Hoppa yfir valmynd
30.11. 2016

Ahlan wa sahlan - Velkomin

AmmanKonungsríkið Jórdanía kúrir í eyðimörkinni og teygir anga sína í átt til nágrannaríkjanna. Landið, sem er tæpir 90 þúsund ferkílómetrar að stærð og er örlítið minna en Ísland, á syðsta hluta sinn að Rauðahafi, vesturhlutinn liggur að Palestínu og Ísrael, norðurhlutinn að Sýrlandi og Írak og austurhlutinn að Sádí Arabíu. Jórdanía er lognið í storminum á þeim ófriðartímum sem ríkja árið 2016 og erfitt að ímynda sér hörmungar nágrannaríkjanna á hversdagslegu vappi um höfuðborgina Amman.

Aðstæður konungsríkisins Jórdaníu eru vissulega athyglisverðar. Í Jórdaníu er stöðugleiki sem er annar en í nágrannaríkjunum. Jórdaníu er stjórnað af konunginum Abduallah II sem tók við af föður sínum Hussein árið 1999. Abduallah II er virtur í ríki sínu sem og í alþjóðasamfélaginu. Þrátt fyrir ríkjandi stöðugleika í Jórdaníu ógna honum átök nágrannaríkjanna og gríðarlegur straumur fólks á flótta.  Í manntali Jórdaníu árið 2015 voru 9,5 milljónir manna en þar af eru einungis 6,6 milljónir með jórdanskt ríkisfang. Af 6,6 milljónum einstaklinga með jórdanskt ríkisfang eru 2,2 milljónir skráðir palestínskir flóttamenn. Jórdanía hýsir 42% af öllum skráðum palestínskum flóttamönnum hjá Flóttamannaaðstoð Sameinuðu Þjóðanna fyrir Palestínumenn (58% í Palestínu, Líbanon og Sýrlandi). Þær 2,9 milljónir manna sem dvelja í Jórdaníu og eru ekki með jórdanskt ríkisfang eru bæði einstaklingar sem eru skráðir hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna en einnig aðrir einstaklingar með erlend ríkisföng. Stærsti hluti þeirra 2,9 milljóna útlendinga sem eru í Jórdaníu eru Sýrlendingar, næstflestir eru Egyptar, svo Palestínubúar (sem ekki eru skráðir sem flóttamenn eða flóttamenn sem komu til Jórdaníu eftir 1967) og Írakar.

Aukin spenna vegna flóttamanna
Mikil aukning á íbúafjölda Jórdaníu á undanförnum árum hefur skapað spennu í landinu bæði efnahagslega og pólitíska. Samkeppni um störf eykst sem og ágangur á náttúruauðlindir landsins. Jórdanía býr ekki að olíuuppsprettum eins og olíuauðug nágrannaríkin. Lengi gátu Jórdanir keypt ódýra olíu frá Írak en viðskiptunum lauk í kjölfar innrásarinnar í Írak árið 2003. Þrátt fyrir næstum 3000 sólskinsstundir á ári (meira en tvöfalt fleiri en á Íslandi) þá nýtir Jórdanía ekki sólarorkuna og landið er háð nágrannaríkjum sínum um aðgengi að orkugjöfum. Á síðustu árum hafa stjórnvöld þó lækkað skatta á vörum tengdum sólarraforku til að hvetja til endurnýjanlegrar orkunýtingar en einnig til að auka sjálfstæði landsins í orkuframleiðslu. Jórdanía er eitt þurrasta land í heimi og lítið er eftir af vatni í vatnsbólum landsins.
PetraMeð auknum fjölda fólks í landinu, eykst samkeppni um atvinnu, sérstaklega á meðal yngri kynslóða. Einn helsti atvinnuvegur Jórdaníu var lengi vel ferðaþjónusta en nú eru helstu ferðamannastaðir Jórdaníu tómir. Hin sögufræga borg Petra sem 3000 ferðamenn heimsóttu daglega, telur daglegar heimsóknir sínar nú í tugum eða hundruðum. Það sama má segja um Wadi Rum, þar sem Arabíu Lawrence fór um í hinni frægu kvikmynd frá 1962.

Leitast við að halda stöðugleika
Stjórnvöld Jórdaníu verja miklu fjármagni í öryggis- og varnarmál landsins enda leitast þau við að halda stöðugleika í landinu, bæði fyrir Jórdaníu og alþjóðasamfélagið. Þrátt fyrir að óöldur nágrannaríkjanna hafi ekki flætt til Jórdaníu þá hafa ýmis atvik skapað ólgu. Menntamálaráðuneytið kynnti nýlega endurskoðaða námskrá sem dregur meðal annars úr trúartilvitnunum og leggur aukna áherslu á skilning á umburðalyndi og fjölbreytileika. Breytingarnar voru gagnrýndar víða um land, bæði á götum úti og á samfélagsmiðlum þar sem bent er á að námskráin stígi frá íslamskri menningu og þjóðararfi. Nýr samningur Jórdaníu við Ísrael um gasinnflutning  varð til þess að mikið var mótmælt sem og þingkosningar í september en líkt og fram hefur komið á stór hluti fólks í Jórdaníu ættir sínar að rekja til Palestínu. Í september var virtur rithöfundur myrtur við dómshúsið í Amman en hann hafði birt teiknimynd af Múhammed spámanni og DEASH liðum á facebook síðu sinni. Morðið olli ugg í Jórdaníu sem og víðar og sjónir alþjóðafjölmiðla beindust að Jórdaníu. Eftir stöðugt flæði fólks frá Sýrlandi til Jórdaníu frá árinu 2011 hefur landamærum Jórdaníu og Sýrlands nú verið lokað eftir að jórdanskir hermenn dóu í sjálfsmorðsárás á landamærunum í júní síðastliðnum.

En dagarnir líða einn af öðrum og hversdagsleikinn hefur yfirhöndina. Með auknum fjölda flóttamanna eykst einnig fjöldi hjálparstarfsmanna og þrátt fyrir gríðarlega fólksfjölgun í landinu er aðkomufólki að mestu tekið með bros á vör. Skilaboð heimamanna eru yfirleitt þau hin sömu: "Velkomin".


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum