Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Borðspil í þróun um Heimsmarkmiðin

Félag Sameinuðu þjóðanna er að vinna að borðspili sem nefnist Friðarleikarnir. Borðspilið er ætlað fyrir börn í 4 og 5. bekk og gefur þeim tækifæri til þess að leysa vandamál heimsins með hjálp Heimsmarkmiðanna.

Í fréttabréfi félagsins segir að á alþjóðadegi friðar í ár - 21. september - hafi verið lögð sérstök áhersla á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem grunnstoð friðar. "Samkeppni um takmarkaðar auðlindir leiðir oft til átaka og til að fyrirbyggja slíkt og ná varanlegum friði í heiminum er sjálfbær þróun þar nauðsynlegur þáttur. Við þurfum að vernda jörðina okkar og aðeins með því að vinna saman getum við gert sameiginlegt heimili okkar öruggt fyrir komandi kynslóðir," segir í fréttabréfinu. Þar segir ennfremur: "Við hvetjum alla til að kynna sér nánar Heimsmarkmiðin 17 því öll getum við tekið þátt í því að vinna að sjálfbærri þróun; að hver og einn lifi í jafnrétti og reisn, að enginn sé skilinn útundan og að vernda jörðina okkar. Í von um að kynna og kveikja áhuga á Heimsmarkmiðunum og hinum ýmsu heimsvandamálum er Félag Sameinuðu þjóðanna að vinna að borðspili sem nefnist Friðarleikarnir. Borðspilið er ætlað fyrir börn í 4 og 5. bekk og gefur þeim tækifæri til þess að leysa vandamál heimsins með hjálp Heimsmarkmiðanna.

Samvinna við Landakotsskóla

Verið er að þróa spilið í samvinnu við 4. bekk í Landakotsskóla og nú í síðastliðnum mánuði var það prufukeyrt í fyrsta skipti. Nemendur voru fengnir til að búa til land, sem þau nefndu Ævintýraland, og leysa vandamál með hjálp Heimsmarkmiðanna og stuðla að sjálfbærri þróun. Í Ævintýralandi hafði ekki verið hugsað til sorpvinnslu og því var landið hægt og rólega að fyllast af rusli. Nemendurnir ákváðu að fjárfesta í endurvinnslustöð og ruslafötum ásamt því að búa til störf í sorpvinnslu. Þar að auki komu upp hugmyndir um að endurvinna rusl í listaverk, steypu og ræktarland með hjálp sérfræðinga. Þessum lausnum átti síðan að ná fram með því að nýta menntakerfi og nýsköpun í landinu.

Í lokin tókst nemendunum að leysa sorpvandann í Ævintýralandi, hlúa að landinu sínu og þjóð og um leið stuðla að 12 Heimsmarkmiðum af 17. Fyrsta prufukeyrslan kom því afar vel út og stóðu nemendurnir sig einstaklega vel. Þau voru áhugasöm og frumleg í lausnum og var helsta vandamálið það að ekki náðist að vinna úr öllum hugmyndunum í tíma. Við hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna erum virkilega spennt fyrir áframhaldandi þróun á Friðarleikunum og vonumst til þess að vera komin með lokaútgáfu í hendurnar á næstu önn," segir í fréttabréfinu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum