Hoppa yfir valmynd
21. mars 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðlaugs Þór Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi Fuglaverndar um vindmyllur og fugla

Kæru gestir.

Á undanförnum árum hefur umræða um uppsetningu vindmylla til orkuöflunar aukist jafnt og þétt. Og á síðustu misserum má segja að sú umræða hafið komist á mikið flug, og kannski viðeigandi að nota það orð, því eitt af stóru umræðuefnunum varðandi vindmyllurnar eru áhrif þeirra á fuglana okkar. Ég segi fuglana okkar því ég held að flestir Íslendingar beri væntumþykju til íslensku fuglanna, hvort sem það er vegna gleðitilfinningarinnar sem vaknar þegar við sjáum fyrstu lóuna á vorin, vegna skógarþrastarins sem syngur í garðinum þegar við drekkum morgunkaffið, eða vegna andarinnar sem við gáfum brauð í gamla daga með mömmu og pabba. Við tengjum líka við farfuglanna, sem á hverju ári ákveða að fljúga alla þessa leið yfir hafið til að koma upp ungum, en líka við staðfuglana sem ákváðu á einhverjum tímapunkti, að hér ætluðu þeir að vera! Við skiljum sjónarmiðin: Að skreppa í hlýjuna á meginlandinu yfir vetrartímann, en líka sjónarmiðið, að hér sé nú bara best að vera eftir allt saman!

En að öllu gamni slepptu þá er umræða um vindmyllur og áhrif þeirra á fugla landsins mikilvæg. Ég kem betur að henni á eftir en vil fyrst fara yfir önnur mikilvæg atriði sem einnig hafa komið til tals og mikilvægt er að halda áfram samtali um.

Fyrst vil ég nefna loftslagsmálin. Þar ætlum við að ná markmiðum okkar og stuðla að grænum umskiptum. Ég sagði fljótlega eftir að ég tók við umhverfisráðuneytinu að við þyrftum að bretta upp ermarnar hvað varðar loftslagsmálin, og ég lít á það sem mitt helsta verkefni í ráðuneytinu að stuðla að því að við náum okkar markmiðum.

En af hverju er ég að tala um þetta? Það er ekki mögulegt að ná loftslagsmarkmiðum okkar án þess að beisla vindinn. Hins vegar er ég á þeim stað, eins og ég held reyndar allir aðrir Íslendingar, að það er alls ekki sama hvar vindmyllurnar eru staðsettar, bæði vegna áhrifa á fugla og sjónmengunar, og við verðum að taka þá umræðuog við verðum að vanda okkur. Meira um það á eftir.

Annað sem ég vil minnast á er leyfisveitingaferlið vegna vindmylla. Þar eru skoðanir auðvitað á ýmsa vegu eins og eðlilegt er, en við þurfum að ná lendingu þar til þess að geta komið þessum málum í farleið.

Til að ná utan um verkefnið þá skipaði ég starfshóp síðastliðið sumar sem mun skila tillögum til stjórnvalda um nýtingu vindorku, þar á meðal um hvernig lagaumhverfi getur verið háttað og hvernig verði tekið á ýmsum álitamálum, t.d. hvort þau/íbúar sem búi í nágrenni við vindmyllur njóti þess efnahagslega og um áhrifa á náttúru landsins, þ.m.t. fugla. Sjálfur hef ég lýst þeirri skoðun að það sé eðlilegt að íbúar í nágrenni vindmylla fái eitthvað fyrir sinn snúð.

Starfshópurinn mun fljótlega skila samantekt þar sem dregin verða fram þau atriði sem hann hefur fjallað um, og sem heppilegt er að fái opinbera umræðu, áður en endanlegar tillögur að lagabreytingum verði lagðar fram. Hópurinn mun svo skila tillögum sínum að frumvarpi til ráðuneytisins eftir þá umræðu.

Hvoru tveggja; mikilvægi vindorku í loftslagsaðgerðum okkar, og ferlið við að koma upp vindmyllum og nýta vindorkuna, eru lykilatriði í vegferð okkar að grænum umskiptum.

Þá hef ég einnig skipað starfshóp sem er að kanna möguleikann á nýtingu vindorku á hafi í lögsögu Íslands. Sá starfshópur er m.a. að skoða heppilegar staðsetningar, s.s. hvar sé raunhæft að hafa botnfastar vindmyllur og hvar fljótandi vindmyllur, hvar séu hagstæð vindskilyrði og hvar óheppileg staðsetning vegna m.a. fuglalífs, fiskimiða, siglingaleiða og náttúru.

Ég ber miklar vonir til þess að vinna þessara starfshópa skili góðum tillögum til stjórnvalda.

En aftur að fuglum og vindmyllum. Íslensk fuglafána er ekki fjölskrúðug ef horft er til samanburðar við önnur lönd. Hér á landi hafa sést um 400 tegundir fugla af þeim rúmlega 10.000 sem þekktar eru í heiminum. Árvissir varpfuglar eru um 75 og reglulegir far-, sumar- og vetrargestir eru um 20. Langflestar fuglategundir á Íslandi (um 290) eru svokallaðir flækingsfuglar þ.e.a.s. fuglar sem hrekjast eða villast hingað frá reglulegum heimkynnum sínum.

Fuglalíf Íslands er því að mörgu leyti frábrugðið því sem finna má í öðrum löndum. Til dæmis er minna um litla söngfugla vegna þessa að hér eru ekki miklir skógar. Fjöldi vatnafugla bendir hins vegar til góðra aðstæðna fyrir þær tegundir. Svo skapar hafið afar góð skilyrði fyrir hinn mikla fjölda sjófugla sem hér er. Þannig að skortur í fjölbreytni tegunda á Íslandi vinnst upp með fjölda einstaklinga. Og að því leyti er Ísland paradís fyrir fuglaskoðara því hér eru svo margir fuglar og svo auðvelt að finna þá.

Við berum mikla ábyrgð þegar kemur að þessum fuglum og þurfum að horfa til hennar þegar vindmyllur eru til umræðu.

Alls er skilgreint 121 alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði á Íslandi. Flest þeirra (70) eru sjófuglabyggðir og innan þeirra verpur meirihluti af stofnum 15 af 24 íslensku sjófuglategundanna. Ábyrgð okkar, m.a. með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni, felst í því að tryggja að þessar tegundir þrífist hér á landi. Við vitum að fuglum er mismikil hætta búin með vindmyllum. Þannig virðast sumar fuglategundir passa sig á vindmyllum, en aðrar t.d. ránfuglar vera aukin hætta búin, væntanlega vegna þess að á flugi horfa þeir meira niður en fram. Það er því mikilvægt að líta til sumra svæða með sérstakri gát, og það er í þessu samhengi sem þurfum við að hugsa um möguleg áhrif vindmylla á fuglana.

Það er því ljóst, að þó beislun vindorku sé mikilvægur þáttur í því að við náum loftslagsmarkmiðum, þá legg ég jafnframt áherslu á þá skoðun mína að mikilvægt er að taka með í reikninginn ábyrgð okkar á fuglalífi landsins.

Að lokum vil ég segja að málþing líkt og það sem Fuglavernd stendur hér fyrir er mikilvægur þáttur í að upplýsa og fræða um þessi mál. Ýmislegt sem ég hef farið yfir verður reifað á þessu þingi, og ég vil þakka samtökunum fyrir að standa að málþinginu og fyrir að bjóða mér að halda þetta stutta erindi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum