Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Kosningaeftirlit í Georgíu

GreinsnorraKosningaeftirlit er í dag mikilvægur hluti af starfsemi Íslensku friðargæslunnar og íslenskri þróunarsamvinnu. Eftirlitið, sem fer fram á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) er mikilvægur liður í lýðræðisþróun aðildarríkja ÖSE. Fyrir kosningar bjóða aðildarlöndin ÖSE að sinna kosningaeftirliti til þess að tryggja að kosningarnar fari fram með frjálsum hætti. ÖSE metur þá hvort nægilegt traust fyrir framkvæmd kosninga er til staðar hjá lykilhópum í samfélaginu, eins og stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, og frjálsum félagssamtökum. Ef efasemdir liggja fyrir boðar ÖSE í kosningaeftirlit og senda aðildarlöndin, á eigin kostnað, fulltrúa sem sinna annað hvort langtíma eða skammtíma kosningaeftirliti.

Undanfarnar vikur hefur Ísland sent fjóra fulltrúa í skammtíma kosningaeftirlit til Georgíu og Montenegró. Undirritaður fór til Georgíu ásamt Lilju Margréti Olsen, lögfræðingi. Við komu til landsins fengum við tækifæri til þess að skoða aðeins höfuðborgina Tbilisi og kynntumst yndislegri matarmenningu landsins.

En strax næsta dag hófst undirbúningur fyrir kosningaeftirlitið, í boði starfshóps ÖSE í Tbilisi. Kynningarnar voru ítarlegar og fóru yfir helstu þróanir í stjórnmálum, fjölmiðlum og kosningalögum landsins. Næsta dag voru nánari kynningar um framkvæmd kosningaeftirlitsins, og notkun á sérstökum rafrænum penna sem er notaður til þess að fylla út form á kjörstað. Penninn sendir (með Bluetooth) upplýsingar um það sem maður skrifar á sérstök form yfir í snjallsíma, sem svo notar farsímanet til þess að senda upplýsingarnar beint til Tibilisi þar sem tölfræðingar ÖSE geta strax rýnt tölurnar.

Að kynningu lokinni hittum við okkar samstarfsfélaga í eftirlitinu. ÖSE hefur í sínu kosningaeftirliti þá reglu að einn karl og ein kona sinna eftirliti saman, og að þau eru aldrei frá sama landi. Með sér í för hafa þau túlk og bílstjóra, helst frá svæðinu þar sem eftirlitið fer fram. Minn samstarfsfélagi var kona frá Bandaríkjunum sem hafði farið í margar slíkar eftirlitsferðir áður og gat leiðbeint mér vel í gegnum verkefnin. Við nýttum daginn fyrir kosningar í að kynna okkur svæðið þar sem við áttum að sinna eftirliti (vestan við borgina Gori, fæðingarstaður Stalínar), og gerðum áætlun um hvaða kjörstaði átti að heimsækja.

Í kosningaeftirliti er mikilvægt að fylgjast grannt með á kjörstað, hafa augu fyrir smáatriðum, og halda fullkomnu hlutleysi í starfi. Verkefni eftirlitsmanns er aðeins eftirlit og skýrslugjöf til ÖSE, en alls ekki ráðgjöf, þrátt fyrir að margir starfsmenn á kjörstað líta oft til eftirlitsfulltrúa með spurningar um framkvæmd!

Við hófum kosningaeftirlitið klukkan sjö um morguninn og fylgdumst með kjörstað í sveitinni þegar opnað var fyrir kjósendur. Á kosningadegi heimsóttum við rúmlega 10 kjörstaði, og enduðum daginn á kjörstað númer 11 í Khashuri þar sem við fylgdumst með talningu. Við reyndumst vera heppin með kjörstað fyrir talningu, en hún fór fram með skipulögðum hætti og lauk rétt fyrir miðnætti eftir að kjörstaður lokaði á slaginu átta. Kosningaeftirlitsmenn ÖSE eiga að fylgjast með talningu á einum kjörstað til enda, og fylgja svo formanni kjörstaðs til yfirkjörstjórnar þar sem niðurstöður eru tilkynntar. Þar fylgdumst við nánar með framkvæmd talninga þangað til við fórum aftur á hótelið rúmlega klukkan þrjú - eftir 20 klukkustunda eftirlit.

Næsta dag var svo haldinn samantektarfundur með langtímaeftirlitsmönnum, og farið var yfir helstu niðurstöður. Á okkar svæði urðum við ekki vitni að neinum alvarlegum mistökum, kosningasvindli eða illgjörnum verkum. Helstu vandamál voru að eftirlitsmenn stjórmálaflokkana sem skiptu sér of mikið af framkvæmd kosninga og stjórn á kjörstað, sem reyndist vera vandamál um allt land. Síðasta daginn fyrir brottför var svo haldinn fundur og móttaka í Tbilisi fyrir alla eftirlitsmennina á vegum ÖSE, þar sem það kom fram að kosningar fóru friðsamlega fram og án alvarlegra athugasemda. Þá kom fram að sendiherra Bandaríkjanna sagði að hann vildi óska að kosningar í landi hans væru eins friðsamlegar og kosningar í Georgíu.

Myndatexti: Snorri (l.t.v.) og samstarfsfélagar hans á neðri myndinni og á efri myndin er tekin á kjörstað í Georgíu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum