Hoppa yfir valmynd
30.11. 2016

Jákvæð frétt frá Afganistan

https://youtu.be/Eqb1XQEfQuE Þær fáu fréttir sem berast frá Afganistan eru oftar en ekki neikvæðar; sjálfsmorðsárásir, vaxandi áhrif uppreisnarmanna, valmúarækt og bág staða kvenna. Þegar fjallað er um konur, sérstaklega konur á suðurhveli jarðar, er í mörgum tilfellum fjallað um konur sem einsleitan hóp: undirokaðar, fórnarlömb aðstæðna, trúarbragða, landsvæðisins sem þær búa á eða slæðunnar sem þær bera, fremur en gerendur í eigin lífi. Ætlunin er ekki að mála hér einhverja glansmynd af stöðu mála. Afganistan á enn langt í land og margt þarf að breytast: enn er gjá á milli stöðu kvenna í borgum og hinum dreifðari byggðum, stór hluti afganskra kvenna verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni, almenningsálit er oft óvægið: konur sem hætta sér inn á hið almenna svið þurfa ekki einungis að kljást við viðhorf sinna nánustu og samfélagsins, heldur mæta oft áreitni frá karlkyns vinnufélögum eða á götum úti. Þetta gerir afganskar konur ekki sjálfkrafa að fórnarlömbum, margar afganskar konur eru ekki aðeins gerendur í eigin lífi, heldur fulltrúar breytinga sem láta raddir sínar óma, hvort sem er í sínu nánasta umhverfi eða á öðrum og stærri vettvangi.

Unnið að því að bæta hlut kvenna
Alþjóðasamfélagið hefur undanfarin ár unnið að því jöfnum höndum að stuðla að öryggi og þróun í Afganistan, þ.m.t. að auka hlut kvenna í afgönsku samfélagi, sú vinna skilar sér ekki á einni nóttu. Það er sýnilegur og merkjanlegur árangur af þessari vinnu og auðvelt er að þylja upp tölur því til stuðnings. Mæðradauði og ungbarnadauði hefur lækkað verulega, meðalaldur hefur hækkað, hlutfall stúlkna í skólum landsins hefur margfaldast. Stúlka sem hlýtur menntun er mun líklegri til að styðja og stuðla að menntun sinna barna og þá sérstaklega dætra síðar meir. Þetta segir þó einungis hluta sögunnar, sú breyting sem er hvað mikilvægust og verður ekki mæld í tölum eða fjárframlögum eru smitáhrifin: fjárfesting í einni stúlku eða konu getur haft margföld áhrif umfram þau augljósu og mælanlegu til lengri tíma. Breytingar á viðhorfum sem verða fyrir tilstilli þeirra fjölmörgu kvenna og manna, sem hafa á einn eða annan hátt haft hag af þessari vinnu verða seint mæld. Einstaklingar sem storka algengum viðhorfum og gildum samfélagsins og þar með feðraveldinu sjálfu.

Kyndilberar breytinga
Konan sem starfar í hefðbundnum karllægum geirum, t.d. lögreglu eða her, á ekki eingöngu þátt í að stuðla að auknu öryggi og hreyfanleika kvenna í nærumhverfi sínu heldur storkar hún hugmyndum um hefðbundin kynjahlutverk og þar með hugmyndum þeirra drengja og stúlkna sem verða á vegi hennar um hvað konur eigi, geti og megi. Faðirinn sem ákveður að leyfa unglingsdóttur sinni að halda áfram menntun sinni, þrátt fyrir ákúrur karlkyns ættingja og vina um að slíkt sé ekki viðeigandi. Hópur ungra manna í Kabúl sem gengur um götur og mótmælir kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn konum. Þetta fólk er dæmi um hina raunverulegu kyndilbera breytinga, nýrra hugmynda og vonandi nýrrar framtíðar í Afganistan. Fræunum hefur verið sáð, þetta fólk ber þau áfram og plantar, stundum í móttækilegan svörð og stundum ekki - en garðurinn sprettur ekki á einni nóttu.

Þetta er hluti þess fólks sem hefur orðið á vegi mínum hér í Kabúl undanfarna mánuði. Þetta er jákvæð frétt frá Afganistan.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum