Hoppa yfir valmynd
05.10. 2016

Landsfundur Framsóknar leggur áherslu á mannréttinda- og jafnréttismál í þróunarsamvinnu

"Mannréttinda- og jafnréttismál skipi áfram veglegan sess í utanríkisstefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og samskiptum Íslands við önnur ríki og ríkjasambönd. Því er mikilvægt að Ísland sýni gott fordæmi í þessum málarflokki á heimsvísu og beiti sér gegn mannréttindabrotum," segir í ályktun um utanríkismál frá landsfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var um síðustu helgi.  

Þar segir ennfremur að Ísland eigi að tala máli hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og að Ísland eigi að vera virkt í samtali þjóða um framtíð heimsins. "Ísland ætti að stefna að því innan þróunarsamvinnu að miðla sem mest þeirri einstöku þekkingu sem byggð hefur verið upp innanlands á vettvangi Háskóla sameinuðu þjóðanna, í sjálfbærum sjávarútvegi, jarðhita, jafnrétti og landgræðslu. Unnið skal áfram að uppbyggingu í tvíhliða þróunarsamvinnu með fátækustu ríkjum heims. Ísland skal áfram beita sér í bættu aðgengi fátækra ríkja að alþjóðaviðskiptum og afnámi hindrana. Unnið verði að því að framlög Íslands til þróunarsamvinnu endurspegli markmið Sameinuðu þjóðanna," segir í ályktun fundarins. 

Að lokum segir í ályktuninni að valdefling kvenna sé mikilvægt efnahagslegt baráttumál fyrir þjóðir heims. Sýnt hafi verið fram á aukinn efnahagslegan ávinning fyrir ríki heims með virkri þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. "Mikilvægt er að Ísland beiti sér áfram fyrir þróunarsamvinnuverkefnum sem stuðla að jafnrétti kynjanna."

Nánar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum