Hoppa yfir valmynd
05.10. 2016

Mótorhjólataxar í Kampala

Bodaboda001egillFólksfjölgun í Úganda hefur verið gríðarleg síðustu ár, þá sérstaklega í höfuðborginni Kampala. Árið 2010 voru Úgandamenn 32,608 milljónir talsins en nú, sex árum síðar, telja landsmenn rétt tæplega 40 milljónir. Samgöngur hafa ekki þróast í takt við þessa miklu og hröðu fólksfjölgun og er ein afleiðing þess tíðar umferðarteppur í höfuðborginni sem geta valdið því að fólk situr fast í bílum sínum tímunum saman.  

Boda Boda
Vegna þessara miklu umferðarteppa njóta móturhjólataxar, kallaðir Boda Boda, sífellt aukinna vinsælda og eru nú orðin ein helsta samgönguleið borgarbúa. Í Úganda eru nú skráð um 200 þúsund Boda Boda ökutæki og líklegt að ökumennirnir séu öllu fleiri. Meðal ungra karlmanna er starfið eitt það eftirsóttasta því þó vissulega séu bílstjórarnir margir, eru farþegarnir líka alltof margir og því þekkist það varla að bílstjóri fari auralaus heim í lok dags.  

Boda Boda eru þeim kostum gæddir að þeir komast hratt á milli staða, þrátt fyrir umferðarteppur, og þeir eru ódýr ferðamáti. Það er oft ótrúlegt að fylgjast með þeim smeygja sér á milli bíla þar sem bilið á milli er svo þröngt að maður heldur niðri í sér andanum og bíður eftir að þeir keyri niður bílspegil, sem þeir yfirleitt gera ekki. Að nota Boda Boda er því einkar hentugt í Kampala, en það getur líka verið sem rússnesk rúlletta. Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var af Makarere Háskólanum á Mulagi sjúkrahúsinu í Kampala er helsta ástæða þess að fólk sæki bráðamóttökuna þar ekki malaría eða aðrir sjúkdómar, heldur Boda Boda umferðarslys. Um 40% allra alvarlegra tilfella sem koma á tiltekið sjúkrahús eru vegna Boda Boda slysa og látast árlega þúsundir Úgandamanna í slíkum slysum eða hljóta alvarlega höfuðáverka og jafnvel aflimun.   World Health Organization (WHO) segir að árið 2030 verði umferðarslys líklegri dánarorsök í lágtekjulöndum heimsins heldur en HIV/alnæmi. Segja þeir jafnframt að notkun hjálms þegar á tveggja hjóla ökutæki í umferðinni geti minnkað líkurnar á dauða eða alvarlegum höfuðmeiðslum um 40% fyrir farþega og 70% fyrir ökumenn. Í Úganda eru lög sem segja að bæði farþegum og ökumönnum beri skylda til að nota hjálm þegar ferðast er um á móturhjóli. Þeim lögum er þó í fæstum tilfellum fylgt eftir og segir tölfræðin að í Kampala noti innan við 1% farþega og innan við 30% ökumanna hjálm. Það var þess vegna sem hugmyndin um Safe Boda kviknaði.  

Snjallsímaappið Safe Boda
Safe Boda var stofnað í árslok 2014 og markmiðið er að bjóða upp á Boda Boda sem öruggan ferðamáta. Safe Boda er snjallsíma-app, en með því er reynt að höfða til yngri kynslóðar landsins. Úganda er ein yngsta þjóð í heimi - um 24% þjóðarinnar eru á aldrinum 10-19 ára og notast ungmenni borgarinnar mörg við snjallsíma. Með Safe Boda snjallsíma-appinu er pantaður Boda Boda ökumaður sem sækir þig hvert sem þú vilt, íklæddur appelsínugulu vesti merktu fyrirtækinu. Ökumennirnir nota alltaf hjálm og hafa meðferðis auka hjálm fyrir farþegana - þeir bjóða meira að segja upp á einnota hárnet fyrir þá allra pjöttuðustu sem vilja ekki setja upp notaða hjálma. Ökumennirnir hljóta allir þjálfun í umferðaröryggi og -reglum, ásamt kennslu á viðhaldi á hjóli. Þetta er gert í samstarfi við Rauða Kross Úganda og er svo fylgt eftir af yfirmönnum Safe Boda.

Appið nýtur nú mikilla vinsælda í höfuðborginni og samkvæmt vefsíðu Safe Boda voru ökumenn þess orðnir rúmlega 1000 talsins í lok ágústmánaðar og fer þeim stöðugt fjölgandi vegna mikillar eftirspurnar. Appelsínuguluklæddu ökumennirnir sem þeytast um götur borgarinnar virðast því vekja verðskuldaða athygli og verður það vonandi til þess að Safe Boda takist markmið sitt - að fækka umferðarslysum og bjarga lífum.

Ljósmynd frá Kampala: Egill Bjarnason.

'Uber for motorbikes' - the smart way to get around in a bustling capital/ CNN
Safe Boda
Motorcycles set to become main mode of transport in Africa/ EastAfrican
Tölfræðigögn um Úganda/ Alþjóðabankinn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum