Hoppa yfir valmynd
12.10. 2016

Alþjóðabankinn ætlar að auka framlög til að koma í veg fyrir stríð og átök

WbislEin af niðurstöðum ársfundar Alþjóðabankans sem haldinn var á dögunum í Washington felst í fyrirheitum um að auka verulega framlög til að koma í veg fyrir stríð og átök. Bankinn hyggst leggja meira fé af mörkum en áður til svonefndra óstöðugra ríkja sem voru áberandi í umræðunni á ársfundinum. „Árið 2030 gæti rúmlega helmingur allra fátækra í heiminum verið með búsetu í óstöðugu ríki,“ sagði Jim Young Kim framkvæmdastjóri bankans.

Kim benti á að flóttamannastraumurinn til Evrópu hafi leitt í ljós mikilvægi þess að takast á við rót vandans, stríð og átök. Þótt þetta væru gömul sannindi og ný meðal margra þjóða væri vaxandi skilningur á þessu hvarvetna í heiminum og gæti leitt til öflugri og sveigjanlegri þróunarsamvinnu.

Alþjóðabankinn er risastór alþjóðleg þróunarsamvinnustofnun sem hefur það hlutverk að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarríkja. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Bankinn hefur sett sér þá stefnu að sigrast á fátækt í heiminum fyrir árið 2030 og draga úr ójöfnuði í samræmi við heimsmarkmið SÞ. Á næstu þremur árum er til dæmis ætlunin að tvöfalda eyrnamerkt framlög til fátækustu ríkjanna. 

Þá er ætlunin að breyta verklagi bankans á þann hátt að hann geti brugðist fljótt og vel við neyðaraðstæðum en hann hefur ekki haft það hlutverk til þessa. Ebólufaraldurinn í vesturhluta Afríku er dæmi um aðstæður sem geta komið upp og kallað á fljótvirkan stuðning Alþjóðabankans. Í mótun eru nýjar verklagsreglur sem draga úr skrifræði og gera bankanum kleift að bregðast við með skjótum hætti. Lögð er áhersla á samstarf við stofnanir SÞ á þessu sviði og að stofnanirnar einbeiti sér að sviðum þar sem þær hafa skýrt umboð. Bankinn er hins vegar ekki að fara að sinna hlutverki Sameinuðu þjóðanna á neyðarsvæðum heldur aðstoða ríkin sjálf við að takast á við farsóttir og áföll. 

Að sögn íslensku fulltrúanna á aðalafundinum var framtíðarstefna bankans rædd á fundinum og einnig grunnur að endurútreikningum á hlutum aðildarríkjanna 189, svokölluð Dynamic Formula, sem hefur aukna rödd þróunarríkja og nývaxtarríkja að markmiði. Íslendingar eiga víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan bankans en saman mynda þau eitt af kjördæmum hans. Framlög Íslands til Alþjóðabankans og stofnana hans nema á þessu ári tæplega 780 milljónum króna.

Því er við að bæta að Jim Young King var á dögunum endurráðinn í embætti framkvæmdastjóra bankans til næstu fimm ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum