Hoppa yfir valmynd
05.10. 2016

UNICEF vekur athygli á neyð í Nígeríu

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að hungursneyð í norðausturhluta Nígeríu þar sem vígasveitir Boko Haram hafa ráðið ríkjum gæti orðið 75 þúsund börnum að aldurtila verði þeim ekki veitt aðstoð.

Í frétt Reuters kemur fram að um 15 þúsund einstaklingar hafi verið myrtir og 2 milljónir manna neyðst til að fara á vergang á þeim sjö árum sem íslömsku öfgasamtökin hafa vaðið uppi. Þar segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi óskað eftir vernd hersins fyrir starfsmenn hjálparsamtaka til að komast inn í þau fylki þar sem ástandið er verst, Borno, Yobe og Admawa. Einnig er nefnt að matvælaverð hafi hækkað vegna uppskerubrests.

Samtökin telja að allt að 400 þúsund börn yngri en fimm ára geti liðið fyrir alvarlega vannæringu í fyrrnefndum fylkjum. Þá hafa samtökin óskað eftir meiri fjárhagsstuðningi því þau hafa aðeins fengið brot af því fé sem þarf til að forða börnunum frá því að vera hungurmorða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum