Hoppa yfir valmynd
23.11. 2016

Þokast áfram í jarðhitaþróun í Austur Afríku

Argeo-c6-3Alls komu um 500 manns frá 40 löndum saman á sjöttu Argeo jarðhitaráðstefnuni, sem haldin var í Addis Ababa, Eþíópíu 1.-5. nóvember. Þátttakendur voru að mestu sérfræðingar á sviði jarðhitarannsókna og nýtingar. Markmiðið var að kynna nýjar rannsóknir og ræða um tækifæri til jarðhitanýtingar í Austur Afríku sigdalnum og skilgreina leiðir til að hraða þróun orku frá jarðhitaauðlindum. Það var UNEP ásamt stjórnvöldum í Eþíópíu sem höfðu veg og vanda að skipulagi ráðstefnunnar.

Lengi hefur verið talað um möguleika jarðhitans í Austur Afríku, en hingað til hefur einungis Kenía náð að virkja með góðum árangri, en þar eru nú yfir 600 MW af ragmagni framleidd með jarðhita. Kenía hefur þar með skipað sér í framvarðarsveit jarðhitanýtingar í heimunum. Væntingar landa hafa hins vegar verið all miklar, og ljóst er að niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar hafa verið á síðustu árum hafa ekki verið í samræmi við þær væntingar. Frá því að fyrsta ARGeo ráðstefnan var haldin árið 2006, hefur hins vegar bæst mikið við þekkingu á eðli jarðhitans í Austur Afríku, og mögulegum svæðum til nýtingar og voru einmitt kynntar niðurstöður fjölda rannsókna á ráðstefnunni. Helst er nú horft til möguleika í austari hluta sigdalsins, varðandi raforkuframleiðslu, landa eins og Eþíópíu, Kenía, Erítreu og Djíbúti, þar sem jarðhitaleit og rannsóknir síðustu ára hafa staðfest að til staðar eru vænleg jarðhitasvæði til raforkunýtingar. Vissar vonir eru einnig bundnar við jarðhita í Tansaníu. 

Jarðhiti er að mörgu leyti tæknilega snúið viðfangsefni, og margir óvissuþættir sem fléttast inn í áætlanir landa og á ráðstefnunni komu saman bæði jarðhitasérfræðingar og fjármögnunaraðilar til að ræða leiðir til að yfirstíga þær hindranir sem virðast vera í vegi frekari framþróun jarðhitanýtingar í álfunni. Verkefni Utanríkisráðuneytisins og Norræna þróunarsjóðsins, hefur miðað að því að aðstoða lönd við að klára fyrstu skref jarðhitarannsókna, og fá úr því skorið hvort að líklegt sé að nýtanlega jarðhita megi finna í viðkomandi löndum. Á þessu stigi er fólgin talsverð áhætta og allt eins líklegt að niðurstöður leiði í ljós að ekki sé til staðar nægjanlegur jarðhiti til frekari þróunar. Í þeim tilfellum sem jákvæðar niðurstöður fást, taka svo við tilraunaboranir þar sem verkefni Alþjóðabankans og Afríkusambandsins og fleiri aðila, taka við keflinu og aðstoða lönd við að taka á og lágmarka þá áhættu sem felst í tilraunaborunum.

Á ráðstefnunni voru einnig kynntar niðurstöður frá vinnufundi um jarðhita í vestari hluta sigdalsins, en þar er ljóst að um mun lægri hita er að ræða og varla virkjanlegan til raforku, og því er nú frekar horft til möguleika þeirra landa að nýta jarðhita með beinum hætti, s.s. við þurrkun matvæla, og mögulega orkuframleiðslu í litlum mæli með tvívökavirkjunum. Enn hefur ekki verið sýnt fram á með beinum hætti hagkvæmni slíkrar nýtingar í Afríku, en verkefni UTN og NDF mun á næstunni, í samvinnu við MATÍS, leggja í þróunarverkefni með jarðhitafyrirtæki ríkisins í Kenía, Geothermal Development Company (GDC), um matvælaþurrkun með jarðhita. Vonir standa til að með því verkefni verði hægt að sýna fram á hagkvæmni slíkrar lausnar í Afríku. Byrjað verður með tilraunir í þurrkun á maís, með vonum um að geta gert tilraunir með fleiri afurðir eftir því sem reynslan gefur tilefni til.

Utanríkisráðuneytið og NDF stóðu, í samvinnu við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, fyrir námskeiði um verkefnastjórnun í jarðhitaverkefnum í tengslum við ráðstefnuna. En nú þegar huga þarf að næstu skrefum í þróun jarðhitans er mikilvægt að sérfræðingar skilji vel ferli í jarðhitaverkefnum, og hvernig bregðast má við óvissu og áhættuþáttum. Leiðbeinendur í námskeiðinu komu bæði frá Íslandi og Kenía, en eitt af markmiðum ráðstefnunnar er einmitt að hvetja til frekara svæðasamstarfs og þess að löndin á svæðinu deili þekkingu sín á milli.

Argeo-c6---women-in-geotherÞá er einnig vert að nefna að á ráðstefnunni var formlega stofnuð Afríkudeild samstaka kvenna í jarðhita (Women in Geothermal), sem eru alþjóðleg samtök sem vilja auka menntun og veg kvenna innan jarðhitageirans. Í tengslum við verkefni sem Jafnréttisskóli SÞ á Íslandi er aðili að, var einnig kvikmyndatökufólk á ráðstefnunni sem vinnur að gerð heimildamyndar um konur í jarðhitageiranum.

Fulltrúar UTN á ráðstefnunni áttu einnig tvíhliðafundi, m.a. með Tanzaníu, Kenía, Djíbútí og UNEP, þar sem fjallað var um samstarf landanna í jarðhitamálum og framgang verkefna.

Efri myndin: Þráinn Friðriksson sérfræðingur í jarðhitamálum hjá Alþjóðabankanum í pallborði á ráðstefnunni.

Neðri myndin: Á ráðstefnunni var formlega stofnuð Afríkudeild samtaka kvenna í jarðhita.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum