Hoppa yfir valmynd
05.10. 2016

Í Malaví er rafmagn munaður

Bodaboda001egillÞegar farið er inn á vefsíðu malavísku rafmagnsveitunnar, blasir við ljósmynd af upplýstum, nútímalegum skrifstofubyggingum. Á myndinni standa einkunnarorð rafveitunnar "Towards power all day every day", sem gæti útlagst einhvern veginn svona: Rafmagn allan daginn, alla daga. Þetta metnaðarfulla slagorð er a.m.k. eitthvað sem stefnt er að. Það er langt í land, því innan við 10% Malava hafa aðgang að rafmagni. Þeir sem eru tengdir fá skammtað rafmagn og þeim klukkustundum sem straumur er á dag hvern, fer ört fækkandi. Samkvæmt auglýsingu í dagblaði 4. október verður straumur tekinn af alla daga vikunnar - ýmist einu sinni í sex klukkustundir, eða tvisvar og þá samtals í tólf klukkustundir. Þetta er að lágmarki, en tekið er fram í auglýsingunni að hugsanlega verði rafmagnslaust lengur.

Um 95% af öllu rafmagni sem er framleitt í Malaví koma frá vatnsaflsstöð í Shire-ánni, sem rennur úr Malavívatni. Í eðlilegu árferði, er framleiðslugetan um 350 MW. Vegna vatnsleysis í kjölfar tveggja regntímabila sem brugðust að miklu leyti, er framleiðslugetan núna um 200MW. Samkvæmt upplýsingum rafmagnsveitunnar má búast við því að ástandið versni enn á næstu vikum, eða þar til regntíminn hefst í október/nóvember - að því gefnu að allt verði með felldu. Spár gera jafnvel ráð fyrir því að áður en regntíminn hefst, verði framleiðslugetan ekki nema um þriðjungur af getunni í eðlilegu árferði, eða um 120 MW.  

Misjöfn áhrif rafmagnsskorts

Ef að líkum lætur, hefur rafmagnsleysið lítil sem engin áhrif á stærstan hluta Malava, því innan við tíundi hluti þjóðarinnar hefur aðgang að rafmagni, samkvæmt nýlegum upplýsingum Alþjóðabankans. Fólk er helst tengt í borgum og bæjum og nágrenni þeirra. En langflestir, eða um 90%, hafa ekkert rafmagn og hafa aldrei haft. Og það sem meira er, fátt bendir til að það breytist hratt í náinni framtíð. Þar kemur einkum tvennt til: Skortur á rafmagni og fátækt. Aðgangur að rafmagni er því munaður í fleiri en einum skilningi.

Þeir sem eru vanir að geyma matinn sinn í ísskápum, eða kaupa mat í verslunum með matarkælum, geta ekki lengur verið öruggir. Óstaðfestar sögur eru á sveimi um að tilvikum matareitrunar hafi fjölgað verulega undanfarið, enda er það ein vísasta leiðin til að eyðileggja mat að láta hann frjósa og þiðna á víxl - og það í yfir 30 gráðu hita.  

Aðgerðir til úrbóta

Rafmagsnveitan er með ýmislegt á prjónunum til að bregðast við ástandinu, jafnt til skamms tíma, sem lengri tíma. Til skamms tíma eru nokkur inngrip í undirbúningi. Samningar eru í gangi um að kaupa 10 MW frá Mósambik. Áformað er að kaupa díselrafstöðvar með 26 MW framleiðslugetu. Fyrirtækið telur jafnframt að hægt verði að ná fram 40 MW sparnaði með því að innleiða sparperur. Til lengri tíma er ráðgert að byggja 300 MW kolaraforkuver. Áætlað er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun árið 2019. Viðræður eru í gangi um kaup á raforku (10MW) frá nágrannaríkinu Zambíu, en mestar vonir eru bundnar við framfarir í raforkuframleiðslu með sólarorku. Samkvæmt upplýsingum frá rafmagnsveitunni, eru á þriðja tug fyrirtækja á sviði raforkuframleiðslu með sólarorku í landinu. Samningar við þrjú þeirra eru í burðarliðnum og aðrir í undirbúningi. Björtustu vonir gera ráð fyrir því að þessi fyrirtæki geti lagt 565 MW inn í kerfið. Hvort þessi áform duga til að tryggja rafmagn allan daginn alla daga, er svo annað mál. Og hvort það dugar fyrir alla - líka 90 prósentin sem hafa ekkert rafmagn, er svo enn önnur spurning. Ein spurning til viðbótar er svo hvenær meirihluti Malava verður svo vel stæður að til greina kæmi að kaupa rafmagn, væri það til reiðu.

Svo er bara að vona að það rigni duglega yfir regntímann. Ekki bara út af rafmagninu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum