðuneytisins á síðasta ári.

Í lögum um náttúruvernd er kveðið á um að kort með upplýsingum um óbyggð víðerni skuli vera til upplýsinga fyrir stjórnvöld við stefnumótun um verndun landslags og aðra landnotkun og að kortlagningu þeirra eigi að vera lokið fyrir 1. júní 2023.

Ekki liggur fyrir í smáatriðum hvaða viðmið og hvaða aðferðafræði skuli nota við kortlagningu óbyggðra víðerna. En þær aðferðir sem þegar hafa verið lagðar til og þau viðmið til kortlagningar þeirra sem unnið hefur verið að fram til þessa eru mikilvæg innlegg og munu styrkja okkur við að taka ígrundaða ákvörðun um hvernig kortlagningu víðerna landsins verður háttað.
Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum