Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

UNICEF: Allt kapp lagt á að ná til vannærðra barna í Vestur- og Mið-Afríku

Ekki horfa... hjálpaðu! Allt kapp er nú lagt á að koma í veg fyrir frekari hörmungar í Vestur- og Mið-Afríku þar sem hálf milljón barna er í lífshættu vegna vannæringar. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur stóraukið aðgerðir sínar og er með mikinn viðbúnað á svæðinu.

UNICEF á Íslandi hóf á mánudag neyðarsöfnun vegna ástandsins í Nígeríu og nágrannaríkjunum. Viðbrögðin voru afar sterk og mörg þúsund manns studdu söfnunina strax í gær, að því er segir í frétt frá samtökunum. Ástandið er grafalvarlegt en í norðausturhluta Nígeríu látast fleiri en 200 börn á dag vegna vannæringar og með réttri meðhöndlun má koma í veg fyrir 99% dauðsfallanna.

Eitt sms jafngildir sem dæmi vikulangri meðferð fyrir vannært barn. Hægt er að styrkja söfnunina með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr).

65.000 manns svelta
Tölur frá Borno-héraði í norðausturhluta Nígeríu benda til þess að ástandið jaðri við hungursneyð á ákveðnum svæðum. Borno-hérað er á stærð við Ísland og um það bil 65.000 manns búa þar við aðstæður sem svipa til hungursneyðar, þótt hungursneyð hafi ekki verið formlega lýst þar yfir. Það þýðir að fjöldi manns er í raunverulegri hættu á að deyja vegna matarskorts - nokkuð sem sjaldan sést í heiminum. Til að hungursneyð sé formlega lýst yfir þurfa til dæmis tveir fullorðnir eða fjögur börn á hverja 10.000 íbúa að deyja á dag og 20% fólks að líða mjög alvarlegan matarskort.

Börn á aldrinum 6 mánaða til 5 ára eru í mestri hættu. Þar af eru börn 6 mánaða til 2 ára viðkvæmust og fyrst til að láta lífið. Barn sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu er margfalt líklegra til að deyja af völdum sjúkdóma en önnur börn sem veikjast, til dæmis af malaríu, lungnabólgu og niðurgangspestum.

Ótrúlegur árangur UNICEF leggur nú allt kapp á að ná til barna sem þjást af vannæringu. "Með þremur pökkum á dag af vítamínbættu jarðhnetumauki, ásamt saltupplausnum og lyfjum ef þess þarf - ná flest börn sér á einungis fáeinum vikum. Það er magnað að sjá árangurinn," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
"Tíminn er hins vegar naumur og við verðum að bregðast hratt við. Við heyrum í gegnum samstarfsfólk okkar á vettvangi af dauðsföllum þar sem börn hafa hreinlega soltið til dauða. Nauðsynlegt er að fara hús úr húsi til að finna börn og koma þeim í meðferð. Sem betur fer eru 15.000 sjálfboðaliða á svæðinu með okkur í þessu."

Hægt er að styrkja neyðarhjálp UNICEF með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950). 


Vannærð börn í lífshættu/ UNICEF
Ekki horfa, eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur/ Fréttablaðið


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum