Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Búgreinaþingi 2023

Ísland stefnir í átt að kolefnishlutlausu hagkerfi. Það verður verkefni allra landsmanna að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu til að því markmiði megi ná.

Bændur munu leika þar stórt hlutverk og fáar greinar eiga jafnmikið undir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og landbúnaður.

Þetta á ekki bara við um landbúnað á heimsvísu, heldur einnig, og jafnvel sérstaklega, landbúnað hér á Íslandi, sem verður fyrir margvíslegum áhrifum af völdum loftslagsbreytinga.

Sum áhrifin verða neikvæð og önnur geta verið jákvæð, en það gildir það sama um báða flokka, að án þekkingar á breytingunum getum við ekki brugðist við þeim á skynsamlegan og útsjónarsaman hátt.

Þó að hlýnun loftslags hér á norðurslóðum fylgi almennt aukin gróska eru einnig í náttúrunni ýmis ferli sem hlýnun og breytingar gróðurfars geta haft mikil og óvænt áhrifa á. Þó viðbúið sé að hlýrri sumur og lengri vaxtartími geti aukið uppskeru í ræktun, er á sama tíma er líklegt að sveiflur í veðurfari geti valdið tíðari og alvarlegri röskun í ræktun en við höfum áður kynnst. Vetrarhlýindi og vorhret munu mögulega í auknum mæli trufla hefðbundna uppskeru og kalár og sumarþurrkar verða algengari ógn við hefðbundna ræktun.

Sumra þessara áhrifa er þegar farið að gæta hérlendis. Gróðureldar eru tíðari og eru raunveruleg ógn. Sömuleiðis eru merkjanlegar breytingar á fartíma og beitarhegðun álfta og gæsa. Borið hefur á nýjum tegundum skordýra sem eru misvelkomin og hafa numið hér land á undanförnum árum. Okkar fyrsta viðbragð við þessum breytingum er að efla og viðhalda þekkingu okkar á þessum áhrifum svo við séum viðbúin þessum breytingum, þeim sem kunna að eiga sér stað og að við séum tilbúin til að nýta okkur þau færi sem gætu gefist.

Landbúnaður er órjúfanlegur hluti af þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir vegna loftslagsvár. Metnaðarfullt markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland felur í sér miklar áskoranir en jafnframt ótrúleg tækifæri til þess að vera í farabroddi þegar kemur að loftslagsvænum landbúnaði. Við vitum að landbúnaður er oft uppistaðan í lífsviðurværi og atvinnu á dreifbýlissvæðum landsins. En hér eru jafnframt mikil tækifæri til öflugrar nýsköpunar.

Kolefnishlutlausi bóndinn er sá sem nýtir tækifæri til nýsköpunar frammi fyrir breytingum í umhverfinu, hann mun ekki bara draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka auka bindingu með jarðrækt, skógrækt og landgræðslu. Nýta aðföng, fóður og búfjáráburð sem veldur minni losun.

Við þurfum að leita leiða til að nýta íslenskar auðlindir og aukaafurðir og þróa ferla til að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu. Tækifærin eru fjölmörg, líforkuver, áburðarframleiðsla aukin þörungarækt svo eitthvað sé nefnt. Við þurfum efla hringrásarhugsun í landbúnaði og ná fram betri nýtingu afurða líkt og tekist hefur í sjávarútvegi. Með því að beisla skapandi hugsun og horfa á virðiskeðjuna frá frumframleiðanda til neytenda, getum við nýtt auðlindina betur, dregið úr sóun, minnkað losun og skilað af okkur betra landi til komandi kynslóða.

Í stjórnarsáttmálanum segir að stjórnvöld í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið muni setja áfangaskipt losunarmarkmið í samvinnu við atvinnulífið. Verkefnið er þegar farið af stað og hefur fengið heitið Loftslagsvegvísar atvinnulífsins. Verkefnið sem unnið er að nefnist Loftslagsvegvísar atvinnulífsins og er unnið í samstarfi við ýmis atvinnugreinafélög. Félögin hafa tekið afar vel í þessa samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda sem felur í sér markmiðasetningu og tillögur að aðgerðum, sem dregið geta úr losun frá hverri og einni atvinnugrein. Er vinnan unnin á forsendum atvinnugreinanna og af einstaklingum og sérfræðingum innan þeirra greina með stuðningi 4 manna teymis sem umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið setti saman síðastliðið haust.

Jákvæðni og vilji til verka hefur einkennt samtöl milli teymisins og samtök úr atvinnulífinu, sem og ráðuneyta og stofnana ríkisins. Þegar hafa 13 atvinnugreinar verið skilgreindar og eru margar þeirra komnar vel af stað í vinnunni.

Standa nú yfir vinnustofur sem ætlað er að greina aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innan hverrar atvinnugreinar og þann 2./3. mars er komið að sameiginlegri vinnustofu Bændasamtakanna og Samtaka fyrirtækja í matvælaiðnaði þar sem bændum og þeim sem koma að matvælaframleiðslu og öðrum hagaðilum greinarinnar gefst tækifæri á að ræða þær áskoranir og tækifæri sem greinin stendur frammi fyrir varðandil loftslagsmálin.

Þetta verkefni er liður í að vinna með atvinnulífinu að áfangaskiptum losunarmarkmiðum í góðu samráði. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% og er unnið að uppfærslu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum svo því markmiði verði náð.

Þátttaka ykkar er mjög mikilvæg í þessu stóra verkefni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum