Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Af listum og menningu

AnnaGudrun2Það er mikið um hina ýmsu menningarviðburði í Maputo - danssýningar, listasýningar og lifandi músík - viðburðir sem ég hef mjög gaman af að mæta á til að sýna mig og sjá aðra og kynnast því frekar hvað er á döfinni í mósambísku menningarlífi. Ég hef tekið eftir því að samtímalistamenn hérna eru margir hverjir umhverfisvænir og notast við efnivið í listsköpun sína sem aðrir myndu oft flokka sem drasl. Þannig leggja þeir sitt af mörkum til umhverfisverndar, á sama tíma og þeir vekja aðra til umhugsunar um slík málefni. Ég sá eina slíka sýningu um daginn þar sem listamaðurinn Gonza notar meðal annars málma, víra og dekk sem hann safnaði saman af götunni, endurnýtti og leyfir nú gestum og gangandi að njóta.

Mima-te er fatamerki sem er hugmyndasmíð mósambískra systra og er fyrsta mósambíska fatamerkið sem notast við endurunnin föt. Systurnar þræða markaði borgarinnar til þess að finna second-hand föt sem þær endurvinna svo úr verða nýtískulegar og einstakar flíkur. Með þessu vilja þær vekja athygli á endurvinnslu út frá umhverfissjónarmiðum sem og búa til nýja mynd af mósambískri tísku. Önnur systirin, Nelsa, er einnig myndlistakona og er með sýningu núna í október í fransk-mósambíska menningarsetrinu sem ég fór að sjá í síðustu viku. Sýningin, "Status Quo", er túlkun Nelsu á kreppunni og stjórnmálaástandinu í Mósambík og er hennar framlag til að vekja athygli á mikilvægi þess að leita sameiginlegra lausna á ágreiningi og öðrum samfélagslegum vandamálum.

Efnahagsástandið leikur margan Mósambíkan grátt þessa dagana þar sem verð á vörum og þjónustu fer sí hækkandi sem erfitt er fyrir meðalmanninn að eiga við. Stjórnmálaskandalar sem litið hafa dagsins ljós eru á allra vörum þó að fólk virðist halda ró sinni út á við. Almenn mótmæli gagnvart stjórnvöldum eru sjaldgæf þar sem það er ekkert sérstaklega vinsælt að vera opinberlega á móti yfirvöldum hérna.

Ég var hrifin af sýningu Nelsu en það sem vakti helst athygli mína var að með verkum sínum dregur hún upp mynd af áhrifum efnahagsástandsins á fólkið í landinu og beinir spurningum um næstu skref að yfirvöldum. Hún sýnir fram á þjáningu og skapraunir meðborgara sinna en á sama tíma jákvæðnina og gleðina sem ríkir og einkennir Mósambíka. Ég talaði við Nelsu sjálfa sem var á staðnum og hún útskýrði fyrir mér að henni finnst mikilvægt að sýna ekki aðeins neikvæðu hliðina á veruleikanum heldur að sýna einnig fram á vilja fólksins til að tjá sig og taka þátt í að breyta samfélaginu til hins betra.

Fólk talar nefnilega mikið sín á milli og hefur skoðanir sem komast ekki til skila þar sem lítið er um vettvang til að koma þeim á framfæri. Framtak Nelsu finnst mér því mikilvægt þar sem hún skapar vettvang fyrir þjóðfélagslega umræðu og fær fólk til þess að hugsa. Þó að listræn tjáning sé ekki allra er listin þó fjölbreytt, hún nær oft til ólíkra hópa og getur því verið gott tæki til að koma skilaboðum áleiðis ásamt því að skapa umræðu, hvort sem það er um umhverfisvernd og endurvinnslu, stjórnmál eða bara eitthvað allt annað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum