Hoppa yfir valmynd
19.10. 2016

Setur auðmýkt, samkennd og valdeflingu kvenna í öndvegi

Viðtal við Guterres á CNN Eins og áður hefur verið sagt frá tekur Antonio Guterres fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals við af Ban Ki-Moon sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá og með byrjun næsta árs. Guterres verður níundi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna frá upphafi.

Í nýju fréttabréfi Sameinuðu þjóðanna er farið yfir ferlið um val á framkvæmdastjóra og þar segir: "Val á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna fer þannig fram að Öryggisráðið mælir með frambjóðanda við Allsherjarþingið sem staðfestir valið með kosningu. Ekki er hefð fyrir því að Allsherjarþingið kjósi gegn meðmælum Öryggisráðsins. Þetta fyrirkomulag þýðir að fastaríkin fimm, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland, sem sitja í Öryggisráðinu hafa neitunarvald við val á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Í gegnum tíðina hefur valið farið fram fyrir luktum dyrum og mikil leynd ríkt yfir því. Þetta er í fyrsta sinn sem að valið fer fram fyrir opnum dyrum og var öllum ríkjum boðið að tilnefna frambjóðanda. Allsherjarþingið hélt opna fundi í apríl með öllum frambjóðendum þar sem þeim gafst færi á að kynna sýn sína á starfið og aðildarríkjum gafst tækifæri til að spyrja þá spurninga.

Þrýstingur frá Austur-Evrópu

Það var mikill þrýstingur frá Austur-Evrópu blokkinni að næsti framkvæmdastjóri kæmi þaðan. Flestir framkvæmdastjórar hafa komið frá Vestur-Evrópu og er Austur-Evrópa eina svæðið sem ekki hefur átt framkvæmdastjóra. Það var einnig mikil pressa á að kona yrði fyrir valinu þar sem að engin kona hefur áður gegnt starfinu. Hvorugt varð þó raunin að þessu sinni og hafði Antonio Guterres betur í öllum sex óformlegu kosningunum í Öryggisráðinu. Þau ríki sem sitja í ráðinu mæla með, mæla gegn eða lýsa engri skoðun á frambjóðendum í þessum óformlegu kosningum og ekki er mælt með frambjóðanda fyrr en að ekkert ríki mælir gegn framboðinu. Því var náð þann 5. október og hlaut Guterres 13 meðmæli og 2 ríki lýstu engri skoðun.

Flóttamannafulltrúi

Antonio Guterres er fæddur 30. apríl 1949 í Lissabon, Portúgal. Hann útskrifaðist með gráðu frá Instituto Superior Técnico tækniskólanum í Lissabon árið 1971 og hóf feril sinn í opinberum störfum árið 1973. Hann gekk í flokk jafnaðarmanna og gegndi ýmsum stöðum innan flokksins, þar á meðal oddvitastöðu. Árið 1991 stofnaði Guterres flóttamannaráð Portúgals. Hann gegndi stöðu forsætisráðherra Portúgals frá 1995-2002 og var flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2005-2015. Talið er að reynsla hans sem flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sé ein helsta ástæða þess að hann hafi nú verið kjörinn sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, enda hafi flóttamenn aldrei verið jafn margir á heimsvísu og er það eitt aðalmál Sameinuðu þjóðanna um þessar mundir. Guterres hefur lýst því yfir að eitt af hans megin stefnumálum sé að setja tímasetta aðgerðaráætlun til að jafna hlutfall kynjanna í æðstu stöðum Sameinuðu þjóðanna og verður spennandi að fylgjast með og þrýsta á að svo verði."  

Fréttabréf Sameinuðu þjóðanna
Guterres: "Sigurvegarinn er trúverðugleiki SÞ"
New U.N. leader sets goals: Humility, empathy, empowering women

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum