Hoppa yfir valmynd
30.11. 2016

Plastflöskuhús í Úganda

Plastic-bottle-constructionÁ undanförnum mánuðum hef ég kynnst ótal ólíkra verkefna og samtaka í Úganda sem öll hafa það að markmiði að gera landið að betri stað að búa á.   Þá eru ein samtök sem ég tel að séu sérstaklega til eftirbreytni en þau kallast SINA (The Social Innovation Academy). Samtökin byrjuðu upphaflega sem frjáls félagasamtök sem veittu munaðaralausum börnum fjárhagslegan stuðning til að ljúka framhaldsmenntun. Eftir að börnin luku framhaldsmenntun héldu þau út á vinnumarkaðinn, án árangurs-en Úganda er ein yngsta þjóð í heimi með um 77% íbúa landsins undir 30 ára aldri. Atvinnuleysi er eftir því, en 83% úganskra ungmenna á aldrinum 15-24 ára eru án vinnu.   Þegar ljóst var hversu erfitt ungmennin áttu með að fá vinnu að loknu námi urðu samtökin að því sem þau eru í dag; vettvangur til að veita ungu fólki sem kemur úr erfiðum aðstæðum tækifæri til frumkvöðlastarfs með því að skapa sér vinnu í stað þess að leita að vinnu.

Ástæða þess að ég tel SINA skera sig frá flestum öðrum samtökum sem ég hef kynnst er hversu umhverfismiðuð þau eru. Þau nota umhverfið sem innblástur með því að líta á umhverfisleg vandamál sem vettvang til að skapa störf.  

Besta dæmið úr starfi SINA tel ég vera endurnýtingu þeirra á plastflöskum. Í Úganda er endurvinnsla lítil sem engin en áætlað er að einungis um 1% plasts sé endurunnið. Algengast er að plastið sé brennt með tilheyrandi loftmengun sem ekki einungis er slæm fyrir umhverfið, heldur getur slík loftmengun haft mjög skaðleg áhrif á heilsu fólks.  

Það sem SINA gerir er að þau safna plastflöskum sem liggja á víð og dreif um allt landið og byggja úr þeim hús. Að sögn SINA eru hús byggð úr plastflöskum jafn sterkbyggð og þau sem byggð eru úr múrsteinum; þau þola jarðskjálfta og eru skotheld, ásamt því að eiga að endast í 2000 ár. SINA hefur nú þegar byggt nokkur plastflöskuhús og rekur meðal annars gistiheimili þar sem gestir geta sofið í húsi byggðu úr plastflöskum.  

Helstu umhverfislegu áhrif þess að nýta plastflöskur til að byggja hús eru augljós; að endurnýta plast í stað þess að brenna það og þar af leiðandi að minnka loftmengun.  

Önnur jákvæð umhverfisleg áhrif eru að skipta múrsteinum, sem eru eitt algengasta byggingarefnið í Úganda, út fyrir plastflöskur. Múrsteinar eru búnir til úr leir sem er brenndur með við sem fæst úr skógum landsins. Eyðing skóga er stórt vandamál á heimsvísu og þar er Úganda engin undantekning, en talið er að ef ekki verði gripið inn í eyðingu skóga landsins verði þeir svo gott sem horfnir eftir um 50 ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum