Hoppa yfir valmynd
30.11. 2016

Ein milljón flóttamanna frá Suður-Súdan býr í Úganda

https://youtu.be/ZlX4tdWgzXA Allt frá því átök brutust út í Suður-Súdan í desember 2013 hafa íbúarnir, einkum konur og börn, flúið yfir til nágrannaríkja, flestir til Úganda. Ófriðurinn magnaðist í júlí á þessu ári og síðan þá hafa hundruð þúsunda lagt á flótta. Nú er svo komið að ein milljón flóttamanna frá Suður-Súdan hefst við í Úganda.

Ný flóttamannasamfélög rísa í Yumbe héraði, en í Adjumani héraði (sjá myndband) býr flóttafólk sem kom yfir landamærin á síðasta ári eða fyrr. Þótt stjórnvöld og héraðsyfirvöld í Úganda fái hrós fyrir móttöku flóttamanna og velvild í þeirra garð er lífið fjarri því að vera dans á rósum: lífsbaráttan er hörð og flestar kvennanna eru einstæðar mæður með mörg börn. Komið hefur fram að um 85% flóttamanna eru konur og börn.

Með níu börn á framfæri
Achol Anuol kom í Pakele flóttamannabyggðirnar í nóvember fyrir einu ári, hrakin á flótta vegna átakanna með sjö börn - án eiginmannsins. Hún kveðst ekkert vita um afdrif hans, hvort hann sé lífs eða liðinn. Hún segist líka hafa tekið að sér tvö munaðarlaus börn og því séu börnin á hennar framfæri alls níu talsins. - Hún segir stuðning alþjóðastofnana og héraðsins við flóttafólk af skornum skammti, fjölskylda hennar hafi átt kýr í Suður-Súdan og átt auðvelt með að fá fiskmeti en hvorki nautakjöt né fiskur sé á boðstólum fyrir flóttafólk í Úganda. Hún kveðst ánægð með að börnin geti gengið í skóla en kvartar undan því að þau fái of lítið að borða, matarskammtarnir séu of litlir. Þá segir Achol að hún óttist að hún snúi ekki aftur heim til Suður-Súdan á næstu árum; meðan ófriðurinn geisar sé betri kostur að búa í Úganda.

Í nágrenninu býr Martha Nyapot sem kom yfir til Úganda í febrúar. Hún hefur komið sér upp afdrepi fyrir sjálfa sig og fimm börn en hún flúði átökin í Suður-Súdan eftir að eiginmaður hennar var myrtur. -Hún segir að lífsbaráttan sé hörð og miklu erfiðari en hún hafi áður kynnst, einkum vegna þess að hún eigi enga peninga og stuðningurinn sé takmarkaður. Hún lýsir hins vegar yfir ánægu með skólana sem börnin sækja. Martha segir aðspurð að hún geti ekki hugsað til þess að fara aftur heim til Suður-Súdan fyrr en tryggt sé að hún geti boðið börnum sínum öruggt umhverfi - því miður séu engar líkur á því að það gerist í bráð.

Landið afhent gjaldfrjálst til flóttafólks
Jacob Opiyo sem stýrir neyðaraðstoð UNICEF segir að landið þar sem flóttamannasamfélögin rísa sé ekki í eigu ríkisins heldur séu það héruðin sjálf sem eigi landið og látið það af hendi gjaldfrjálst til flóttafólks. Hins vegar stýri skrifstofa forsætisráðherra aðgerðum á vettvangi og hlutist til um að fá land til umráða en þess séu líka dæmi að héraðsstjórnir bjóði landið að fyrra bragði í þágu flóttamanna.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fjölmargar aðrar alþjóðastofnanir koma síðan að framkvæmdum við að undirbúa landið undir komu flóttamanna, búa til vegi, skilgreina landskika fyrir hverja fjölskyldu, reisa heilsugæslustöðvar og skóla, byggja varanleg almenningssalerni og vatnsveitur, svo dæmi séu nefnd.

Stefán Jón Hafstein forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda hreifst af skipulagningu heimamanna þegar hann kynnti sér flóttamannasamfélögin á dögunum eins og fram kemur í meðfylgjandi kvikmyndabroti. 


South Sudanese Flee One of Country's Last Peaceful Towns/ VOA
Ending South Sudan's Civil War / CFR



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum