Hoppa yfir valmynd
23.11. 2016

85 milljónum króna úthlutað til borgarasamtaka vegna mannúðarverkefna

SsudanUtanríkisráðuneytið hefur úthlutað 85 milljónum króna til íslenskra borgarasamtaka vegna mannúðaraðstoðar. Mannúðaraðstoð felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta og annarrar aðstoðar sem auðveldar afturhvarf til eðlilegs lífs í kjölfar hamfara. Hana ber ætíð að veita með ábyrgum og samhæfðum hætti samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og grundvallarreglum um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi og sjálfstæði.

Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mannúðaraðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring. Þrettán umsóknir bárust að þessu sinni um styrki til mannúðarverkefna frá fimm borgarasamtökum að heildarupphæð rúmlega 183 milljónum króna. Úthlutunin nær til fimm verkefna, þrjú til aðstoðar flóttafólks, eitt vegna stríðsátaka í Sýrlandi og eitt vegna náttúruhamfara á Haítí eins og sjá má í eftirfarandi yfirliti um styrkina.

  • 20 milljónir - Hjálparstarf kirkjunnar vegna mannúðaraðstoðar í kjölfar fellibylsins Matthíasar á Haítí.
  • 20 milljónir - Rauði krossinn á Íslandi vegna stuðnings við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda.
  • 20 milljónir - Rauði krossinn á Íslandi vegna björgunar flóttafólks og farenda á Miðjarðarhafi.
  • 15 milljónir - SOS Barnaþorpin á Íslandi vegna neyðaraðstoðar í Sýrlandi.
  • 10 milljónir - Hjálparstarf kirkjunnar vegna neyðaraðastoðar við flóttafólk frá Suður-Súdan í Úganda.

Nánari upplýsingar um samstarf utanríkisráðuneytisins við borgarasamtök á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, þ. á m. verklagsreglur, stefnumið og umsóknareyðublöð, má finna á vef alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands (ICEIDA).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum