Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

Endurfjármögnun IDA á lokametrunum: Rík áhersla Íslands að fátæku ríkin séu ávallt í forgrunni

Ida2IDA er sú stofnun Alþjóðabankans sem vinnur með fátækustu ríkjunum og veitir þeim styrki og lán á hagkvæmum kjörum. Stofnunin er endurfjármögnuð á þriggja ára fresti og eru samningaviðræður vegna 18. endurfjármögnunarinnar nú á lokametrunum, en síðasti samningafundurinn fer fram 14. - 15. desember næstkomandi.

Hefð hefur skapast fyrir því að drögin að lokaskjali samningafulltrúanna sé birt og tekið á móti athugasemdum frá almenningi. Opið var fyrir athugasemdir til 11. nóvember en samantekt samningaviðræðna síðastliðna 9 mánuði er hægt að nálgast hér.

Að sögn Þórarinnu Söebech leiðandi sérfræðings á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins er á 18. endurfjármögnunartímabilinu gert ráð fyrir nokkuð svipuðum áherslum og á því 17. en lögð verður áhersla á fimm málaflokka: loftslagsbreytingar, jafnrétti kynjanna, atvinnumál og hagþróun, stjórnsýslu og stofnanir auk óstöðugra ríkja. "Hvað fjármögnunina áhrærir er þó gert ráð fyrir sögulegum breytingum, enda hafa meiriháttar breytingar átt sér stað á umliðnum árum hvað varðar þörf á fjármagni, markmið sem sett hafa verið á alþjóðavettvangi og framboð af opinberri þróunaraðstoð," segir hún.

"Frá upphafi hefur IDA verið fjármögnuð með framlögum gjafaríkja í formi styrkja og endurgreiðslum af útistandandi lánum auk millifærslna frá öðrum stofnunum bankans (IBRD og IFC). Þar sem ljóst þykir að fjármagnið sem þörf er á verður ekki sótt eingöngu til þessara gátta er í 18. endurfjármögnunni að finna tillögur um sögulegar breytingar á fjármögnun stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir svipuðum framlögum frá gjafaríkjum í IDA18 og IDA17, en til þess að auka vogarafl sjóða stofnunarinnar hefji stofnunin útgáfu skuldabréfa á almennum markaði og fjölgi lánum með hærri vexti sem veitt eru til burðugri ríkja innan IDA. Þess ber að geta að stofnunin hefur nýlega hlotið lánshæfiseinkunnina AAA frá matsfyrirtækjunum Standard and Poor´s og Moody´s."

Ætlunin að auka framlög til fátækustu þjóðanna
Þórarinna segir að með auknu fjármagni verði stofnuninni svo gert kleift að takast á við þær áskoranir sem blasa við og uppfylla loforð sem gefin hafa verið í tengslum við Heimsmarkmiðin, enda gert ráð fyrir að í stað þess að einn bandaríkjadalur framlagsríkja verði að tveimur í meðferð stofnunarinnar verði hann að þremur með nýjum fjármögnunaraðferðum. "Með auknu fjármagni er ætlunin að auka framlög til fátækustu þróunarríkjanna, tvöfalda framlög til óstöðugra ríkja, veita fjármagni til þróunarlanda til að takast á við flóttamannavandann og auka framlög til sjóðs vegna hamfara. Þá mun fé verða varið til Alþjóðalánastofnunarinnar (IFC) og Fjölþjóðlegu fjárfestingaábyrgðarstofnunarinnar (MIGA) til að auka þátttöku einkageirans í uppbyggingu í þróunarlöndum og auka þannig fjárfestingu á því sviði í fátækustu löndunum og þeim óstöðugu. Í umræðunni hefur Ísland, líkt og önnur ríki, hrósað IDA, enda hafi stofnunin sýnt bæði frumkvæði og metnað með tillögunum. Á sama tíma þurfi að stíga varlega til jarðar og vera sveigjanleg þegar kemur að framkvæmdinni. Þá sé nauðsynlegt að framkvæma endurmat og gera breytingar ef þörf er á og skoða fjármögnun bankans og dótturstofnana hans á heildstæðan hátt sem allra fyrst. Ísland hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að fátækustu ríkin séu ávallt í forgrunni og aukinn metnaður sé lagður í jafnréttismál og hefur fylgt þessu eftir á öllum fundunum sem fram hafa farið."

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum