Hoppa yfir valmynd
23.11. 2016

Konum í blæðir í Mosul - Neyðarsöfnun UN Women

https://youtu.be/dCYRfK2ZDdU Í ljósi skelfilegs ástands í Mosul efnir UN Women á Íslandi til sms-neyðarsöfnunar fyrir konur á flótta í Írak. UN Women hvetur alla til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konu á flótta sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu og vasaljós.

Yfir 600 þúsund konur og stelpur hafa lent í átökum í Mosul og nágrenni. Þær sárvantar neyðaraðstoð og þeim fer fjölgandi með hverjum deginum, að því er fram kemur í frétt frá UN Women á Íslandi. Þar segir að konur í Mosul og nærliggjandi svæðum hafi verið innilokaðar og einangraðar síðastliðin tvö ár eftir að vígasveitir sem kenna sig við íslamskt ríki náðu borginni yfir á sitt vald. "Þær hafa þurft að þola gróft ofbeldi, verið teknar sem gíslar og kynlífsþrælar og giftar hermönnum vígasveitanna en margar hafa horfið sporlaust. Þær skortir mat og aðrar nauðsynjavörur og flýja nú borgina."

"Konur í Mosul eru í hræðilegri stöðu og eiga ekkert. Þær hafa verið innilokaðar heima hjá sér undanfarin tvö ár og hvorki mátt eiga né nota síma, snjallsíma, internet, horfa á sjónvarp né eiga í samskiptum við umheiminn á nokkurn hátt. Þær hafa verið sviptar lífsviðurværi sínu, reisn sinni og valdi yfir eigin lífi. Neyðin er gríðarleg og nú er mikilvægara en nokkru sinni að að hlúa að þessum hópi. UN Women vinnur að því að veita konum og stúlkum á svæðinu aftur rödd, lífsviðurværi, tilgang og aðstoða þær við að koma undir sig fótunum á ný. Nýlega settum við á fót griðastaði í búðum á Ninewa-svæðinu þar sem konur hljóta vernd og öryggi, áfallahjálp í kjölfar kynferðisofbeldis, sálrænan stuðning en fyrsta skrefið er að veita þeim sæmdarsett með helstu nauðsynjum sem gera konum kleift að halda í virðingu sína. Aftur á móti skortir fjármagn til að geta brugðist við neyðinni og haldið því áfram," segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi sem efnir til neyðarsöfnunar fyrir konur á flótta í Mosul og kring.

Nú um miðjan október réðust íraskar öryggissveitir ásamt hersveitum Kúrda inn í Mosúl með það að markmiði að ná borginni úr höndum vígasveita íslamska ríkisins. Hörð átök geysa í borginni og sem hafa gert það að verkum að íbúar borgarinnar flýja. Fólk hefur flúið meðal annars til Ninewa svæðisins suðaustur af Mosul þar sem unnið er að uppsetningu búða fyrir flóttafólk sem fjölgar óðum. UN Women samhæfir aðgerðir á svæðinu og tryggir að veitt sé kvenmiðuð neyðaraðstoð þar sem tekið er tillit til þarfa kvenna á svæðinu. Konurnar eiga ekkert og sárvantar nauðsynjar. Neyðin í Mosul er gríðarleg og virðist eingöngu vera að aukast.


UN Women hvetur almenning til að senda sms-ið KONUR í 1900 (1490 kr.) og veita konu á flótta sæmdarsett sem inniheldur dömubindi, sápu og vasaljós. #Konumblæðir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum