Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

Hvers vegna hætta úgandskir unglingar námi?

UgandaklfAðeins níu af hverjum hundrað nemendum í Úganda ljúka framhaldsskóla. Hinir flosna úr námi. En hvaða ástæður gefa fyrrum nemendur fyrir brottfallinu? Í lok síðasta mánaðar hélt ég til fjögurra samstarfsskóla í Buikwe héraði. Markmiðið var að ræða við nemendur sem höfðu hætt námi á aldrinum 13 -18 ára, sem telst framhaldsskólaaldur í Úganda. Viðmælendur voru 76 talsins, hver með sína sögu af brotinni skólagöngu.   Skólagjöld voru sá þáttur sem nemendur nefndu oftast; ríflega 76 prósent aðspurðra hættu vegna fjárhagserfiðleika. Þar er ekki um eiginleg skólagjöld að ræða - en þau eru ekki til staðar í opinberum skólum í Úganda - heldur ýmsan kostnað á borð við skólabúninga, mat, bækur o.fl. sem flestar fjölskyldur hafa einfaldlega ekki efni á.

Eitt af verkefnum sendiráðsins er að lækka þessi skólagjöld í samstarfsskólunum með ýmsum sjálfbærum leiðum og er því von á að þetta breytist á komandi árum.   Að skólagjöldum undanskildum er ljóst að það eru fleiri áhrifaþættir á brottfall stúlkna heldur en drengja og eru afleiðingarnar oft meiri fyrir þær. Af þeim 36 drengjum sem ég talaði við höfðu 86 prósent hætt skólagöngu vegna skólagjalda og hafði brottfallið leitt til þess að 8 þeirra eignuðust börn. Af þeim 40 stúlkum sem ég talaði við höfðu 70 prósent þurft að hætta vegna skólagjalda, 6 þurftu að hætta vegna þess að þær urðu ófrískar og 5 hættu vegna annarra gjalda. Helmingur stúlknanna höfðu eignast barn fyrir 18 ára aldur og 9 þeirra voru þegar í hjónabandi.   

Það sem kom mér mest á óvart voru þessar 5 stúlkur sem sögðust hafa þurft að hætta vegna annarra gjalda. Þegar ég spurði nánar út í hver þau gjöld væru kom í ljós að þau eru kostnaður í tengslum við blæðingar.   Talið er að ein af hverjum 10 stúlkum í Afríku sunnan Sahara missi úr eða hætti í skóla vegna blæðinga. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á skólastúlkum í Úganda kom í ljós að þær missa að meðaltali af 24 skóladögum á ári, eða um 11 prósent af skólaárinu, vegna blæðinga. Þá kom í ljós í áðurnefndri rannsókn - nokkuð sem ég greindi einnig hjá mínum viðmælendum - að það tíðkaðist að ungar stúlkur skiptu á kynlífi fyrir dömubindi eða giftust til að eiginmaðurinn gæti séð þeim fyrir dömubindum, í sumum tilfellum að frumkvæði foreldra þeirra.  

Helsta ástæða þess að stúlkurnar missa úr eða hætta í skóla vegna blæðinga er skortur á aðgengi að hreinlætisvörum sem tengjast blæðingum. Í dreifbýlum Úganda er langt að fara í næstu matvörubúð til að kaupa viðeigandi hreinlætisvörur og þar kostar pakki af dömubindum um 150 íslenskar krónur, sem getur hreinlega verið of mikið fyrir bændur sem hafa lítið á milli handanna. Það er því ekki óalgengt að stúlkur bjargi sér með því að nota einhverskonar efnisbúta, sem geta valdið miklum sýkingum. Þar að auki er efnisbúturinn ekki alltaf nóg til að koma stúlkunum í gegnum daginn og búa þær því við þann stöðuga ótta að blóðblettur myndist í fötunum þeirra í skólanum með tilheyrandi niðurlægingu vegna þess hversu mikið tabú blæðingarnar eru.  

Önnur ástæða þess að stúlkurnar geta ekki mætt í skólann á meðan blæðingum stendur er skortur á salernisaðstæðum til að þvo sér almennilega, skipta um dömubindi eða skola efnisbútinn sem er notaður. Þetta er eitthvað sem sendiráðið hefur verið að vinna að með því að láta reisa kynjaskipt salerni, útbúin rými fyrir stúlkur til að sinna þessum þörfum. Nú þegar er búið að reisa nokkur slík rými og fleiri á teikniborðinu.   Það er því ljóst að áhugaleysi er ekki eingöngu um að kenna þegar kemur að fámennum útskriftarárgöngum í Buikwe héraði.

Sendiráð Íslands hefur þannig einbeitt sér að áhrifaþáttum á borð við skólagjöld og bættri salernisaðstöðu til þess að jafna tækifæri barna og unglinga í héraðinu til menntunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum