Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Jafnrétti á átakasvæðum

Nadiya-SavchenkoSvanhJafnrétti og valdefling kvenna eru hornsteinar framfara í þróunarríkjum og lykilatriði að útrýmingu fátæktar. Konur sem hljóta menntun skila henni til barna sinna og huga betur að heilsu þeirra og varða þannig leiðina til aukins hagvaxtar og framfara. En raddir kvenna heyrast oft ekki.

"Ég hef upp raust mína - ekki til að hrópa, heldur til þess að bergmála raddir þeirra sem ekki heyrast. Við náum aldrei árangri ef haldið er aftur af helmingi okkar." -Malala Yousafzai

Í ríkjum þar sem stjórnarfar er veikt, ríkir oft stöðnun og óvissa sem eru uppspretta ófriðar og þar eiga konur sérstaklega erfitt uppdráttar. Átök hafa ólík áhrif á konur og karla og sagt er að það sé erfiðara að vera kona á stríðstímum heldur en karl. Við heyrum allt of oft í fréttum hvernig ofbeldi og nauðganir eru markvisst notaðar til að brjóta niður samfélög; konum er beitt sem stríðstólum. Þar sem aðgangur kvenna að herjum er víða takmörkum háður fara karlarnir á vígvöllinn en konurnar reyna að halda daglegu lífi gangandi. Auk venjubundinna starfa sinna þurfa þær að bæta á sig þeim störfum sem karlarnir stunduðu. Þessi veruleiki virðist oft fjarlægur á okkar afskekktu eyju en hluti af vandanum flyst heim til okkar með flóttamönnum sem yfirgefa heimalönd sín og reyna að byggja nýtt líf á Íslandi. Væru þau örugg í heimahögum sínum vildu þau síst af öllu flýja. Það er því liður í þróunarsamvinnu að styðja slík ríki og undanfarin ár höfum við beint stuðningi okkar til Afganistan og Palestínu.   

Kynjajafnrétti og valdefling kvenna
Kynjajafnrétti og valdefling kvenna er gegnumgangandi í þróunarsamvinnu Íslands og undir hana fellur einnig friðargæsla. Um árabil hefur Íslenska friðargæslan sent sérfræðinga til starfa á hamfarasvæðum til að vinna með stofnunum sem falið er að gæta friðar eða eru lykilaðilar í uppbyggingu eftir hamfarir hvort heldur er af völdum manna eða náttúru. Fyrsta "1325" áætlun Íslands er frá árinu 2008 en nú fer fram önnur endurskoðun á framkvæmd áætlunarinnar. Öllum sérfræðingum friðargæslunnar ber skylda til að fylgja eftir því sem við köllum í daglegu tali "Ályktun 1325" í störfum sínum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun nr. 1325 um konur frið og öryggi árið 2000, en þar var í fyrsta skipti viðurkennt lykilframlag kvenna við friðarumleitanir og friðarsamninga og uppbyggingu eftir átök. Ályktunin varð til fyrir áeggjan borgarasamtaka, ekki síst þeirra sem sinntu mannúðarstarfi og byggði reynsla þeirra af vanvirtu hlutskipti kvenna þegar "stóru" aðilarnir koma að samningaborðinu. Á þessum 16 árum sem liðin eru hafa sjö nýjar ályktanir verið samþykktar til að hnykkja á því að konur séu bæði fórnarlömb og gerendur í átökum, að þær hafi hlutverki að gegna sem karlmenn geta síður sinnt.

Árið 2012 tilnefndi framkvæmdastjóri NATO sérstakan fulltrúa sinn í málefnum kvenna, friðar og öryggis. Því starfi gegnir nú Marriet Schuurman sem er sendiherra frá hollensku utanríkisþjónustunni. Hún er málsvari NATO um málaflokkinn bæði út á við og inn á við, en að áætlun NATO um innleiðingu ályktunar Öryggisráðs SÞ um 1325 standa öll aðildarríki NATO auk 27 samstarfsríkja.

Íslendingar hafa löngum verið meðal dyggustu stuðningsmanna áætlunarinnar innan NATO og hafa sýnt stuðning sinn með framlögum til málaflokksins og sérfræðingum til starfa við innleiðingu áætlunarinnar. Starf mitt hjá NATO er í beinu samhengi við núverandi aðgerðaáætlun Íslands um Konur, frið og öryggi.   Ýmsum kemur á óvart að NATO hafi slíka áætlun en það er ekki að ástæðulausu. Grunngildi stofunarinnar eru "að varðveita frelsi, sameiginlega arfleifð og menningu aðildarþjóðanna sem byggja á grunni lýðræðis, frelsi einstaklingsins og virðingu fyrir lögum og reglu". 

Hernaðarsamstarfinu fylgja tengsl við átakasvæði og þátttaka í uppbyggingu eftir stríð. Mönnum hefur orðið ljóst að það gerist ekki án þátttöku kvenna. Herir þátttökuríkjanna þufa að geta unnið saman og samhæfing staðla og áherslna auðveldar slíkt samstarf.

Í grunninn snýst þetta um jafnrétti kynjanna. Að konur hafa aðgang að störfum innan hersins til jafns við karla og að heraflinn fái til liðs við sig hæfileikafólk af ólíku tagi. Konur og karlar hafa msimunandi félagslegum hlutverkum að gegna og búa yfir ólíkum upplýsingum sem gagnast til að tryggja frið, og ógna síður hefðbundnu samfélagsmynstri. Á ófriðarsvæðum er lykilatriði að ná til heimafólks en slíkur aðgangur er oft kynbundinn.

Miðað við aðrar alþjóðastofnanir hefur NATO gengið vel að innleiða ályktun 1325, en betur má ef duga skal. Að hluta til er herskipunum fyrir að þakka. Þegar herforingjar skipa fyrir, hlýða undirmenn og framkvæma. Þannig að þrátt fyrir að 90% hermanna aðildarríkjanna séu karlmenn þurfa þeir að hlýða þessum sem öðrum samþykktum tilskipunum. Það er ekki þar með sagt að þeir séu sáttir eða skilji um hvað málið snýst, en reynslan á eftir að leiða það betur í ljós. Hjá NATO eru einnig borgaralegir starfsmenn sem ekki heyra undir herskipanir. Þar hefur verið á brattan að sækja að koma konum til æðstu starfa, en unnið er að því hörðum höndum að breyta því og aðferðirnar eru ýmiss konar og snúa meðal annars að foreldraorlofi, vinnutíma og starfsmati svo eitthvað sé nefnt. Næstu ár munu leiða í ljós hvernig til tekst að breyta "heimafyrir".

Úkraína 

Meðal mikilvægustu samstarfsríkja NATO er Úkraína. Eitt af því merkilegra sem ég hef upplifað í þessu starfi er þátttaka í vinnustofu í Kiev sem átti að greina kynjajafnréttisstefnu stjórnvalda í tengslum við átökin í austurhluta landsins (Donbas héraði). Þar sást glögglega hvað átök hafa ólík áhrif á konur og karla ekki síst þar sem nútíma hernaður er mun víðtækari en vopnuð átök. Hann fer fram í netheimum og með óbeinum aðgerðum sem beinast að sjálfri samfélagsgerðinni. 

Við mættum á hefðbundna ráðstefnu, ráðgjafar héðan og þaðan sem mættu til að segja Úkraínukonum og mönnum hvernig ætti að gera hlutina. En áberandi var að á fremstu bekkjunum annars vegar í salnum voru konur og fáeinir karlar í herbúningum. Þegar leið á ráðstefnuna fóru ýmsir af bekkjunum að biðja um orðið og á endanum röðuðu þau sér á pallborðið. Skemmst er frá því að segja að þau "rændu" fundinum. Erindi þeirra var að segja þessu alþjóðaliði að þau hefðu öll barist á vígvellinum í Donbas héraði en fengu enga viðurkenningu fyrir framlag sitt. Þetta voru mest konur sem sendar höfðu verið á vettvang sem bókarar eða hreingerningalið en þegar á hólminn var komið voru þeim fengin vopn í hendur og þau beðin að berjast. Þegar heim var komið voru ýmsir sárir bæði á sál og líkama en þar sem þau voru ekki formlegir "hermenn" var engar bætur að fá eða viðurkenningu á framgöngu. Flest vildu þau vera hermenn og fá þjálfun en vegna eldgamalla reglna voru flestar stöður í hernum lokaðar konum. Þær máttu t.d. ekki vera "lúðraþeytarar", en þó máttu þær fljúga þotum og þyrlum. Og fyrir nýgræðing í þessum heimshluta var áhugavert að heyra málflutning kvenna sem sögðust "hafa farið á vígvöllinn til að sinna þörfum hinna hraustu hermanna sinna" og karla sem sögðu að það væri ekki við hæfi að konur "tækju þátt í hernaði sem skaðað gæti hæfni þeirra til að eignast börn".

Á síðustu misserum hefur þessi hópur bundist böndum og kallar sig "Ósýnilegu hersveitina" (Invisible Battalion) og hefur með stuðningi UN-Women í Kiev unnið að skýrslu um hvernig unnið skuli gegn kynjamisrétti í úkraínska hernum.

Við munum eftir því hvað úkraínskar konur voru áberandi í átökunum á Maidan torgi 2014 og ljóst er að þær láta víða til sín taka, en samhliða þessu er ímynd úkraínskra kalrmanna mjög gamaldags og karlmennsku þeirra virðist ógnað. Kerfislægar breytingar þarf til að jafna þennan leik. Vandi vegna spillingar er kerfislægur og samstarfssamningurinn við NATO gengur mikið út á endurbætur í öryggismálum landsins. Kynjajafnréttið er liður í því og næsta atlaga er í undirbúningi að því að samþætta kynjajafnrétti í samstarfssamninginn við NATÓ.
Fésbókarsíða@NATO1325

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum