Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

Fiskur á disk landsmanna! Markmið tilapíufiskeldis í Mósambík með stuðningi Íslands og Noregs

MoztilapiaÞann 27. september síðastliðinn héldum við í sendiráði Íslands í Maputo í eftirlitsferð til Gaza fylkis, nánar tiltekið til Chokwe héraðs, til að fylgja eftir framvindu framkvæmda og uppbyggingar rannsóknar- og fiskeldisstöðvarinnar, CEPAQ, verkefnis sem Ísland styður ásamt Noregi í fiskimálum í Mósambík. Ferðin var farin með aðilum úr norska sendiráðinu ásamt ráðgjöfum frá CDCF (e. Centre for Development Cooperation in Fisheries), Norges Vel og Norad (e. Norwegian Agency for Development Cooperation) frá Noregi. Rannsóknar- og fiskeldisstöðin er tilbúin til afhendingar svo tilgangur ferðarinnar var að skoða aðstæður og kynnast því hvað verður gert á næstu misserum. Við fengum leiðsögn um ræktunarsvæðið og kíktum inn í sjálfa rannsóknarstöðina, og hlustuðum á kynningu um áætlun ræktunarinnar. Einnig heimsóttum við bónda sem rekur fyrirtækið Papa Pesca, sem upphaflega var ætlað til fiskeldis en eins og stendur er þar kjúklingaræktun, á landsvæði nálægt sem kallast "terra morta" eða dauða jörðin. Það landsvæði er talið hafa mikla möguleika fyrir þróun fiskeldis, en landið er ekki gott sem ræktunarland þar sem jarðvegurinn er saltur. Áætlað er að tilapíuræktunin verði á sex hektara landsvæði.   CEPAQ stöðin hefur verið kölluð "climate smart facility" þar sem hún er hönnuð með tilliti til loftslags- og umhverfis-aðstæðna.

Upplýsingar frá veðurstofunni í Chokwe voru greindar áður en stöðin var hönnuð og þróuð, og má til dæmis sjá pumpu, stíflu og vara orkugjafa ef ske kynni að rafmagn fari af vegna flóða eða annara áhættuþátta.    Upphaf CEPAQ má rekja til ársins 2012 þegar ráðgjafar hjá CDCF voru beðnir um að gera úttekt á yfirstandandi verkefnum skipulögðum undir Áætlun fiskimálaráðuneytisins (e. Fisheries Master Plan). Á þessum tíma voru þrjú rannsóknar- og fiskeldis/þróunar-setur (R&D centres) hluti af Áætluninni, eitt í Marracuene og tvö í Gaza. Rannsóknar- og fiskeldisstöð í Gaza, sú sem núna er CEPAQ, var komin lengst á veg hvað framkvæmd varðar en það vantaði þó ýmislegt upp á. CDCF var því beðið um að aðstoða fiskimálaráðuneytið við að þróa nýtt plan fyrir CEPAQ og skilgreina hlutverk þess í þróun fiskeldis til skamms og lengri tíma litið. Með hliðsjón af úttekt CDCF var ný áætlun gerð fyrir CEPAQ stöðina. Nýja áætlunin lagði til að aðeins verði ræktuð tilapía á ræktunarstöðinni en ekki margar tegundir í einu þar sem mikill skortur var á mannauð, þekkingu og reynslu, auk þess sem að stafaði mikið óöryggi af því að rækta fleiri en eina fiskitegund í sömu stöðinni. Hugsunin var sú að það þarf að byrja að læra að ganga áður en farið væri að hlaupa, það er, að ætla sér ekki of mikið í einu.

Fiskur og næring   

Ræktun og þróun fiskeldis er eitt af forgangsatriðum fiskimálaráðuneytisins og er samkvæmt mósambískum stjórnvöldum mikilvægur liður í að efla heilbrigði landsmanna þar sem mikil næring fæst með því að leggja sér fisk til munns.   Tíu milljón seiði er nóg til að framleiða þrjú til fimm þúsund tonn af tilapíu. Í öðrum orðum er það fimmtán sinnum meira en árleg framleiðsla í öllu landinu er núna. Þannig að framleiðslan sem nú er í bígerð á eftir að hleypa tilapíu framleiðslu af stokkunum á "terra morta" svæðinu í Chokwe.   CEPAQ er ætlað að vera "three-in-one"[1] aðstaða sem hefur að minnsta kosti 50 ára líftíma ef það verður almennilegt viðhald á stöðinni. Í grundvallaratriðum er enginn hátæknibúnaður til staðar og flestur tækjabúnaðurinn er keyptur á staðnum með staðbundinni þjónustu og ábyrgu fyrirkomulagi - sem er liður í að þróa samfélagið í kringum stöðina.  

Tegundirnar af tilapíu sem verða ræktaðar eru Mossambicanus og Niloticus. Ástæðan fyrir því er að sérstök áhersla verður lögð á ræktun Mossambicanus er sú að hún er innfædd (staðbundin) tegund í Mósambík svo ræktunarskilyrðin eru góð, hún hefur mikið salt þol og það er markaður fyrir hana bæði innanlands og í nágrannalöndunum. Mossambicanus finnst villt á tveimur stöðum í Inhambane fylki - í Govuro ánni og Ximite vatni í Vilankulo, í Gaza fylki, í Bilene vatni sem er ekki svo langt frá Chokwe, og svo í Maputo fylki, í Pandejne vatni, Catuane ánni. Eins á svæðum norðan Zambéziu árinnar, en sökum pólitísks ástands í landinu verður byrjað að safna villtum fiski í suðurhluta landsins.  

Mökunarferlið á Mossambicanus verður í lotum þ.e.a.s. þrjár samsetningar verða í hverri lotu og tíu fjölskyldur í hverri samsetningu. Það eru 50 seiði í hverri fjölskyldu. Seiðin eru valin eftir frammistöðu og út frá DNA og merkinga (e. PIT tags). Reynt er að varast innrækt eða skyldraæxlun. Markmiðið er að fá góðan grunnstofn með erfðafræðilega fjölbreytni og til að fá fram góða og söluvæna vöru/stofn. Ef þörf er á væri einnig hægt að framleiða seiði sem væru síðan dreifð út til gróðrastöðva/fiskræktenda. Slík seiði er auðveldlega hægt að flytja á milli langar vegalengdir í bíl, rútu eða flugvél. Það er aðeins spurning um þjálfun og stjórnun á CEPAQ.   Helstu verkefni og deildir innan CEPAQ stöðvarinnar eru; genastyrking (e. genetic enhancement), ræktunarmarkmið (e. breeding objectives), og fiskeldisstöð (e. hatchery) sem krefst starfsfólks allan sólarhringinn til að framleiða kynbreytt hágæða seiði, auk ræktunarstöðvar (e. grow-out area) þar sem verður aðstaða til þjálfunar bænda og prófunar á aðferðum sem og rannsóknaraðstaða fyrir nemendur, flóðavarnir, og lífvarnir (e. biosecurity). Stöðin er hönnuð með það í huga að allar deildir starfa sjálfstætt og það eru háar öryggis lífvarnir svo ekki sé hætta á að smit berist milli deilda.  

Tæknilega er stöðin einföld þar sem að hún var hönnuð út frá tækni sem hefur sýnt árangur í marga áratugi aðallega í Asíu. Áherslan hefur því verið á að þróa sterkbyggt kerfi sem nýtist í Afríku og sérstaklega fyrir mósambískar aðstæður.  

Sjálfstæð stofnun?

Það er einhljóma álit fiskimálaráðuneytisins og samstarfsaðilanna að CEPAQ eigi að vera sjálfstæð stofnun sem sér um eigið starfsfólk og sjái til þess að einhver standi vaktina allan sólarhringinn í fiskeldinu. Aftur á móti samþykkti fjármálaráðuneyti Mósambíkur ekki CEPAQ sem sjálfstæða stofnun og þar af leiðandi hefur starfsemin ekki farið af stað samkvæmt áætlun. Upphaflega var CEPAQ ætlað að framleiða sex milljón seiði árið 2015 og svo 30 milljón árið 2017. Fjármálaráðuneytið hefur verið að taka fiskimálaráðuneytið í gegn sem hefur í för með sér fækkanir á sjálfstæðum stofnunum og fékk CEPAQ að gjalda þess. Núna hefur CEPAQ einhverskonar sjálfræði en það þarf að skila skýrslum og þess háttar til yfirmanna sem þýðir að stjórnunin og ákvarðanir fara í gegnum fleiri stig sem eykur skrifræði og hægir á framleiðsluferlinu. Ákveðið hefur verið að bjóða rekstur CEPAQ út til einkaaðila til að koma seiðaframleiðslunni af stað, en stöðin mun þurfa fjárstuðning næstu fimm til tíu árin ef vel á að takast að þróa tílapíu iðnað í Mósambík.  

Stefna stjórnvalda er að einbeita sér algjörlega að tilapíu rækt fyrir framtíðina. Unnið er að gerð aðgerðaráætlunar fyrir fiskeldi og að því að gera lagarammann aðlaðandi fyrir fjárfesta úr einkageiranum. Mósambísk stjórnvöld munu þróa "terra morta" svæðið enn frekar þar sem það er talið að um mikla möguleika sé að ræða fyrir þróun fiskeldis fyrir bændur, eða svokallaða "aquaparks". Hlutirnir eru því loksins farnir að þokast í rétta átt eftir þó nokkuð langa biðstöðu sem stafaði meðal annars af endurskipulagningu í fiskimálaráðuneytinu.  


[1] "Three-in-one" aðstaða þýðir að CEPAQ er "climate smart", "bio-secure", og "robust facility", byggt til að endast í 50 ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum