Hoppa yfir valmynd
07.12. 2016

Chief Kachindamoto

Pistillasa2Í síðustu viku lá leið okkar í sendiráðinu í Lilongwe í dagsferð til Kachindamotobæjar í Dedza héraði. Héraðshöfðingi Dedza, Theresa Kachindamoto, hafði boðið okkur í heimsókn en hún er nýjasti samstarfsaðili okkar hérna í Malaví og ætlar að aðstoða höfðingja í Mangochi að finna leiðir til að takast á við barnahjónabönd sem eru mikið vandamál í héraðinu og í landinu öllu.

Hefur ógilt yfir 1500 barnahjónabönd
Theresa Kachindamoto er yngst tólf systkina og kemur úr fjölskyldu héraðshöfðingja. Þar sem hún var yngst og þar að auki kona bjóst hún ekki við því að verða höfðingi sjálf og reyndi meira að segja sem best hún gat að afþakka stöðuna þegar hún bauðst. Hún hafði unnið sem ritari guðfræðiháskólans í Zomba hátt í 30 ár þegar hún fékk kallið og sagði okkur að hún hefði snúið heim í hérað full efasemda um að hún væri að gera rétt og ekki sannfærð um að nokkur vildi hafa hana sem höfðingja. Henni til mikillar undrunar tók fólkið á móti henni með fagnaðarlátum og eftir að hafa rætt örstutt við guð sagðist hún hafa áttað sig á því að þetta væri það sem hún ætti að gera. Þetta var árið 2003 og síðan þá hefur Kachindamoto komið í veg fyrir eða ógilt yfir 1500 barnahjónabönd, hvort sem það er á milli tveggja barna eða barns og fullorðins einstaklings. Hún hefur einnig barist ötullega á móti skaðlegum vígsluhefðum sem stundaðar eru sums staðar í Malaví og miða að því að undirbúa börn undir hjónaband í gegnum kynlífsathafnir.  

Eins og áður sagði eru barnahjónabönd mikið vandamál í landinu. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar - fátækt veldur því oft að foreldrar sjá einfaldlega bara hag sinn í að gifta dætur sínar en þannig er munninum færri að fæða og jafnvel fylgir einhver greiðsla frá eiginmanninum tilvonandi; börn sem eignast börn saman eru látin giftast eða gera það af fúsum og frjálsum vilja; trúarbrögð og hefðir þeim tengdar geta hvatt til giftinga o.s.frv. Hver sem ástæðan er þá eru þau skaðleg barninu og samfélaginu í heild en lang oftast leiða þau til þess að börnin hætta í skóla og fara að sinna heimilinu og eignast börn.        

Það að ráðast gegn rótgrónum hefðum eins og þeim sem barnahjónabönd byggja oft á er ekki auðvelt og sérstaklega ekki ef það er kona sem er að rísa upp gegn hefðum jafn karllægs samfélags og Kachindamoto stendur frammi fyrir. Hún sagði okkur frá því að þegar hún fyrst tilkynnti það að hún ætlaði sér að stöðva barnahjónabönd og misnotkun á börnum í héraðinu þá mætti hún mikilli mótstöðu og var hreinlega spurð að því hvort hún vildi deyja. Hún glotti óhrædd þegar hún sagði okkur frá þessu en svar hennar var á þann veg að þeir mættu drepa hana þegar hún væri búin með þetta verkefni sem hún ætlar sér að klára og að hún muni þá sitja sátt hjá guði, stolt af sínu ævistarfi. Í malavískum lögum eru hjónabönd einstaklinga undir átján ára aldri bönnuð en vandamálið er að í stjórnarskrá landsins er einstaklingur sagður gjaldgengur í hjónaband þegar hann nær fimmtán ára aldri. Þetta ósamræmi auðveldar fólki að komast framhjá lögum en einnig eru mörg hjónaböndin svokölluð hefðarhjónabönd eða "customary marriages" sem þýðir að þau eru ekki endilega viðurkennd af ríkinu heldur þurfa þau einungis samþykki þorpshöfðingjans. Fjölkvæni er til dæmis þó nokkuð algengt í Malaví en fjölkvænishjónabönd eru alltaf hefðarhjónabönd hér þar sem þau eru bönnuð með lögum. 

 
Hjálög í héraði
Til að ná fram þeim árangri sem raun ber vitni hefur Kachindamoto þurft að vera ákveðin, hörð af sér og staðföst. Hún sagði okkur frá því að hún hafi komið á hjálögum í sínu héraði sem bannar þorpshöfðingjum að gefa leyfi fyrir barnahjónaböndum og hún hefur verið hörð á því að þessum hjálögum skuli fylgt eftir. Fljótlega eftir að hjálögin voru sett á urðu nokkrir þorpshöfðingjar uppvísir að því að hundsa þau - þeir létu múta sér til að leyfa hjónabönd sem samkvæmt lögunum er harðbannað. Kachindamoto kallaði umrædda höfðingja á fund með sér og leysti þá frá störfum sem þorpshöfðingjar fyrir brot sín - hún gerði þeim það strax ljóst að hún ætlaði ekki að sýna neina linkind í þessari baráttu. Hún tekur það þó fram að hún trúi á það að fólk geti bætt sig og þorpshöfðingjarnir óþekku fengu annað tækifæri eftir að hafa ógilt hjónaböndin sem þeir leyfðu og hún var búin að fá staðfestingu frá skólastjórum í þorpunum þeirra þess efnis að stúlkurnar væru mættar aftur í skólann. Í þessari heimsókn okkar til Kachindamoto voru þessir þorpshöfðingjar sem höfðu fengið annað tækifæri einnig viðstaddir. Mæðrahópur í þorpinu setti upp leiksýningu fyrir okkur sem sýndi afleiðingar þess að brjóta hjálögin en leikritið fjallaði einmitt um þorpshöfðingja sem samþykkti að unglingsstúlka mætti giftast náunga sem lofaði henni gulli og grænum skógum fyrir - og höfðinginn átti að sjálfsögðu að fá smá fyrir sinn snúð líka. Til að gera langa sögu stutta þá komst þetta brask hans upp þrátt fyrir það að hann hefði beðið alla um að hafa hljótt um þetta svo Kachindamoto kæmist ekki að því og hann var að sjálfsögðu rekinn með skömm. Ég neita því ekki að það var lúmskt gaman að fylgjast með raunverulegu höfðingjunum á meðan á leiksýningunni stóð en þeir hafa þó lært sína lexíu og fulltrúi þeirra hélt fyrir okkur ræðu eftir sýninguna þar sem hann ræddi brot sín og yfirbót. 

 
Kachindamoto er ótrúlega heillandi kona, ástríða hennar fyrir málefninu var augljós og hreif okkur auðveldlega með þegar hún sagði okkur sögununa sína. Hún trúir því staðfast að menntun spili lykilhlutverk fyrir heiminn allan og þá sérstaklega menntun stúlkna - "Educate a girl and you educate the whole area...you educate the world!" segir hún. Við hlökkum mjög til að fá að vinna meira með henni, og höfðingjunum í Mangochi, að því mikilvæga takmarki að útrýma barnahjónaböndum.                     

             

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum