Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

Eyðing skóga í Malaví

SkogaeydingSíðustu viku eyddi ég í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví. Tilgangur heimsóknarinnar var að hitta sviðsstjóra þeirra sviða sem samvinnuverkefnin okkar snúa að og ræða við þá um stöðu mála. Þó nokkur vegalengd er á milli höfuðborgarinnar Lilongwe og Mangochi, aksturinn tekur um þrjár klukkustundir en á þeirri keyrslu gefst manni tækifæri á að sjá mikið af hinu fjölbreytta og fallega landslagi Malaví. Allt frá kröppum beygjum upp og niður brött fjöll til beinna og að því er stundum virðist óendanlegra vegakafla á víðum sléttum - margt grípur augað og manni þarf ekki að leiðast ferðalagið. Það er þó þannig, því miður, að náttúran lætur alvarlega á sjá vegna mikillar skógaeyðingar í landinu.   Eyðing skóga er alvarlegt vandamál, ekki bara í Malaví heldur í heiminum öllum. Tréin eru okkur lífsnauðsynleg, ekki einungis framleiða þau súrefnið okkar heldur geta þau hjálpað til við að milda loftslagsbreytingar með því að draga í sig og geyma koltvíoxíð sem annars færi út í andrúmsloftið. Tré gegna einnig því hlutverki að binda jarðveginn þannig að minni hætta er á t.d. flóðum og aurskriðum. Ekki má gleyma því heldur að skógar og tréin sjálf eru heimili og "vinnustaðir" óteljandi dýrategunda og eru þau því mikilvæg fyrir afkomu fjölbreyttrar flóru dýraríkisins. Því meira sem tré eru höggvin til að nýta sem eldsneyti eða til að rýma fyrir landbúnaði t.d., því meiri áhrif hefur það á framtíð jarðarinnar okkar og framtíð þeirra sem hana byggja.   

Skógaeyðing er mikil í Malaví og nokkuð hröð. Viður og viðarkol eru afar mikið notuð, t.d. við eldamennsku en stór hluti heimila í Malaví notar enn hefðbundna eldunaraðstöðu búna til úr steinum yfir eldi. Viðurinn og kolin eru einnig notuð til að brenna múrsteina sem eru aðal byggingarefnið í Malaví. Tréin eru svo höggvin og brennd til að búa til land fyrir ræktun og það skilur jarðveginn eftir viðkvæman og næringarlausan. Öll þessi eyðing hefur orðið til þess að landið er nú enn viðkvæmara, t.d. fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Í byrjun árs 2015 urðu svakaleg flóð í suðurhéruðum landsins og hluti af ástæðunni fyrir því að þau urðu jafn alvarleg og raun bar vitni var að rótarlaus jarðvegurinn var óbundinn og viðkvæmur fyrir þungri rigningunni.   Malavar eru háðir trjánum á svo margan hátt en lítið er um áætlanir til að koma í veg fyrir eyðingu skóga né til að efla skógrækt. Sala á viðarkolum er bönnuð í Malaví og hefur verið síðan landið öðlaðist sjálfstæði en því banni er lítið fylgt eftir og eitt af því sem algengt er að sjá á ferðalaginu milli Lilongwe og Mangochi er fólk í vegaköntum að selja kol. Kolasalan, þrátt fyrir að vera bönnuð, er stór iðnaður og sér mörgum heimilum fyrir lífsnauðsynlegri innkomu.   Þetta er risavaxið vandamál og á sér margar víddir sem mikilvægt er að taka tillit til þegar lausna er leitað. Hröð fólksfjölgun og hraðar breytingar á loftslaginu gera vandamálið enn meira aðkallandi og erfitt er að sjá fyrir hvað verður ef ekki verður á þessu tekið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum