Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Samstarf Alþjóðabankans og Íslands á sviði jarðhita

Geo1Við Íslendingar þekkjum vel kosti jarðhitans sem orkugjafa enda hefur hann haldið á okkur hita, velflestum, áratugum saman og þar að auki er rúmur fjórðungur af öllu rafmagni sem framleitt er á landinu upprunninn frá jarðhitavirkjunum. Það eru heldur engin tíðindi að þessu er ekki allstaðar svona farið. Víða um lönd eru jarðhitaauðlindir sem eru ónotaðar eða vannýttar á meðan rafmagn er framleitt með jarðefnaeldsneyti sem er í öllum tilfellum skaðlegt vegna CO2 losunar og í mörgum tilfellum dýrt. Þó að vatnsaflsvirkjanir séu víða hafa þær í seinni tíð reynst ótryggar vegna breytinga á úrkomumynstri og þurrka. Kostir jarðhitans í samanburði við þessa orkugjafa, þ.e. lágur rekstrarkostnaður, hlutfallslega lítil losun gróðurhúsaloftegunda og áreiðanleiki eru ótvíræðir.


Á hinn bóginn eru tveir megin ókostir við jarðhitann sem hafa mjög hægt á nýtingu þessarar ágætu auðlindar. Í fyrsta lagi er hann ekki alls staðar að finna og í öðru lagi þarf miklar og áhættusamar fjárfestingar í jarðhitaleit og tilraunaborunum til að staðfesta að nýtanlegur jarðhiti sé til staðar og í hvað miklu magni og enn frekari fjárfestingar áður en hægt er að virkja. Hár fjárfestingakostnaður í upphafi með mikilli áhættu hefur orðið til þess að einkaaðilar og stjórnvöld í fátækum ríkjum hafa ekki bolmagn til að leggja út í virkjun jarðhita þrátt fyrir von um umtalsverðan ábata ef vel tekst til og nýtanleg auðlind reynist vera fyrir hendi. Við þessar aðstæður er gott tækifæri fyrir alþjóðlega þróunarbanka, eins og Alþjóðabankann, að koma að málum og aðstoða lönd við að rannsaka og nýta sínar jarðhitaauðlindir.

Rúmir fjórir milljarðar dala til jarðhitaverkefna í þróunarríkjum
Alþjóðabankinn hefur tekið þátt í fjármögnun jarðhitaverkefna í þróunarlöndum frá því á áttunda áratug síðustu aldar þegar bankinn lánaði fé til byggingar á Olkaria I orkuverinu í Kenía. Síðan þá hefur Alþjóðabankinn og aðrar sambærilegar stofnanir lánað sem nemur rúmum fjórum milljörðum Bandaríkjadala til jarðhitaverkefna í þróunarlöndum víða um heim og er hlutur Alþjóðabankans þar af rúmur helmingur. Framan af lánaði bankinn fyrst og fremst til áhættuminni þátta í uppbyggingu jarðhitavirkjana, þ.e. byggingu orkuveranna sjálfra og gufuveitna en vék sér undan því að veita lánsfé til borana en borkostnaður getur numið um 40% af heildarkostnaði við virkjun jarðhita og því er aðgengi að fjármunum til borana ein af megin forsendum þess að unnt sé að koma jarðhitavirkjunum á koppinn.

GGDP
Á síðustu árum hefur Alþjóðabankinn unnið að því að vekja athygli á því innan þróunarsamfélagsins að takmarkað aðgengi að fjármagni til borana, og þá einkum til rannsóknaborana, sé einn af megin flöskuhálsunum sem tefja vöxt á nýtingu jarðhita til rafmagnsframleiðslu í þróunarlöndum. Þetta hefur m.a. skilað sér í því að árið 2015 var fé til rannsóknaborana 17% af því fé sem alþjóðlegir þróunarbankar vörðu til jarðhita en árið 2012 var þetta hlutfall einungis 6%. Á alþjóðlegri jarðhitaráðstefnu í Hörpu í mars 2013 hleypti Alþjóðabankinn af stokkunum sérstöku átaksverkefni, the Global Geothermal Development Plan (GGDP), til að afla fjár til jarðhitaverkefna. GGDP verkefnið er rekið af ESMAP (Energy Sector Management Assistance Program). Um 250 milljónir bandaríkjadala hafa nú þegar fengist til þessa verkefnis frá CTF (Clean Technology Fund) og er þessu fé ætlað að örva fjárfestingu einkaaðila í jarðhitavirkjunum en gert er ráð fyrir að á móti þessu fé komi allt að 1,5 milljarðar dala frá einkageiranum. Þess skal getið að fleiri alþjóðlegir þróunarbankar svo sem Evrópski Þróunarbankinn (EBRD) og Ameríski Þróunarbankinn (IADB) geta einnig ráðstafað því fé sem safnast innan GGDP.

Stuðningur Alþjóðabankans við jarðhitaverkefni í einstökum löndum er sniðinn að aðstæðum í hverju landi. Í Tyrklandi þar sem jarðhitageirinn hefur verið í miklum vexti á síðustu árum með þátttöku fjölda innlendra fjárfesta kemur bankinn að því að fjármagna lánalínur fyrir innlenda banka sem framlána til vinnsluborana og byggingu orkuvera. Þar er einnig unnið að því að koma á fót sjóði, innan ramma GGDP, sem hefur það hlutverk að tryggja hluta af þeim fjármunum sem einkaaðilar leggja í rannsóknaboranir. Er þetta hugsað til að auka enn frekar áhuga einkaaðila til að fjárfesta í virkjun jarðhita. Alþjóðabankinn er einnig að undirbúa að setja á fót samskonar sjóð í Indónesíu. Í löndum þar sem jarðhitageirinn er ekki eins langt á veg kominn veitir Alþjóðabankinn fé til borana; í gegnum GGDP styrki eins og t.d. í Djibouti og í Armeníu eða með lánum til langs tíma og á lágum vöxtum, t.d. í Eþíópíu.

Ísland og Alþjóðabankinn
Ísland og Alþjóðabankinn hafa átt farsælt samstarf í jarðhitamálum um nokkurt skeið. Íslensk stjórnvöld hafa sem hluthafar í Alþjóðbankanum og aðilar að ESMAP beitt sér fyrir því að bankinn geri stuðning við jarðhitanýtingu að forgangsverkefni. Þannig studdu íslensk stjórnvöld undirbúning GGDP dyggilega. Alþjóðabankinn og Ísland gerðu einnig með sér samkomulag um samstarf í jarðhitamálum í Austur Afríku árið 2012. Það samstarf felst í því að Ísland fjármagnar yfirborðsrannsóknir í samstarfi við Norræna Þróunarsjóðinn en Alþjóðbankinn fylgir í kjölfarið og fjármagnar rannsóknaboranir. Þetta samstarf hefur heppnast sérlega vel í Eþíópíu þar sem undirbúningur að tilraunaborunum stendur nú yfir.

Íslensk stjórnvöld hafa ennfremur kostað stöðu jarðhitasérfræðings innan ESMAP síðan 2009. Íslenskir sérfræðingar innan ESMAP hafa stutt við starf verkefnisteyma sem vinna að jarðhitaverkefnum innan bankans og skrifað fagrit um jarðhitamál sem nýtast í starfi bankans svo sem handbók um skipulag og fjármögnun jarðhitaverkefna og nýlega skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðhitavirkjunum. Annar þessara sérfræðinga átti einnig drjúgan þátt í þeirri hugarfarsbreytingu varðandi stuðning bankans við boranir sem getið er að framan og mótun GGDP. Íslenska utanríkisráðuneytið og ESMAP vinna nú að mótun frekara samstarfs á sviði jarðhita á næstu árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum