Hoppa yfir valmynd
20. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á aðalfundi Landverndar 2022

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á því að þakka Landvernd fyrir að bjóða mér að ávarpa aðalfund samtakanna. Samtökin eru auðvitað stærstu náttúruverndarsamtök landsins og hjá þeim fer fram mikilvægt grasrótarstarf í náttúruverndarmálum.

Fljótlega eftir að ég tók við embætti umhverfis- orku- og loftslagsráðherra barst, eins og eðlilegt er þegar nýr ráðherra tekur við, fjöldi beiðna um fund með hinum ýmsu hagsmunaaðilum og samtökum. Minn fyrsti fundur var með fulltrúum Landverndar. Og það var ekki að ástæðulausu. Það var einmitt vegna þess að ég vil vinna vel með þessum stóru samtökum og heyra hvað þau hafa að segja um þau verkefni sem eru fram undan í umhverfismálum. Það er því bæði ánægjulegt og mikilvægt að fá tækifæri til að ávarpa fundinn og fara yfir það sem ég tel almennt mikilvægt þegar kemur að þessum málum.

Það er alveg ljóst að náttúruvernd hefur á undanförnum árum fengið stóraukið vægi í samfélagsumræðu. Bæði hér á landi og annars staðar í heiminum. Fleiri og fleiri hafa áttað sig á að vernd náttúrulegra landsvæða, bæði lífríkis svæða og landslags sem þar má finna, er gríðarlega mikilvæg. Mikilvægið felst auðvitað í því að við viljum tryggja líffræðilega fjölbreytni og þá mikilvægu vistkerfaþjónustu sem náttúran innir af hendi. En mikilvægið felst líka í því að tryggja að við og komandi kynslóðir getum notið þess að eiga stund í ósnortinni náttúru. Líffræðilega fjölbreytnin og vistkerfaþjónustan stuðlar að heilbrigðri náttúru, en upplifunarstundir okkar úti í náttúrunni þar sem hún hefur fengið að þróast óáreitt geta ekki síður stuðlað að því að styrkja okkur mannfólkið andlega og líkamlega.

Í starfi mínu finn ég vel fyrir þessum áhuga á náttúruvernd úr öllum geirum samfélagsins. Málefni þjóðgarðs á hálendinu sem ríkisstjórnin hefur haft til vinnslu, hafa sem dæmi mikið verið til umræðu. Sem sem eðlilegt er þá eru skoðanir skiptar. Hvað varðar þjóðgarðana okkar almennt þá tel ég að þar séu mikil sóknarfæri, endar margar af okkar fallegustu náttúruperlum innan þeirra. En til að ná betur utan um hvað felst í því, til dæmis, að stofna þjóðgarð á miðhálendinu þá skipaði ég nýverið starfshóp sem mun vinna að grænbók um stöðu þjóðgarða og friðlýstra svæða. Hópurinn á meðal annars að öðlast heildaryfirlit yfir málaflokkinn, draga saman upplýsingar og kortleggja hverjir nýta svæðin til dæmis á sviði ferðaþjónustu. Hópurinn á einnig að afla gagna og heimilda um efnahagslegan ávinning atvinnulífsins sem og að láta kanna viðhorf ýmissa hópa í samfélaginu.

Skýrslan sem hópurinn mun svo skila af sér er ætlað að vera grunnur fyrir frekari skoðun á skipulagi þjóðgarða og friðlýstra svæða. Ykkar góði kollegi Árni Finnsson mun leið þennan hóp. Bæði hann og ég leggjum mikla áherslu á samtal við hagaðila í vinnunni sem er fram undan. Þar er ykkar rödd mikilvæg.

Ég talaði hér fyrr um nýtingu náttúruverndarsvæða. Eins og við vitum þá má finna ýmis konar nýtingu innan okkar friðlýstu svæða og það er því mikilvægt að kortleggja hana. Hvort heldur sem er á friðlýstum svæðum eða öðrum landsvæðum þá erum við sífellt að vinna að því að finna jafnvægið á milli verndar og nýtingar. Það finnum við ekki nema með því að leggja stund á rannsóknir og eiga samtal. Þannig getum við vonandi komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvar þetta jafnvægi liggur. Það er alla vega mín einlæga von.

Kæru gestir, þetta leiðir okkur að stærsta verkefninu sem er fyrir hendi. Loftslagsmálunum. Með tilliti til stóra samhengisins í náttúruvernd þá er megináhersla mín og ríkisstjórnarinnar á loftslagsmálin. Enda er það stærsta viðfangsefni alls heimsins að hrinda í framkvæmd aðgerðum í loftslagsmálum sem beina okkur í rétta átt.

Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á hversu mikilvæg samvinna er í þessum málum. Ég hef sagt það opinberlega að við þurfum að gera enn betur og að við hér á Íslandi séum á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í aðgerðum í loftslagsmálum. Við þurfum því að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri.

Annað sem ég hef sett af stað er vinna við nýtt mælaborð loftslagsmála. Til að sjá hvernig okkur miðar áfram við að ná árangri þá er mikilvægt að hægt verði á einfaldan hátt að nálgast upplýsingar sem tengjast saman á mælaborði. Þannig getum við reglulega komið skýrum skilaboðum á framfæri um hvernig gangi að ná markmiðum okkar.

Aðalmarkmið okkar í þessum efnum er skýrt. Við stefnum að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi 2040. Það er eftir átján ár. Og tíminn er fljótur að líða. Á sama tíma er ljóst að staðan í orkumál hefur verið í ákveðinni kyrrstöðu undanfarin ár. Sem dæmi þá hefur rammaáætlun ekki fengið afgreiðslu í níu ár. En við þurfum að komast að niðurstöðu í þessum málum. Græna orkan okkar hefur svo sannarlega hjálpað okkur hvað varðar loftslagsmál og getur hjálpað okkur enn frekar.

Kæru gestir, því vil ég að lokum ítreka það að við landsmenn, í sameiningu, finnum jafnvægið á milli verndar og nýtingar í náttúru Íslands. Öðruvísi náum við ekki árangri.

Takk fyrir mig.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum