Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á morgunfundi Svansins

Svansleyfishafar, starfsfólk Svansins og aðrir gestir.

Það er mér mikil ánægja að ávarpa fundinn. Ekki síst er það ánægjulegt að geta nú haldið fund sem þennan í Svansvottuðu ráðstefnurými í Hörpu. Ég hefði gjarnan viljað vera með ykkur í dag en vegna anna í kjördæmaviku hafði ég ekki tök á því. Í stað þess sendi ég ykkur góðar kveðjur.

Ég hef hrifist mjög af framgangi Svansins hér á landi síðastliðin ár. Svanurinn hefur margvísleg jákvæð áhrif og auðveldar svo sannarlega almenningi, og öðrum, að velja umhverfisvænasta kostinn. Með því að velja Svansmerkta vöru getur kaupandinn treyst því að búið sé að rýna í umhverfisáhrif vörunnar og draga úr þeim eins og mögulegt er.

Mjög ánægjulegt er að sjá að þekking Íslendinga á Svaninum hefur aukist jafnt og þétt síðan mælingar hófust fyrir um 15 árum síðan. Nú þekkja 93% landsmanna Svaninn og 72% treysta Svaninum. Það er mjög mikilvægt þegar horft er til þess að traust almennings til umhverfisyfirlýsinga á vörum og þjónustu hefur almennt beðið hnekki. Grænþvottur og ómarktækar yfirlýsingar framleiðenda eru vandamál. Kröfur Svansins eru hins vegar strangar og það er áskorun að fá Svansvottun. Um leið getur kaupandinn treyst merkinu og vörunum sem það bera.

Svanurinn hefur vaxið jafnt og þétt hér á landi. Eftirspurn eftir Svansvottun var áður að miklu leyti drifin áfram af umhverfisskilyrðum í opinberum innkaupum. Fyrir liggur skýr stefna hins opinbera um að gera ríkar kröfur hvað varðar umhverfisáhrif við innkaup, ekki síður en kröfur um hagkvæmni. Vistvæn innkaup ríkisaðila eru almenn regla, umhverfis– og loftslagssjónarmið eru í forgrunni og kaup á umhverfismerktum vörum og þjónustu eiga að vera regla en ekki undantekning. Á nýliðnum árum hefur vöxtur Svansins hins vegar verið hraðari og þótt ríkið sé enn þá mikilvægur drifkraftur með innkaupum og grænni fjármögnun eru sífellt fleiri fyrirtæki sem sjá möguleikana sem felast í Svansvottun, meðal annars í því skyni að ná forskoti í harðri samkeppni.

Mikill áhugi byggingargeirans hefur haft mikil og jákvæð áhrif í þessu sambandi. Mögulegt er að Svansvotta nýbyggingar og einnig endurbætur á eldri byggingum. Þessi þróun hefur aukið eftirspurn á markaði eftir umhverfismerktum byggingarvörum og öðrum byggingarvörum sem heimilt er að nota í Svansvottaðar byggingar.

Við þessu hefur markaðurinn brugðist og úrval af vistvænni vörum aukist gríðarlega á stuttum tíma. Sveitarfélögin geta stutt við þessa þróun á byggingarmarkaði með því að veita afslátt af verði lóða gegn umhverfisvottun, líkt og Hafnarfjarðarbær hefur gert.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hversu stórt vandamál raki og mygla eru í íslenskum húsum. Vafalaust eru margir þættir sem hafa áhrif í því sambandi en mér finnst mjög spennandi ef Svansvottun bygginga getur mögulega hjálpað okkur við að leysa þetta vandamál og dregið úr líkum á tjóni vegna raka.

Ég legg mikla áherslu á mikilvægi hugvits og nýsköpunar þegar kemur að því að ná árangri í umhverfismálum. Svanurinn endurskoðar vottunarviðmið reglulega og herðir þannig kröfur sínar. Það ýtir undir framþróun og nýsköpun á markaðinum.

Góðir gestir.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að hér verði kolefnishlutlaust samfélag árið 2040. Til að ná þessu markmiði þarf margt að breytast í íslensku samfélagi og við þurfum öll að leggja okkar af mörkum; atvinnulíf, sveitarfélög, ríki og almenningur. Ég vil vekja athygli á að það er skammur tími til stefnu. Árið 2040 er handan við hornið. Ég horfi til þess að öflugt Svansmerki verði mikilvægur þáttur á þessari vegferð. Við eigum að stefna að því að innan fárra ára þekki allir Íslendingar Svansmerkið, allir viti að þeir geti treyst gæðum merkisins og að Svansmerktar vörur og þjónusta verði ávallt fyrst


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum