Hoppa yfir valmynd
16.11. 2016

Verst setti þjóðfélagshópurinn í Úganda að mati fulltrúa kirkjunnar

Ungt fólk í fátækrahverfum stórborga Utanríkisráðuneytið veitti fyrir nokkru Hjálparstarfi kirkjunnar tæplega 40 milljóna króna styrk til að styðja við bakið á ungu fólki í fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda, en verkefnið nær til þriggja ára og hefst í ársbyrjun 2017. Hvergi er fátækt jafn bersýnileg og í skítugum óskipulögðum hverfum stórborga eins og í Kampala - og samt er ljótasti hluti hennar ósýnilegur: unga fólkið sem ánetjast fíkniefnum, vændi og glæpastarfsemi.

Ný Disney kvikmynd er sprottin uppúr þessum jarðvegi: myndin um skákdrottninguna frá Katwe, þessu fátækrahverfi í Kampala, sagan af Phionu Mutesi,ungri stúlku sem ólst upp við aðstæður sem þessar og reyndist búa yfir miklum skákhæfileikum. Margir vænta þess að vinsældir myndarinnar leiði til þess að fátækrahverfi stórborga fái meiri athygli og sett verði meira fjármagn í verkefni til að bæta lífskjör íbúanna.     

Verkefnið verður unnið í þremur fátækrahverfum Kampala og umsjón verður í höndum samtakanna Uganda Youth Development Link.

Í meðfylgjandi myndbandi segir Paul Onyait á skrifstofu Lútherska heimssambandsins í Kampala að líkast til sé unga fólkið í fátækrahverfunum verst staddi þjóðfélagshópurinn í öllu landinu. Hann segir ungmennin upp til hópa ómenntuð, flest hafi þau sjálfsagt reynt fyrir sér í skóla annað hvort í Kampala eða í sveitaþorpum, en í þessu umhverfi sé enga atvinnu að hafa nema fyrir þá sem kunni eitthvað fyrir sér; aðeins þeir geti séð fyrir sér með því að bjóða fram starfskrafta sína og þekkingu. Komi ungmennin í fátækrahverfin án nokkurrar menntunar séu þau ákaflega varnarlaus og auðveld bráð fyrir þá sem vilja nýta sér bágindi þeirra. Þau ánetjist auðveldlega eiturlyfjum, vændi og glæpum - og því séu þau miklu berskjaldaðri en ungmenni í sveitaþorpum.

Samtökin UYDEL sem koma til með að hafa umsjón með verkefninu hafa rúmlega tuttugu ára reynslu af því að vinna með ungu fólki í fátækrahverfum Kampala. Samtökin reka verkmenntabúðir þar sem unglingarnir geta valið sér ýmiss konar svið til að öðlast nægilega hæfni til að vera gjaldgeng á vinnumarkaði, eins og hárgreiðslu, matreiðslu, rafvirkjun, skapandi listir og fleira. Diana Namwanje félagsráðgjafi lýsir því að ungmennin fái gegnum samtökin starfsnemastöður sem oft leiði til atvinnutækifæra. Linda Samúel ungmennaleiðtogi segir krakkana lenda auðveldlega í misnotkun af ýmsu tagi, margir komi til höfuðborgarinnar úr sveitunum með miklar væntingar en veruleikinn sé allt annar og verri.
Eins og nærri má geta er fótbolti vinsæl íþrótt meðal unga fólksins í fátækrahverfunum og þar mátti sjá ungan mann í rauðum íþróttabúningi merktum Gudjohnsen og tölustöfunum 22; það gladdi okkur Íslendingana.

Paul Onyait segir verkefnið ná til þriggja hverfa í Kampala og ætlunin sé að valdefling nái til 1500 ungmenna - 500 í hverju hverfi - með áherslu á starfsþjálfun. Markhópurinn er á aldrinum 12 til 24 ára. Um 77% íbúa Úganda eru yngri en þrjátíu ára, atvinnuleysi er mikið í hópi ungs fólks eða yfir 60% - og meira meðal stúlkna en pilta. Af þeim 1500 ungmennum sem koma til með að fá sérstakan stuðning í verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar verða kynjahlutföllin þau að stelpur verða 60% en strákar 40%.

Í myndbandinu reka tvær stúlkur sögu sína og ástæður þess að þær höfnuðu í fátækrahverfi Kampala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum