Hoppa yfir valmynd
23.11. 2016

Allt gert til að koma í veg fyrir mænusóttarfaraldur í Nígeríu

BolusetningUmfangsmikið bólusetningarátak gegn mænusótt stendur nú yfir í Nígeríu eftir að þrjú tilvik af veikinni greindust í norðausturhluta landsins þar sem mörg hundruð þúsund börn er í lífshættu vegna vannæringar. Yfir 40 milljón börn verða bólusett til að hindra að mænusóttarfaraldur brjótist út, enda hafði ekkert tilfelli komið upp í Afríku í tvö ár þegar þetta gerðist og í sjónmáli er að útrýma þessum skæða sjúkdómi á heimsvísu, segir í frétt frá UNICEF á Íslandi.

Um leið og börnin í Borno-héraði í Nígeríu eru bólusett eru þau skimuð fyrir vannæringu og vísað í meðferð við henni ef þörf krefur. Í gegnum bólusetningarátakið er þannig hægt að ná til barna sem eru vannærð og veita þeim hjálp.  

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna vannærðra barna í Nígeríu og nágrannaríkjunum er enn í fullum gangi og hægt er að styrkja hana með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1.000 kr). Einnig er hægt að styrkja neyðarsöfnunina hér eða með því að leggja inn á neyðarreikninginn: 701-26-102050 (kt. 481203-2950).  

Ómetanlegur stuðningur  

Yfir 12 milljónir króna hafa safnast í neyðarsöfnuninni hér á landi."Mörg þúsund manns hafa stutt söfnunina og það er okkur mjög mikilvægt að finna þennan mikla stuðning. Þetta er ómetanlegt, enda er neyðin á svæðinu gríðarleg og þörf á að stórauka aðgerðir UNICEF. Í húfi eru raunveruleg líf, raunveruleg börn og raunverulegur möguleiki á að koma í veg fyrir að þau láti lífið," segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Síðastliðna mánuði hafa 131.349 börn fengið meðferð gegn vannæringu í norðausturhluta Nígeríu, þar sem ástandið er verst. Auk þess hafa börn annars staðar í landinu fengið hjálp, sem og í nágrannaríkjunum.   Árangri í baráttu við mænusótt ógnað   Mænusóttartilfellin sem upp komu nýverið bætast ofan á einstaklega erfiða stöðu á svæðinu. Sums staðar í Borno-héraði í Nígeríu eru allt að 15% barna alvarlega bráðavannærð.   Þar sem margir flóttamenn eru á ferð yfir landamærin er hætta á að mænusótt breiðist út til nágrannaríkjanna og því mikilvægt að hafa hraðar hendur á til að hemja útbreiðslu veikinnar. Bólusetningarnar fara af þessum einnig fram í Níger, Tsjad, Kamerún og Mið-Afríkulýðveldinu.

 "Við gerum allt sem við getum ásamt samstarfsaðilum okkar til að koma í veg fyrir að veikin breiðist út. Umfang viðbragðanna sýnir alvarleika aðstæðnanna," segir Bergsteinn Jónsson.   Gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni gegn mænusótt á heimsvísu og Nígería er eina landið í Afríku þar sem ekki hefur tekist að útrýma sjúkdómnum. Ríki er talið laust við hann þegar engin tilfelli hafa greinst þar í þrjú ár. Í Nígeríu hafði náðst tímamótaárangur og ekki orðið vart við mænusótt í tvö ár þegar tilfellin þrjú komu upp í norðausturhluta landsins. Mikið kappsmál er því að hindra frekari útbreiðslu sjúkdómsins, samhliða því að meðhöndla börn gegn vannæringu.  

Nánari upplýsingar um ástandið í Nígeríu
Kynslóð barna hefur horfið, dáið/ Mbl.is
Boko Haram's forgotten victims return to a humanitarian disaster/ TheGuardian


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum