Hoppa yfir valmynd
23.11. 2016

Ferðalag um Mósambík - vatn, klósett og skólar

Mariaerla3Heyrt í bíltúr um sveitir Mósambíkur: "Fyrir mig er mjög skrýtið að hugsa til þess að geta ekki fengið mér vatnsglas hvar og hvenær sem ég vil og farið svo á klósettið að pissa þegar ég hef drukkið of mörg. Ég tala nú ekki um þegar maður er þreyttur í skólanum og tekur nokkrar pissupásur til að komast út úr tíma og jafnvel fylla á vatnsflöskuna. Það er þó aftur á móti raunveruleikinn á mörgum stöðum í heiminum að börn og fullorðnir líða skort á vatni og viðunandi salernisaðstöðu með tilheyrandi hreinlætisvandamálum." Þeir sem í bílnum sátu, og voru búnir að heimsækja nokkur mósambísk samfélög þegar þetta var, gátu ekki annað en kinkað kolli. 

Í byrjun nóvember sótti María Erla Marelsdóttir Mósambík heim. María Erla er skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og er m.a. sendiherra Íslands í samstarfslöndunum þremur í Afríku, þeim Malaví, Úganda og Mósambík. Sem sendiherra heimsækir hún þessi lönd reglulega. Nú var röðin sem sagt komin að Mósambík.   Í Mósambík fundaði hún með ýmsum, t.d. öðrum sendiherrum Norðurlanda í landinu, nokkrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og einnig átti hún fund í mósambíska utanríkisráðuneytinu. En meginástæða heimsóknarinnar var þó að skoða vatns- og salernisverkefni sem Ísland styður í fimm héruðum í Sambesíu-fylki í norðanverðri Mósambík. Um 25% barna í Mósambík búa í þessu fylki en þrátt fyrir það er fylkið eitt það vanþróaðasta í landinu þegar kemur að velferð barna.  

Heilbrigði og hagsæld
Verkefnið hófst í byrjun árs 2014 og lýkur því í árslok 2017. Megintilgangur þess er að bæta aðgang barna að hreinu vatni og með því bæta heilbrigði, menntun og hagsæld í dreifbýli í Sambesíu-fylki. Mikilvægur þáttur verkefnisins er að gera íbúana meðvitaða um mikilvægi hreinlætis. Á verkefnistímanum verður vatns- og salernisaðstaða bætt í 40 dreifbýlisskólum og hjá samfélögum í kringum þessa skóla. Allt í allt er gert ráð fyrir að 14.000 nemendur njóti góðs af verkefninu og að 48.000 manns hafi betri aðgang að hreinu vatni en áður. Einnig er áætlað að 300.000 manns öðlist aðgang að salernum.

Mariaerla1Ásamt því að stuðla að hreinlæti og koma þannig í veg fyrir ýmsa sjúkdóma hafa viðunandi salernisaðstaða í skólum og greiður aðgangur að hreinu vatni í þorpum áhrif á mætingu barna og jafnvel kennara í skólann. Mikill tími og líkamlegt álag fylgir því að þurfa að fara langar vegalengdir til að sækja vatn, eitthvað sem leggst aðallega á stúlkur og konur. Einnig hefur sýnt sig að kynjaskipt salerni/kamrahús í skólum eru mikilvæg þegar kemur að mætingu barna, sérstaklega unglingsstúlkna, í skólann.   Verkefnið er unnið í gegnum skrifstofu UNICEF í Mósambík, en UNICEF er með margskonar verkefni sem tengjast börnum í nokkrum fylkjum landsins og eru með skrifstofu í hinni fallegu Quelimane, sem er fylkishöfuðborg Sambesíu. Framkvæmd verkefnisins liggur hjá fylkisyfirvöldum og veitir UNICEF þeim margs konar stuðning til að tryggja að allt sé gert á réttan hátt.  

Fjarlægðir í Mósambík eru miklar. Strandlengja landsins er um 2.700 km að lengd. Til samanburðar má nefna að á Vísindavef Háskóla Íslands er sagt að stysta siglingaleið umhverfis Ísland sé um 1.500 km. Þótt ferðast sé með flugi hluta leiðar tekur nær heilan dag að komast frá höfuðborginni Mapútó til Gilé héraðs í Sambesíu-fylki, þar sem heimsækja átti skóla og samfélög sem njóta góðs af verkefninu. En á endanum komst nú sendiherrann, og fylgdarlið, á leiðarenda.

Við, í sendinefndinni, heimsóttum nokkra skóla þar sem búið er að byggja salernisaðstöðu og einnig nokkur þorp þar sem búið er að koma upp vatnsveitum með handdælum. Það var vel tekið á móti okkur og allir virtust hæstánægðir, enda mikil þörf á aðgengi að hreinu vatni og salernisaðstöðu bæði fyrir fólkið í þorpunum og börnin í skólunum. Heimsóknirnar í skólana og þorpin voru mjög áhugaverðar og lærdómsríkar. Mikilvægt er að fara í slíkar eftirlitsferðir til að fylgjast með framvindu mála, bæði til að sjá árangur en einnig til þess að greina hvað betur mætti fara. Til dæmis vantaði sums staðar upp á samskipti milli aðila sem bersýnilega tefur árangur.

Vatnsnefndir sjá um viðhald
Mikilvægt er að efla þátttöku íbúanna sjálfra í hreinlætis- sem og menntamálum. Í þorpunum sem eru búin að fá vatnsveitur hafa verið stofnaðar svokallaðar vatnsnefndir sem sjá um viðhald. Fyrirkomulagið er þannig að hver fjölskylda í þorpinu borgar vissa fjárhæð á mánuði til nefndarinnar og gjaldkerinn heldur utan um peninginn. Peningurinn er svo til dæmis nýttur í að byggja girðingu utan um vatnsveituna/dæluna til þess að verja hana fyrir ágangi geita og barna að leik. Íbúarnir voru almennt ánægðir með vatnsveituna og töldu upp margar ástæður fyrir mikilvægi þess að hafa aðgang að hreinu vatni nær heimilinu sínu.  

Of fáar kennslukonur
Einn liður verkefnisins er að stuðla að menntun barna. Þrátt fyrir athyglisverðan árangur í aukningu barna í grunnskóla lýkur aðeins helmingur þeirra náminu. Margir detta út á fyrstu fimm árunum, fleiri stelpur en strákar. Ástæðurnar eru ýmsar, til dæmis fátækt, en einnig félags- og menningarleg gildi eins og það að stúlkur giftast oft og eignast börn ungar. Við ræddum það einnig að nauðsynlegt er að stúlkur hafi fyrirmyndir í náminu, en miklu fleiri karlar en konur eru kennarar. Það er því nauðsynlegt að auka hlutfall kvenkyns kennara við skólana. Ástæðan fyrir brottfalli ungra drengja úr námi er oft sú að þeir hætta að mæta í skólann til þess að leita að dýrmætum steinum til að selja, en mikið af gimsteinum er að finna í Gilé. Þeir eru jafnvel sendir af foreldrum sínum til að afla smá auka tekna svo það er ekki síður mikilvægt að hamra á mikilvægi menntunar barna við foreldrana.

Við heyrðum dæmi af því að oft gerist það að yngsta barnið er ekki sent í skóla þar sem þau eldri fengu ekki vinnu strax næsta dag og náminu lauk, og sjá foreldrarnir því ekki tilgang í að senda yngsta barnið líka í skóla. Það er aldrei of oft minnst á mikilvægi menntunar og að hún sé grunnurinn að framtíð einstaklinga sem og samfélaga í heild sinni.  

Við dvöl okkar í Gilé var hluti sendinefndarinnar svo heppinn að fá gistingu í nunnuklaustrinu en nunnurnar sem búa þar reka einnig heimavistarskóla fyrir stúlkur, bæði grunn- og framhaldsskóla - eitthvað sem þær sáu mikla þörf á. Það er pláss fyrir 60 stúlkur en aðeins um 45 pláss eru í notkun og vonast nunnurnar til að geta fyllt plássin. Það er meðal annars boðið upp á úrræði fyrir stúlkur sem koma úr fátækari fjölskyldum að fá styrk frá klaustrinu fyrir skólagjöldum svo foreldrarnir þurfa aðeins að greiða fyrir skólabúningana úr eigin vasa. Stúlkurnar koma allstaðar að úr héraðinu og þær sem við spjölluðum við undu sér vel. Þær fá mikilvægt aðhald við námið, aðgang að bókum og aðstoð við heimanám, sem er eitthvað sem ekki er hlaupið að heiman fyrir. Samkvæmt Systur Simu hefur námið í skólanum þeirra sýnt árangur og margar stúlknanna halda áfram námi eftir veru sína hjá nunnunum.  

Heimsóknin var gagnleg. Þarna sáum við íslenskt þróunarfé að störfum og getum við verið stolt af afrakstrinum. Þótt hægt sé að benda á eitt og annað sem þarf að laga og gera betur, þá hefur verkefnið gríðarleg áhrif til hins betra fyrir þá sem verkefnið snertir. Enda er vatn undirstaða alls.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum