Hoppa yfir valmynd
07.12. 2016

Silfurfiskurinn á meiri virðingu skilið - ekki aðeins fæði fyrir fátæklinga og ferfætlinga

https://youtu.be/x1k0VNQun_o Konur í fiskimannaþorpinu Kiyindi í Buikwe héraði í Úganda stofnuðu samtök árið 2010 í því skyni að auka verðmæti silfurfisksins: mukene. Þær vildu líka auka virðingu fyrir þessum smágerða fiski sem almennt var talinn fóður fyrir fátæklinga og ferfætlinga. Og þær vildu með stofnun samtakanna afla fiskverkakonum aukinna tekna. Í upphafi voru konurnar fimmtán í samtökunum Kiyindi Women Fish Processors Association, nú eru þær áttatíu.

Logose Perus framkvæmdastýra KWFPR segir að samtökin hafi tekið frumkvæði að viðhorfsbreytingu í samfélaginu með því að kynna mukene sem hollustufæði fyrir alla. Samtökin hafi líka staðið fyrir vöruþróun með því að meðhöndla fiskinn með mismunandi hætti og koma afurðum á markað: í duftformi, steiktur sem snakk, framleiddur heitreyktur og loks með hefðbundnu sniði: sólþurrkaður.

Logose segir vandað til vinnslunnar, allur fiskur sé þurrkaður á grindum en ekki á jörðinni með tilheyrandi óþrifnaði. Hún segir að flestar konurnar í samtökunum séu einstæðar mæður, hafi ekki fasta atvinnu og bæti lífsafkomu sína með starfi á vegum samtakanna. Að sögn hennar hafa samtökin náð þó nokkrum árangri í sölu á vörum sínum, nóg til þess að hafa átt þess kost að leggja dálítið fé til hliðar og hugmyndin sé að treysta reksturinn með því að hefja hænsnarækt.

Vilja vernda vatnið
Starf kvennanna í Kiyindi, sem er eitt af stærstu fiskimannasamfélögum í Buikwe, hefur vakið talsverða athygli í Úganda, ekki síst fyrir frumkvæði þeirra að þurrkgrindum fyrir silfurfiskinn sem áður var eingöngu sólþurrkaður á jörðinni. Logose hefur einnig talað ákveðið um gæði matvæla, um mikilvægi þess að konur standi saman í baráttunni fyrir betri lífskjörum og hún vill að gripið verði til aðgerða til verndar Viktoríuvatni og fiskistofnum þess. Þá sér hún fyrir sér að samtökin eignist hugsanlega í framtíðinni bát og þá fyrst geti hugsast að karlar fái inngöngu.                            


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum