Hoppa yfir valmynd
07.12. 2016

Ný stefnumið fyrir Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP

https://youtu.be/K5EGPxntaOQ Nýverið samþykkti framkvæmdastjórn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP) ný stefnumið fyrir árin 2017-2021. WFP er stærsta mannúðarstofnun í heimi með höfuðstöðvar í Róm á Ítalíu og skrifstofur í um 80 löndum. Hjá stofnuninni starfa um 11 þúsund manns, langflestir á hamfarasvæðum þar sem fæðuaðstoðar er þörf til fórnarlamba stríðsátaka eða náttúruhamfara. Á hverju ári veitir stofnunin að meðaltali 80 milljón manns fæðuaðstoð sem er að öllu leyti fjármögnuð með frjálsum framlögum frá aðildarríkjunum.       

Áætluð framlög til verkefna WFP árið 2016 eru um 5,6 milljarðar Bandaríkjadala (dollara) sem eru um 626 milljarðar íslenskrar króna, sem er upphæð nálægt því að vera jöfn öllum ríkisútgjöldum á Íslandi. Bandaríkin hafa alltaf verið stærsta framlagaríkið en frá þeim komu um 40% allra framlaga árið 2015. Norðurlöndin leggja mikla áherslu á samstarfið við WFP, en framlög þeirra það ár námu um 275 milljónum dollara sem voru um 5,4% af heildar framlögum. Borið saman eftir höfðatölu voru framlög hvers íbúa á Norðurlöndunum í dollurum á ári, í Noregi 18, Danmörk 10, Svíþjóð 9, Finnland 6 og Ísland 3, samanborið við Bandaríkin þar sem framlagið er um 6 dollarar.

Rammasamningur við utanríkisráðuneytið
Nýverið var skrifað undir stefnumarkandi rammasamning milli utanríkisráðuneytisins og WFP um framlög Íslands til verkefna stofnunarinnar. Í samningnum skuldbindur Ísland sig til að veita fyrirsjáanleg framlög og gefur um leið stofnuninni svigrúm til þess að beina þeim þangað þar sem mest er þörf á neyðaraðstoð og bjarga þarf mannslífum.

Á næstu fimm árum greiðir Ísland, á grundvelli samningsins, að minnsta kosti 250 milljónir króna í framlög til WFP.

Stefnumið fyrir WFP
Gerð nýrra stefnumiða fyrir WFP voru fyrir margra hluta sakir áhugaverð, en endurskoðunin fór af stað skömmu eftir að SÞ samþykktu nýHeimsmarkmið í september 2015. Stofnunin er því ein af þeim fyrstu innan SÞ sem fer í gegnum slíka heildarendurskoðun eftir að heimsmarkmiðin tóku gildi. Eitt af grundvallar atriðum hinna nýju heimsmarkmiða er að öll markmiðin 17 eru samþætt og órjúfanleg, þau eru hluti af heild þar sem þau styðja við hvort annað og árangur þarf að vera á öllum sviðum.

Þegar WFP lagði fram fyrstu drög að stefnumiðunum í upphafi árs kom í ljós að stofnunin tók hugmyndafræði hinna nýju heimsmarkmiða alvarlega. Fyrstu drög voru harðlega gagnrýnd fyrir að ætla að sveigja WFP frá því að vera mannúðarstofnun, sem bregst við bráða hungursneið og næringarskorti, yfir í stofnun sem veitir þróunaraðstoð ríkjum sem búa við bágt ástand í fæðuöryggismálum.

Norðurlöndin gerðu strax athugasemdir við þessar áherslur í fyrstu drögum að stefnumiðunum, þróunaraðstoðin væri einungis 6,9% af verkefnum WFP þegar mannúðaraðstoðin væri 80,5% (neyðar- og framhaldsaðstoð, 42% + 38,5%), séraðstoð 7,6% (svo sem fjarskipti og flutningar) og að lokum 5% í önnur verkefni. 

Alls voru átta útgáfur að stefnumiðunum lagðar fyrir aðildarríkin en þau breyttust smátt og smátt í þá veru sem aðildarríkin voru tilbúin að samþykkja á framkvæmdastjórnarfundi í nóvember sl. Stefnumiðin leggja áherslu á að WFP leggja sitt af mörkum til tveggja heimsmarkmiða, númer 2 um að útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði og númer 17 um að styrkja framkvæmd og blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun.

Við gerð stefnumiðanna kom berlega í ljós að það getur verið grýttur vegur fyrir stofnanir SÞ að aðlaga stefnu sína að heimsmarkmiðunum. Það kom líka á daginn þegar seint í ferlinu yfirstjórn FAO lagðist yfir drögin og gerði sínar athugasemdir. Í þeirra huga var WFP að fara langt út fyrir sitt verksvið og þannig að sælast í fjármuni sem annars færu til FAO. WFP neitaði þessu staðfastlega en afstaða FAO varð samt til þess að stefnumiðin breyttust töluvert á seinni stigum, þar sem tekið var mikið tillit til sjónarmiða þeirra.

Segja má að innrás FAO í umræðuna hafi fært stefnumiðin nær hagsmunum framlagaríkjanna sem líta á WFP sem mannúðarstofnun og veita henni framlög í samræmi við það. Aftur á móti studdu þróunarríkin sjónarmið WFP, hagsmunir þeirra voru að tryggja að áfram væru skrifstofur og verkefni WFP í sem flestum ríkjum. Hreinar línur hvað varðar verksvið stofnana SÞ var ekki mikilvægasta málið fyrir þeim, þau vilja geta valið sér samstarfsaðila og segja ekki nei við þróunarverkefnum WFP.   Stefnumið WFP má finna á vef stofnunarinnar.                         

                 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum