Hoppa yfir valmynd
12.10. 2016

Lífslíkur hafa aukist um tíu ár á síðustu 35 árum

Old4Bættum lífslíkum er ógnað í vaxandi mæli af heilsubresti sem tengist offitu, háum blóðsykri og misnotkun á áfengi og eiturlyfjum. Þetta kemur fram í nýrri viðamikilli alþjóðlegri greiningu á sjúkdómum – New Global Burden of Desease – sem náði til 195 þjóðríkja og 300 sjúkdóma. Greint var frá niðurstöðum í læknaritinu The Lancet og þar kemur fram að umbætur í salernisaðstöðu, bólusetningar, loftgæði innandyra og næring hafi á síðasta aldarfjórðungi stuðlað að því að börn í fátækum ríkjum lifa lengur en áður.

Rannsóknin sýnir að þótt tekjur, menntun og fæðingartíðni sé mikilvæg í heilsufarslegu tilliti ráði aðrir þættir líka miklu. „Við sjáum þjóðir sem sýna meiri framfarir en reikna mætti með miðað við tekjur, menntun og fæðingartíðni. Og við sjáum þjóðir eins og Bandaríkin þar sem heilsufar er verra en ætla mætti miðað við sömu þætti,“ segir Dr. Christopher Murrey framkvæmdastjóri Health Metrics & Evaluation (IHGME) í Washingtonháskóla í Seattle.

Á heimsvísu hafa lífslíkur aukist úr 62 árum árið 1980 upp í 72 ár árið 2015. Meðalævilengd kvenna er  komin í 75 ár en karla 69 ár. Hratt dregur úr barnadauða og dauðsföllum fækkar vegna smitsjúkdóma. Fram kemur í skýrslunni að sérhver þjóð hefur sérstöðu að þessu leyti  eins og fækkun sjálfsvíga í Frakklandi, fækkun dauðaslysa í umferðinni í Nígeríu og fækkun á dauðsföllum í tengslum við astma í Indónesíu.

Víðast hvar í heiminum eru fæðingar öruggari fyrir mæður og nýbura en nokkru sinni á síðasta aldarfjórðungi. Tölur um konur sem deyja af barnsförum hafa lækkað um 29% frá 1990, úr 282 dauðsföllum af hverjum hundrað þúsund fæddum börnum niður í 196 dauðsföll. Enn eru þó 24 ríki þar sem yfir 400 konur deyja af barnsförum miðað við 100 þúsund fædd börn og hæsta dánartíðnin er 1,074 mæður í Miðafríkulýðveldinu. Í Afganistan og Síerra Leone eru sambærilegar tölur 789 og 696. Samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á meðaltalið að vera færri en 70 mæður miðað við 100 þúsund lifandi börn árið 2030.

Af einstaka niðurstöðum skýrslunnar má nefna að dauðsföllum af völdum ýmissa sjúkdóma hefur fækkað einstaklega hratt á síðasta áratug. Milli áranna 2005 og 2015 fækkaði dauðsföllum af völdum HIV/alnæmis um 42% og malaríu um 43%. Dauðsföllum vegna fylgikvilla fyrirburafæðinga fækkaði um 30% á sama tíma og dauðsföllum á meðgöngu og fæðingu almennt um 29%.

Þá staðfestir skýrslan að barnadauði er á undanhaldi. Á síðasta ári létust 5,8 milljónir barna yngri en fimm ára eða 52% færri börn en árið 1990. Ungbarnadauði minnkaði um 42% og andvana fædd börn voru 47% færri á síðasta ári en árið 1990.

Ísland heilsusamlegasta þjóð í heimi

Samkvæmt gögnum í fyrrnefndri rannsókn var reiknað út hvaða þjóðir væru heilsusamlegastar og þar höfnuðu fimm þjóðir með 85 stig af 100 mögulegum: Ísland, Singapúr, Svíþjóð, Andorra og Bretland. Ísland reyndist þó við nánari skoðun hafa örlítið forskot á hinar fjórar og hafnaði því í efsta sæti, samkvæmt frétt á WEForum. Skýringarnar eru sagðar vera tvær: reglur stjórnvalda í umhverfismálum og gott framboð af ferskum fiski.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum